Sælgætislegt hryðjuverk

htf-vintage-toffee-chocolates-tin-mackintosh-halifax-3lb-quality-street-crinoline-lady-soldier-christmas-snowman-1960s-1309-p-688x451

Stöku sinnum hellist yfir mig undarleg nostalgía. Löngun til að skreppa stutta stund aftur til hinna gömlu, góðu daga þegar Prins Póló var pakkað í óloftþéttar umbúðir. Stundum var af því milt fúkkabragð og oft var það svo þurrt að það flagnaði í sundur þegar maður beit í það. Maður fletti lögunum gætilega í sundur og át hverja kexflögu fyrir sig, þannig fór minna til spillis. Stundum var kremið svo þurrt að það losnaði frá kexinu í stórum flygsum en oftast loddi það við aðra kexflöguna. Prins Póló var sett í sellófanumbúðir og verður ekki samt aftur. Það er orðið útilokað að fá það með fúkkabragði. Tæknilega séð væri auðvitað hægt að taka það úr umbúðunum og geyma þar til það þornar almennilega en kommon, hver hefur sjálfsaga til að geyma Prins Póló heima hjá sér svo lengi?

Kannski er ekki beinlínis rétt að segja að ég sakni fúkkabragðsins, ég er ekkert viss um að ég myndi innbyrða heilt stykki af eldgömlu og uppþornuðu Prins Póló þótt mér byðist það nú en í minningunni er það dásemdin ein, sem og Töggurnar sem voru stundum seldar svo gamlar að þær voru farnar að morkna.  En sennilega er það þessi tilfinning; vííí ég fékk nammi! sem maður saknar frekar en bragðið og áferðin.

4cee8d4093cdbba7867453d78b794338

Ég fer samt ekkert ofan af því að ég sakna hnetubrjóstsykurmolans úr Mackintoshinu (sem í mínum huga mun aldrei heita neitt annað) í alvöru. Trufflukremsmolinn sem hvarf löngu á undan hnetubrjóstsykrinum var líka í uppáhaldi hjá mér í mörg ár en síðan hef ég fengið alvöru trufflur svo það er alveg eins víst að ég myndi fúlsa við Mackintoshmolanum í dag. Hnetubrjóstsykur hef ég hinsvegar hvergi annarsstaðar fengið. Mackintosh var fríhafnarnammi, líka Bassett’s lakkrískonfektið og Toblerone.

 

opalÉg spurði netverja að því á snjáldrinu í gær hvort þeim þætti missir að einhverju nammi sem er horfið af markaðnum. Áberandi margir nefndu bláan Ópal. Það var víst í því eitthvert eiturefni. Stóð ekki annars bætir, hressir, kætir á pakkanum? Mig minnir það og er hreint ekki frá því að það hafi verið mikill sannleikur.

Einhver óskaði sér haltukjaftikaramellu. Freyjukaramellur eru nú held ég enn framleiddar en þær miklu minni en í denn og nei – það er ekki það sama að troða tveimur karamellum í gúlinn á sér og að fá eina alvöru.

Gospillur voru nefndar, ég man reyndar betur eftir gosdufti í plastpokum, það var til í nokkrum litum og bragðtegundum, þetta bleika var best. Auðvitað setti maður það ekki í vatn, það var miklu skemmtilegra að hella því upp í sig og finna það freyða á tungunni, svo sætt að mann verkjaði í kjálkana.

kisutyggj

bazookaMargir muna eftir Kisutyggjóinu, mig rámar í það en ég man betur eftir bleika Bazooka tyggjóinu. Því fylgdu gervitattoo-myndir. Handleggurinn var bleyttur og myndin lögð við. Oftar en ekki kámaðist hún út og varð að litaklessu á húðinni. Af hverju átti að vera eftirsóknarvert að vera með myndasögu á handleggnum? Það veit enginn.

bismarck-wm

Ég hef ekki fengið brenndan Bismark í rosalega mörg ár. Mér þótti hann alltaf góður en ég hef  greinilega ekki saknað hans nógu mikið til að spyrja um hann því það var fyrst í gær sem ég frétti að hann væri ekki framleiddur lengur. Mig verkjar í hjartað. Venjulegur Bismark er þó til en í gamla daga þegar Ópal var og hét, voru molarnir áreiðanlega mjólkurhyrnulagaðir. Nú sé ég ekki betur en að þeir séu með þessari stöðluðu sívölu brjóstsykurslögun, sem er auðvitað alls ekki það sama.

