Mér finnst dapurlegt þegar fólk er svo háð gemsanum sínum að það getur alls ekki slökkt á honum. Maður getur nánast aldrei verið viss um að fá að tala við vini sína í friði því maður getur alltaf átt von á að síminn hringi eða viðkomandi verði bara að svara sms skeyti, hvort sem maður er staddur heima eða á veitingahúsi. Reyndar finnst mér þetta gegndarlausa símamal oft beinlínis dónalegt.
Á kaffihúsi
Mér þætti það ekki kurteisi ef ég væri stödd á kaffihúsi með vinkonu minni og hún færi frá mér og settist við annað borð til að spjalla við fólkið þar í 10 mínútur. Slíkt myndu fáir gera nema við sérstakar aðstæður. Hinsvegar virðist fólki finnast allt í lagi að svara 4-5 símtölum þegar það situr með annarri manneskju á kaffihúsi. Ég sé ekki eðlismun á þessu tvennu.
Í bíó
Ennþá verra finnst mér þegar fólk tekur gemsann sinn með sér í bíó og gleymir að slökkva. Síðast þegar ég fór í bíó svaraði stelpa sem sat skammt frá mér 2 símtölum á meðan á sýningu myndarinnar stóð og það bendir nú til þess að henni hafi bara fundist þetta allt í lagi því ef hún hefði gleymt að slökkva hefði hún áttað sig þegar fyrri hringingin kom.
Við athafnir
Sjálfsagt eru skiptar skoðanir um það hversu mikilli truflun það veldur þegar fólk finnur sig knúið til að tala í síma í bíó. Hljóðið er yfirleitt svo hátt stillt að maður er með verki í eyrunum fyrstu 10 mínúturnar, svo það nægir til að yfirgnæfa símtal á lágu nótunum. Það er hins vegar sjaldgæft að mjög öflug hljóðkerfi séu notuð við jarðafarir og vígsluathafnir og ég held að það hljóti flestir að vera mér sammála um að það sé algjört lágmark að fólk fái frið fyrir símhringingum við slík tækifæri. Það gekk þessvegna fram af mér í gær, þegar ég var stödd við jarðarför og gsm sími hringdi hátt og snjallt á meðan á athöfninni stóð. Þetta gerðist þrátt fyrir að fólk hefði í upphafi athafnarinnar verið beðið um að slökkva á öllum símum.
Ef þetta væri einsdæmi gæti maður bara gleymt þessu en fyrir skömmu var ég stödd við doktorsvígslu þar sem sími hringdi, þegar afi minn var jarðsunginn fyrir 4 árum, hringdi sími undir útfararræðunni og vinkona mín varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að þurfa að hlusta á símhringingu þegar amma hennar var kistulögð.
Þarf virkilega lögboð til að fólk sýni sjálfsagða kurteisi?
Ég skil reyndar ekki alveg hversvegna þarf stöðugt að minna fólk á að valda ekki truflun með símhringinum t.d. í leikhúsi, á tónleikum og í kirkju. Engum dettur í hug að taka vasadiskó eða hund með sér í aðstæður þar sem slíkt getur valdið truflun. Ætti ekki bara að vera sjálfsagt og eðlilegt að skilja símann eftir úti í bíl?
Ég er svona að velta því fyrir mér hvort þurfi virkilega að setja sérstök lög um notkun farsíma á almannafæri til þess að tryggja að fólk sýni þá lágmarksvirðingu að slökkva á símanum, a.m.k. við jarðarfarir og aðrar trúarlegar og borgaralegar athafnir. Kannski það verði gert þegar kemur að því að einhver verður jarðaður með gemsann á brjóstinu og rís upp undir líkræðunni til að svara.
——-
Tek undir þetta, þeir sem eru á bakvakt vegna öryggisstarfa þurfa að hafa síman tengdan en geta stillt á fundarstillingu. Aðrir eru bara tillitslausir almennir dónar sem eru í raun að segja að þú sért ekkert áhugaverð manneskja, þeir séu bara að bíða eftir sms eða símtali frá öðrum áhugaverðari viðmælanda.
Pabbi átti ekki gemsa en samt hryngdi einn undir kistulagningunni. Það truflaði mig.