Ef ég læt verða af því að gefa út orðabók með myndum, mun ég nota mynd af Ögmundi til nánari útlistunar á orðinu „vonbrigði“.
Af hjarta þeir vilja okkur vernda og gæta
og velfarnað tryggja, sem hafa okkur rænt.
Um hægri eða vinstri ég hirði ekki að þræta
en handbendi valdsins er Ögmundargrænt.
Þú braskaðir keikur með lífeyri landans
og lentir svo mjúklega í ráðherrastól.
Og mánuði síðar var fokið til fjandans
hvert frækorn af hugsjón sem hjarta þitt ól.
Af fasískri andagift frumvörp þú semur
um forvirkar njósnir og netlögguhóp,
og aðeins þeim, segir þú, illa það kemur
sem unglinga lemja og nauðga út á dóp.
En Framsóknarmennskan nú feril þinn skekur
og framvirkar refsingar gætu þig hitt,
er valdhrokinn grjótharðan göndulinn rekur
í grasrótarsamtök og einkalíf þitt.
Og undrar þig gæskur þótt andúð það veki
hve innantómt reynist þitt sanngirnisraus?
Þótt mannúðarhræsnin af munni þér leki
er Mohammed Lo ennþá réttindalaus.
Já, þeim ertu Ögmundur, þægur í taumi
sem þjóna undir auðmenn og stóriðjuver,
og General Bjarnason brosir í laumi
því blautustu órar hans rætast í þér.
En örlaganornir þær umbera ei múður
og allt skaltu fá þetta í hausinn — og þó;
þér fyrirgefst sumt þetta fokk þitt og klúður
ef frelsar þú bróður minn, Mohammed Lo.