Ópal framleiddi líka pastellita mola með súkkulaðifyllingu. Þeir voru svo litlir og nettir að um fjögurra ára aldurinn gat ég sogið þá með lokaðan munn, koddalagaðir og eiginlega of litlir fyrir fyllingu svo súkkulaðið sást stundum í gegnum þunna brjóstsykursskelina. Á þessum síðustu og verstu tímum er hægt að fá eitthvað sem heitir „Pralín“ fylltur brjóstsykur (sem er náttúrlega bara bull því fyllingin er venjulegt súkkulaði og ekki pralín eitt eða neitt) en hann er með þykkri skel og í sterkari litum og hreint ekkert eins og  þessi gamli góði. Bragðinu af koddamolunum hef ég reyndar gleymt svo ekki get ég sagt til um hvort það var eitthvað líkt meintum pralínbrjóstsykri.

991_sinalco_04

Netverjar sakna einnig gosdrykkja á borð við Spur, Míranda og  Sinalco. Ég tók ekki eftir að neinn nefndi Vallash appelsín eða Jolly Cola frá Sanitas, líklega hafa það verið mjög vondir drykkir en ég væri til í að eiga eina flösku af hvoru bara til að horfa á þær.

1_0f986344-a8f6-4184-a053-a8801789ba3d_grandeNokkrir sögðust sakna sælgætis sem er reyndar ennþá fáanlegt. Það er svosem ekki að furða að fólk haldi að þessu gullaldarnammi hafi verið varpað fyrir róða enda næsta ótrúlegt að hnossgæti á borð við Lindubuff hafi lifað af allt það flóð af neysluhæfum sætindum sem nú eru fáanleg. Síðasta sumar var ég gripin svona sælgætis-nostalgíu og þar sem ég var nú á Íslandi keypti ég slatta af gömludaganammi sem hefur ekki hvarflað að mér í mörg ár; Malta, Conga og Lindubuff. Hvílíkur unaður sem súkkulíki og ódýrt vöfflukex getur verið. Fyllingin í Lindubuffinu er næstum eins seig og karamella, klessist ofan í tannfyllingarnar og bragðast ekki af neinu nema gerviefnum og sykri, gerólíkt eggjahvítukreminu í kókosbollum og krembrauði, en ég át það nú samt og hefði sennilega skolað því niður með Sinalcoi ef það hefði staðið til boða. Munið þið annars eftir Negrakossunum? Þeir yrðu áreiðanlega að fá PC-legra nafn ef þeir byðust aftur. Mér finnst eins þeir hafi verið mun stærri en ómerkilegu dönsku kremtopparnir, sem kallast flødeboller, þótt ekki sé í þeim dropi af rjóma, og að kremið í Negrakossunum hafi verið þéttara, bragðbetra og á allan hátt fullkomnara.

Mér skilst að nú sé í uppsiglingu aðför að Pipp-súkkulaðinu, það mun víst eiga að fá nýtt nafn: Síríus – pralín. Hvers konar pralínröskun er eiginlega í gangi hjá Nóa-Síríusi? Pralín er hnetukrem – ekki súkkulaðifylling eða piparmyntukrem. Hvað þá hvort tveggja. Ekki nóg með það heldur mun græni Tópasinn vera í útrýmingarhættu, mér skilst að í stað hans eigi að koma fjallagrasagúmmí í túristavænum umbúðum. Ekki yrði ég hissa þótt markaðsmenn fyrirtækisins tækju upp á því að kalla þessa heilsuæðisþefjandi eftirlíkingu af Tópasnum Tyrkja-sælu, það væri allavega ekkert fráleitara en að kalla Pippið „pralín“.

trad-icel_-liquorice_drops_40g

trad-icel_-liquorice_drops_40g Hryðjuverk gegn Tópasnum notað til að blekkja útlendinga og okra á þeim

Það verður einhver að taka í taumana og stöðva þessa aðför að fortíðinni, þetta sælgætislega hryðjuverk. Pipp er menningarverðmæti. Sennilega tákn einhverrar kynslóðar eða eitthvað svoleiðis, rétt eins og uppþornað Prins Póló var tákn minnar kynslóðar. Og Tópasinn – sjálfur Tópasinn! Eiga örlög hans að verða þau sömu og hin grátlegu örlög bláa Ópalsins, sem svo margir sjá eftir? Nei, það má ekki gerast því einhversstaðar verður að vera festa og stöðugleiki.

Sætindaleg kjölfesta, sælgætisöryggi, það er eitthvað sem við þurfum þegar veröldin er á hverfanda hveli. Ætli einhver þeirra sem hefur boðist til að verða sameiningartákn þjóðarinnar geti ekki tekið að sér að gæta þessarra menningarlegu hagsmuna okkar; tryggja rétt okkar til þess að hafa áfram stöðugt og gott aðgengi að grænum Tópas og sjá til þess að Pipp fái áfram að heita Pipp?