Sjálfsvirðing beðmálalufsunnar

Í gær sá ég sjónvarpsþátt um lufsu sem stendur uppi húsnæðislaus, sökum eigin afglapa. Vill kaupa íbúð en reynist ekki lánshæf (vegna langvarandi verslunarbrjálæðis). Engin leiguíbúð sem hún ræður við er nógu fín fyrir hana. Hún borðar á veitingastöðum og notar leigubíla, því skórnir hennar eru ekki hannaðir til göngu. Hún fær nett dramakast yfir því að geta ekki keypt fleiri skópör til viðbótar þessum 100 sem hún á fyrir. Hún leitar „ráða“ hjá manni sem er margbúinn að fara illa með hana. Hún tekur geðbólguna út á vinkonu sinni sem bauðst ekki til þess að leysa málin fyrir hana og klikkir út með því að þiggja af henni lán, hring sem hefur tilfinningalegt gildi fyrir vinkonuna.

Fyrir tveimur árum stóð ég uppi heimilislaus. Ég klippti kreditkortið og tók fyrsta skítastarfinu sem mér bauðst þótt ég kæmist varla neðar í launum. Ekki af því mig langaði til þess heldur til að gera eitthvað í málinu, bara eitthvað. Ég tók á leigu tveggja herbergja íbúð í rassgati Hafnarfjarðar. Ég tilkynnti strákunum að grjónagrautur og pasta yrði á matseðlinum. Ég átti ekki 100 skópör, ekki einu sinni 10 en hefði ég átt þau hefði ég farið með þau í Kolaportið.

Þessar aðgerðir flokkaði kona nokkur sem skort á sjálfsvirðingu. Ég hefði nefnilega alveg getað sett mig í skuldir til að halda hærri standard og beðið eftir að skárra starf kæmi upp í hendurnar á mér. Ég vildi bara frekar lifa eins og einhver aumingi. Ég býst við að hún finni til samúðar með beðmálalufsunni.

Ef ég hefði verið 23ja ára eða verið töluvert verr á mig komin hefði ég kannski tekið mark á henni. Það þykir nefnilega ekki par fínt að hafa litla sjálfsvirðingu. Þótt enginn viti almennilega í hverju hún felst.