Skilgreindir sem sjúklingar en krafist heilbrigðrar hegðunar
Merkilegur tvískinnungur hefur ríkt gagnvart ofdrykkjufólki og öðrum fíklum. Annarsvegar eru fíklar flokkaðir sem sjúklingar; hinsvegar er bati og batavilji gerður að skilyrði fyrir því að þeir fái umönnun.
Ímyndum okkur krabbameinssjúkiling sem hefur undirgengist erfiða meðferð. Ef meðferðin ber ekki árangur ætti þá heilbrigðiskerfið að láta hann róa? Og ef hann gæfist upp og harðneitaði að undirgangast fleiri meðferðir, væri þá réttlætanlegt að velferðarsamfélagið henti honum út á gaddinn? Væri ekki líklegra að honum yrði veitt þjónusta til þess að gera líðan hans sem skársta á meðan hann lægi banaleguna? Af hverju í ósköpunum ætti annað að gilda um fíknsjúkdóma? Við vitum að sumir hætta ekki í neyslu, sama hversu oft þeir fara inn á Vog og sama hversu mörg ár þeir eru á útigangi, hírast í köldum geymsluskúrum og yfirgefnum húsum.
Forræðishyggjan og ábyrgðarleysið
Hlutverk yfirvalda er ekki að stjórna fólki heldur þjóna því
Þegar hinn mannréttindasinnaði borgarstjóri Reykjvíkur, Jón Gnarr, bauð sig fram til þeirrar stöðu, gekk hann í bol með áletrun þess efnis að hann áttaði sig á því að annað fólk væri ekki hans eign. Þetta hlýtur að skiljast sem stuðningur við þá hugmynd að hlutverk borgarstjórnar sé ekki að stjórna fólki heldur að koma á skipulagi sem þjónar borgurunum. Slagorðið er að vísu engin skilgreining á anarkisma en það lýsir anarkískri afstöðu og þótt aðrir borgarfulltrúar og þeir sem áður sátu í borgarstjórn, hafi ekki skreytt sig með anarkískum slagorðum, sjást þess víða merki að nokkuð stór hópur fólks hugsi á þessum nótum.
Þessi afstaða sést t.d. í þeim framförum sem hafa orðið í málefnum útigangsfólks í Reykjavík á síðustu árum og hófust reyndar áður en Besti tók við borginni. Auðvitað þarf að gera betur og enn er mikill hluti starfseminnar í höndum áhugafólks en þó rekur borgin heimili þar sem ekki er sett skilyrði um að íbúar séu hættir neyslu. Það verður að teljast mikil framför.
Betur má ef duga skal
Jón Gnarr veit eins og aðrir borgarfulltrúar og við öll að sumir þeirra sem koma inn á nýja áfangaheimilið munu fljótlega fara í neyslu aftur, hversu frábær sem þjónustan verður. Hann veit líka eins og við öll að sumt útigangsfólk vill ekkert fara í meðferð.
Útigangsfólk sem ekki tekur meðferð þarf umönnun sem felst ekki í því að reyna að lækna það, heldur í viðurkenningu á því að það tekur ekki lækningu. Borgaryfirvöld hafa að einhverju marki fylgt þeirri stefnu í nokkur ár en í sumar voru meira en 80 manns í bókstaflegri merkingu heimilslausir og hátt í 100 bjuggu við ótryggar aðstæður. Það þarf því að gera betur og þótt sé frábært að áhugafólk opni áfangaheimili má borgin ekki líta fram hjá þessum 80 sem líklegt er að muni aldrei verða færir um að annast sig sjálfir. Ég vona að borgin leiti betri lausna á húsnæðisvanda þeirra en að koma upp fleiri neyðarskýlum.