Greinasafn fyrir merki: galdur
Rún dagsins er Ingvi
Ingvi/Yngvi er frjósemisrún. Hún táknar konunginn sem átti vald sitt undir því að guðirnir blessuðu ríki hans með góðu árferði. Áður fyrr þótti heillavænlegt að grafa rúnina undir þröskuldi gripahúsa til þess að auka frjósemi búfjár. Ingvi hentar vel í heillagripi og galdrafólk notar þessa rún í galdra sem eiga að tryggja fjárhagslegt öryggi og eins til frjósemisauka.
Í rúnalögn táknar Ingvi barnsfæðingu eða að spyrjandinn muni senn ná veraldlegu markmiði sem hann hefur unnið að lengi. Tími friðar og velmegunar er framundan. Ef bölrún kemur upp á eftir Ingva er því ástandi ógnað. Elskendum boðar rúnin góða sambúð og barnalán.
Rún dagsins er Lögur
Lögur er andlegust rúna. Hún táknar vatnið sem þrátt fyrir mýkt sína er einn af frumkröftum náttúrunnar, í senn lífgefandi og eyðandi. Lögur er lækningarún og einnig notaður sem tákn þess sem finnur sér farveg fram hjá hindrunum ef hann getur ekki rutt þeim úr vegi. Þakklæti og hugarró þarf til að rúnin hafi áhrif í galdri.
Í rúnalestri getur Lögur táknað lækingu, kærleika og andlega næringu. Ef spyrjandinn er námsmaður, frumkvöðull, listamaður eða fæst við umönnun eða sálgæslu, boðar Lögur honum gæfu. Ef hann er í vandræðum mun hann finna leið út úr þeim af eigin rammleik.
Rún dagsins er Maður
Mannsrúnin er torræðasta rún norræna rúnarófsins. Hún táknar sjálfsvitund mannsins. frjálsan vilja hans og hæfni hans og skyldu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og líta heiminn og sjálfan sig gagnrýnum augum, án þess að vera niðurrífandi. Rúnin er notuð í galdri þegar reynir á rökhyggju og viljafestu og einnig þar sem þörf er fyrir góð samskipti.
Í rúnalestri táknar Maður sjálfstæði og viljafestu spyrjandans ef hún kemur upp ein en með öðrum rúnum getur hún táknað aðra manneskju, vin, fjölskyldumeðlim, ráðgjafa eða óvin, allt eftir því hvaða rúnir standa með henni.