Stjaksetning í nútímanum

Saddam Hussein

Á mælikvarða veraldarsögunnar er ekki ýkja langt síðan Íslendingar höfðu þann sið að hálshöggva morðingja og stjaksetja höfuð þeirra. Aftökur voru opinberar, hvort sem afbrotamaðurinn var höggvinn, hengdur, brenndur eða honum (réttara sagt henni) drekkt. Aftökunni sjálfri var þar með ætlað að þjóna því hlutverki að vera öðrum víti til varnaðar og enginn þurfti að velkjast í vafa um að það væri raunverulega hinn dæmdi en ekki einhver annar sem var tekinn af lífi. Stjaksetningin var nokkurskonar viðbót við aftökuathöfnina og tilgangur hennar fyrst og fremst sá að lítilsvirða morðingjann og fjölskyldu hans.

Þótt saga Agnesar og Friðriks geti ekki talist forn, er nánast óhugsandi að dauðarefsing, hvað þá stjaksetning verði nokkurntíma tekin upp á Íslandi aftur. Hver sem styngi upp á öðru eins, yrði álitinn brjálaður, samviskulaus, heiftúðugur og grimmur. Margir myndu álíta að hann væri haldinn kvalalosta. Flestir myndu hafna þeim rökum að með því að stjaksetja höfuð glæpamannsins, væri hægt að sannfæra fórnarlömb og almenning um að aftakan hefði raunverulega farið fram. Ennþá fleiri myndu hafna þeim rökum að það væri makleg niðurlæging fyrir þá sem fremja voðaverk að vita til þess að höfuð þeirra verði höfð til sýnis.

Ég ber enga virðingu fyrir sonum Saddams Husseins og ég hef enga samúð með þeim heldur. En að bjóða fjölmiðlum til sýningar á illa útleiknum líkum þeirra, í þeim tilgangi að myndir verði birtar opinberlega um allan heim; mér finnst það satt að segja minna á stjaksetningar fyrri alda og ég dreg í efa að megintilgangurinn sé sá að sannfæra heimsbyggðina um að líkin séu raunverulega af þeim bræðrum.