Svar til Hlyns

Hlyni finnst afstaða mín til ofbeldis vera þversagnakennd og svarið útheimtir heila færslu. Flest af þessu hef ég nú svosem sagt einhversstaðar áður.

Ég er mótfallin ofbeldi Hlynur en þar fyrir verður fólk að hafa einhverja leið til að verja sig þegar á það er ráðist.

Sjálfsvörn er ekki ofbeldi og ég held að flestir hafi þá afstöðu enda þótt hugtakið sjálfsvörn sé ekki til í íslenskum lögum. Ég fordæmi ekki valdalaust fólk sem kastar grjóti í vopnaða hermenn, þótt ég myndi ekki gútera að það kastaði grjóti hvert í annað.

Réttlætibarátta háð með skemmdarverkum og hávaða er ekki ofbeldi. Ástæðan fyrir því að ég hef kosningarétt er sú að í upphafi 20. aldar, gengu breskar konur berserksgang, brutu rúður og brenndu kirkjur. Ef þú ætlar að fordæma allar aðgerðir sem valda saklausum ótta og óþægindum, þá verður þú að vera tilbúinn til að lifa í heimi þar sem langflestir menn hafa í skársta falli stöðu húsdýra.

Ég styð ekki tilefnislausa árás á lögregluna, ekki frekar en maður sparkar í hund bara af því að hann er grimmur. En ef blóðhundur nálgast þig urrandi þá kastar þú einhverju að honum til að hrekja hann burt, það er bara mannlegt eðli. Það er ekki ofbeldi skvetta jógúrt á þann sem ætlar að pína þig með því að úða eitri í augun á þér. Það er ekki einu sinni ofbeldi að kasta grjóti að brynvörðum skrímslum sem æða á móti þér með vélsagir á lofti. Það eru eðlileg viðbrögð, einkum gagnvart þeim hafa t.d. barið sama manninn með kylfum á sama stað líkamans, svo oft að skaðinn er sennilega varanlegur. Því það er þannig sem íslenska sérsveitin vinnur, með skipulögðu ofbeldi, í fullvissu þess að 97% af kærum á hendur lögreglunni er vísað frá.

Fyrir aðeins ári síðan hefði ég talið réttari viðbrögð hjá hústökufólkinu að verjast ekki, heldur bara setjast niður og bíða þar til þeir kæmu inn og láta þá handtaka sig án mótþróa. En þegar maður verður fyrir barðinu á þessum föntum sjálfur eða horfir upp á einhvern sér nákominn meiddan þá breytist viðhorf manns. Það er ekkert göfugt við að leggjast niður og láta sparka í sig.

Lögreglan er ekki bara saklaust fólk sem er að ‘vinna sína vinnu’. Lögreglan er hluti af yfirvaldinu. Aðalhlutverk hennar er að verja valdastofnanir og þá fáu sem í skjóli auðs, laga og/eða pólitískra tengsla sinna ræna þá fátæku, undiroka þá hlýðnu, múta, ógna og beita blekkingum, til að færri og færri menn öðlist meiri og meiri völd. Þeir gætu þetta ekki nema vegna þess að þeir geta sigað vopnuðum mönnum sem eru þjálfaðir til ofbeldis, gegn þeim sem ögra valdi þeirra. Lögreglan er því stærsti og versti óvinur allrar andspyrnu.

Lögreglumenn eru eina fólkið í samfélaginu sem hefur lagalegan rétt til að beita ofbeldi. Þeir ganga sjálfviljugir í gegnum heilaþvottarprógramm og fallast á að hlýða skipunum yfirboðara, hversu ógeðfelldar sem þær eru. Þegar þeir skaða einhvern eru þeir ‘bara að vinna vinnuna sína.’ Þetta eru þannig menn með mikið vald en enga ábyrgð og slíkt fólk er mjög, mjög hættulegt, enda þótt það sé gott og yndislegt fólk að upplagi og gæti kannski læknast með góðri sálfræðimeðferð. En þótt þetta séu veikir menn, komu þeir sér í þessar aðstæður sjálfir.

