Salvíumaðurinn kominn í bæinn

Gluggatjöldin í búðinni minni eru skemmtileg. Maður sér ekki inn um þau en það er hægt að rýna út.

Í gær kom maður með ferðatösku og staðnæmdist við gluggann. Salvíumaðurinn. Hann kom ekki inn, heldur fór inn í hús við Garðastrætið. Þar býr hann þegar hann kemur í bæinn.

Salvíumaðurinn heitir sama nafni og maður sem bjó einu sinni í þessu sama húsi. Sá maður hafði varanleg áhrif á heimssýn mína. Hann var líka dropded sexý og ég var einhvernveginn skotin í honum. Samt langaði mig ekkert að sofa hjá honum. Það hefði skemmt hann sem átrúnaðargoð. Auk þess vildi ég ekki tilheyra þeim mikla fansi kvenna sem höfðu hypjað sig úr bæli hans undir morgun og eytt næstu vikum í að ráða djúpa merkingu í afskiptaleysi hans.

Við umgengumst töluvert í þrjú ár en áttum aðeins eitt trúnaðarsamtal. (Ég tel ekki með öll skiptin sem hann trúði mér fyrir því dauðadrukkinn hvernig það væri að vera ofurmenni í heimi sem væri hannaður fyrir múgmenni.) Í því samtali sagði ég honum að mig vantaði bólfélaga og hann ætti að vera lítill og sakleysislegur með sléttan maga, laus við Tarsanmottu og umfram allt skegglaus.

Sama kvöld kynnti hann mig fyrir Jóa litla. Jói litli var ósýnilegur. Allavega hafði ég aldrei séð hann fyrr þótt hann hefði oft setið við næsta borð á kaffistofunni. Maðurinn sem heitir sama nafni og Salvíumaðurinn hvíslaði að mér; „ég veit ekki hvort hann er með bringuhár en hann er allavega hlýðinn“. Svo ýtti mér niður í sófann við hliðina á honum.

Jói litli var alveg jafn skotinn í manninum sem heitir sama nafni og Salvíumaðurinn og ég. Og sammála því að maður vilji ekki endilega sofa hjá öllum sem maður verður skotinn í. Hann var ekki með Tarsanmottu og hann var mjög hlýðinn.

Ég hitti Jóa litla á galdraráðstefnunni um síðustu helgi. Hann er ennþá skegglaus. Samt langar mig ekkert að sofa hjá honum. Enda hef ég svosem aldrei verið skotin í honum. Ég er hinsvegar nett skotin í Salvíumanninum. Samt langar mig ekkert að sofa hjá honum heldur. Enda er hann með skegg. Og áreiðanlega mjög óhlýðinn líka.

Í dag kemur Salvíumaðurinn í búðina til mín. Og kallar mig sæta stelpu. Hann veit ekki að afi Bjarni er sá eini sem má kalla mig sæta stelpu. Af því að svoleiðis segja afar. Afar mega líka alveg hafa skegg.