Sendum yfirmenn löggunnar í ormahreinsun til Kristínar

Kristín Ástgeirsdóttir gerir mistök eins og annað fólk. Að því leytinu er hún alveg óskaplega venjuleg manneskja. Hún er hinsvegar frekar óvenjulegur pólitíkus að því leyti að hún þarf ekki að ganga í gegnum margra mánaða fjölmiðlaeinelti og vakna upp við fólk með haka og heykvíslar úti á lóð hjá sér til að átta sig á því að reitt fólk róast yfirleitt þegar því verður ljóst að hinum ‘seka’ er ekki skítsama um það hvaða áhrif orð hans og gjörðir hafa.

Það er út af fyrir sig umhugsunarvert að leikmanni finnist afsökunarbeiðni frá manneskju í valdastöðu vera töluvert meiri frétt en mistökin. Heilbrigðu fólki líður yfirleitt ekki vel ef það mætir reiði og sárindum hvar sem það kemur og má furðu sæta hvað margir virðast óskaplega hræddir við að viðurkenna að þeir séu mannlegir. Minnir mann á sögurnar af hundum sem flúðu til fjalla þegar ormahreinsunarmaðurinn bankaði upp á en þeir höfðu þó slæma reynslu greyskinnin. Hefur einhver íslenskur áhrifamaður farið illa út úr því að viðurkenna mistök sín án eftirgangsmuna? Af hverju er það svona sjaldgæft? Heldur fólk að almenningur sjái ekki alveg að það er ófullkomið?

Ég legg til að Kristínu verði falið að halda námskeið fyrir stjórnmálamenn og embættismenn, í almennri kurteisi. Að vísu þarf sennilega framhaldsnámskeið fyrir ríkissaksóknara og yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglunnar en þjóð sem hefur efni á að greiða bankastjórum og öðrum siðferðislegum feitabollum ofurlaun, hlýtur að mega sjá af nokkrum þúsundköllum í slíka ormahreinsun.