Hluti af starfi lögreglunnar felst í því að vernda venjulegt fólk og koma til hjálpar ef hætta steðjar að okkur. Ég virði það hlutverk, sem krefst sjaldan valdbeitingar og er mun skyldara störfum björgunarsveita en hers. Okkur ætti að nægja slík lögregla. Ég er þó búin að sjá svo margt ljótt til lögreglunnar að ég er líka hætt að treysta lögreglumönnum í þeim hlutverkum.

Ástæðan fyrir þessum hörðu viðbrögðum lögreglunnar gegn hústökufólkinu er ekki sú að það hafi verið nauðsyn að koma því út strax, heldur sú að beinar aðgerðir virka. Hundtík auðvaldsins (þ.e. lögreglan) veit að hústökur hafa í flestum löndum Evrópu skilað þeim árangri að auðmenn komast ekki lengur upp með að misnota eignarréttarhugtakið á sama hátt og þeir gera hér. Markmiðið var því ekkert að ná fólkinu út úr þessu húsi, heldur að brjóta á bak aftur, þau öfl sem fá fólk til að efast um rétt eignarhaldsfélaga til að stjórna skipulagsmálum. Þetta fólk er ekki hættulegt af því að það kasti jógúrt, heldur af því að það ógnar valdastrúktúrnum.


Hvað mín viðbrögð við þessu tré varðar, þá brást ég við af meiri sárindum og reiði en efni stóðu til. Fyrir mig hafa hlutir sem skipta flesta litlu máli stundum djúpa merkingu. Hljómar kannski eins og geðbilun en þetta tré var svolítið líkt því að eiga gamalt sendibréf frá látnum ástvini. Þú lest það ekki daglega, þú tekur það ekki með þér á ferðalög en það skiptir þig samt máli að vita af því. En auðvitað vissu nágrannar mínir þetta ekki.

Reiðin í mér hefur svo aftur pólitíska tengingu sem kann líka að hljóma annarlega. Það er hægt að gera líf fólks að helvíti án þess að brjóta lög (fasismi þrífst t.d. á því) og það er nógu slæmt að yfirvaldið geri það iðulega þótt lögin séu ekki líka grundvöllur samskipta milli nábúa. Hugmyndin um að halda uppi löglegum en algerlega siðlausum aðgerðum átti að koma því til skila, hvort sem það tæki einn klukkutíma eða heilt ár, að enginn muni nokkurntíma komast upp með að hundsa álit mitt bara af því að það er löglegt. Hugsunin var rétt hjá mér en ég klikkaði á því að lofa fólkinu að njóta vafans. Þetta hefur líklega verið hugsunarleysi fremur en meðvitaður yfirgangur hjá þessum annars ágætu nágrönnum mínum og þegar ég loksins trúði því, bað ég gesti mína að viðhafa hófsemi í kæti sinni. Þetta var ósköp pent. Hljóðfærin og singstarkerfið voru skilin eftir út í bíl og sá síðasti fór kl 12:50.

 

One thought on “Svar til Hlyns

  1. ——————————–
    Ég samhryggist innilega vegna trésins. Ég „á“ líka tré, linditré sem ég horfi á meðan ég borða og þegar ég þarf að láta mig dreyma. Ég tala við það, fylgist með ástandinu á því og ég var gersamlega miður mín í margar vikur þegar ráðist var á það með vélsög til að „snyrta það“ eitt vorið. Mér var sagt að það væri hollt fyrir tréð, en ég trúi því ekki enn. Það hefur þó náð sér nokkuð vel og ég er búin að sætta mig við þetta undarlega atvik. En þá gerði ég mér grein fyrir þessari ást minni á trénu, annarlegri eða ekki, og mig grunar að ég skilji þig vel.

    Posted by: Kristín | 20.04.2009 | 8:32:35

Lokað er á athugasemdir.