Ruglið

Hann var með samskiptatæknina á hreinu. Sem er auðvitað toppmál. Jós yfir mig runu af gullhömrum með löngu eeeni í lokin.
-eeeeen, þú virðist standa í einhverju ruglsambandi og ég velti fyrir mér hvað þú ætlir að gera í því.
Ég sagðist ekki kannast við neitt „ruglsamband“. Ég ætti að vísu sálufélaga sem mér þætti innilega vænt um og ég reiknaði með að yrði hluti af lífi mínu áfram, rétt eins og Keli, pabbi minn, synir mínir og hver annar sem ég elska mikið. Hvort hann vildi vera svo vænn að skilgreina fyrir mig rugl.

-Ég get ekki skilgreint rugl en ég þekki það þegar ég sé það, sagði hann.
Ég held að hjartað í mér hafi stoppað eitt andartak. Hversu oft hef ég ekki notað nákvæmlega þetta svar sjálf. Ég velti því andartak fyrir mér hvort hann hefði séð það á vefbókinni minni eða hvort hann væri svona líkur mér í hugsun. Það skipti svosem engu máli, ég hefði fallið fyrir hvoru tveggja. Allt í einu fannst mér hann ívið myndarlegri en áður.

-Þú hefur náttúrulega ekkert séð, svaraði ég og svo sagði ég honum að ef við hittumst aftur, væri sjálfsagt að kynna hann fyrir vini mínum. Hann gæti þá sjálfur metið hversu mikið rugl það er að viðurkenna tilfinningar þótt aðstæðurnar skipi þeim ekki ósjálfrátt í þann farveg sem flestir viðurkenna sem hinn eina rétta. Hann sagði já. Sagði að tilhugsunin um að elska fleiri en einn, hljómaði ekki eins og góður grundvöllur fyrir sambúð en hann væri tilbúinn til að skoða þennan hugsunarhátt.

Kvöldið var ánægjulegt. Ég horfði á Kastljósið og verð að viðurkenna að mér finnst tilhugsunin um að þroskaheftir séu jafnan frábærir foreldrar ótrúverðug. Ég er samt alveg tilbúin til að endurskoða það álit mitt. Sá sem heldur fast við það viðhorf að fyrst við höfum alltaf trúað því, þá hljóti það að vera rétt, er ekki frjáls maður. Sá sem telur sig ekki hafa neina fordóma sem hann þurfi að leggja til hliðar á meðan hann skoðar málin út frá öðru sjónarhorni, mun aldrei leggja neitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað.

Ég kann vel að meta fólk sem viðurkennir möguleikann á að skoðanir þess byggist á fordómum og er tilbúið til að leggja þá til hliðar. Hvort endanleg skilgreining á rugli er til veit ég ekki, en það sem auðgar líf þitt getur varla verið rugl.