Reykurinn út af heimilinu og félagslífið með

Ég er nýflutt til Reykjavíkur eftir áralanga félagslega einangrun úti á landi hef ég síðustu vikurnar varið talsvert miklum tíma til að hitta gamla vini og kunningja. Ég verð vör við ákveðinn mun á því hvernig félagslegum samskiptum fólks er varið á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi en mér finnst einnig margt hafa breyst í þessum efnum á 10 árum. Það virðist t.d. vera orðið óviðeigandi höfuðborgarsvæðinu að banka upp á án þess að gera boð á undan sér og þegar ég hringi í vinkonur mínar og sting upp á því að þær komi við hjá mér og drekki með mér kaffibolla (án nokkurrra formlegheita) vill viðkomandi oftar en ekki hitta mig á kaffihúsi.

Félagslífið virðist þannig vera að færast út af heimilum fólks, allavega í Reykjavík og nágrenni. Ég hef velt því fyrir mér hvers vegna, því maður hefði haldið að heimilið væri notalegri staður til að spjalla saman auk þess sem kaffið heima er bæði betra og ódýrara. Varla er fólk að hugsa um að fá frið fyrir börnunum sínum því iðulega ná þau (og reyndar fullt af öðru fólki) að eyðileggja slíka kaffihúsafundi með því að vera í miklu og stöðugu símasambandi en fáir virðast átta sig á því að hægt er að slökkva á gsm-símanum. Reyndar finnst mér börn yfirleitt vera til minni truflunar ef þau vita af mömmu í eldhúsinu en ef hún bregður sér af bæ auk þess sem auðvelt er að hrekja börnin úr eldhúsinu með því bara að reykja nógu helvíti mikið.

Mér þykja kaffihús ekki nærri eins notalegir staðir og eldhúsið mitt og ég var satt að segja hálf-fúl yfir þessu fyrirkomulagi þar til það rann upp fyrir mér að skýringin er í raun mjög skynsamleg. Fólk vill hittast á kaffihúsum af því að þar má reykja. Ég leyfi ekki reykingar heima hjá mér, þessvegna kemur enginn í heimsókn. Fólk vill heldur ekki að allur stórvinahópurinn spúi reyk yfir heimili þess jafnvel þótt það reyki sjálft heima og það er ánægjulegra að fjarstýra börnunum í gegnum síma en að þurfa stöðugt að reka þau út úr eldhúsinu til að forða þeim frá níkótíneitrun. Heimilin eru smámsaman að verða reyklaus og því sækir fólk á kaffi hús til að sjúga í sig hvern eiturstöngulinn á fætur öðrum, fremur en að sóðast við það heima hjá sér. Þetta er í rauninni jákvætt, fyrir alla aðra en þá sem ekki þola tóbaksreyk en nú er svo komið að með því að reykja ekki á maður á hættu að dæma sjálfan sig til félagslegrar einangunar; enginn kemur í heimsókn og allur reykurinn sem áður dreifðist á heimili og vinnustaði er kominn inn á kaffihúsin svo maður þolir ekki við þar nema stutta stund.

Nú er ég svo heppin að hafa sveigjanlegan vinnutíma og þar sem ég þoli tóbaksreyk illa og er auk þess kvöldsvæf, finnst mér illskárra sækja kaffihús að deginum. Það er þó fjáranum erifðara að fá vini og kunningja til að mæta á kaffihús fyrir kvöldfréttir því það eru jú allir að vinna og sinna heimili. Og á kvöldin er reykurinn á kaffihúsunum ennþá þykkari, væntanlega af því að þá er fólk hætt að vinna (þar sem það má ekki reykja) og flykkist á kaffihúsin til að forðast hreinsunaraðgerðir bifháranna með tilheyrandi óþægindum. Því spyr ég, hvernig stendur á því að Kringlan er alltaf troðfull af fólki, allan daginn, alla daga vikunnar? Þarf þetta fólk ekkert að vinna? Varla er svona margir í vaktavinnu eða með frjálsan vinnutíma? Eru það bara vinir mínir sem eru svona uppteknir eða er það goðsögn að Íslendingar vinni svo ógurlega mikið? Eða fær fólk að skreppa aðeins úr vinnunni til þess að fá sér smók og álpast aðeins á útsölur í leiðinni?

One thought on “Reykurinn út af heimilinu og félagslífið með

 1. ——————————–

  Þorkell @ 23/03 11.13

  Hvað reyk á kaffihúsum varðar þá er það ein af ástæðunum fyrir því að ég er hættur að sækja slíka staði. Ég forðast líka krár og skemmtistaði eins og heitan eld. Lausn þín Eva felst í því að banna reykingar á slíkum stöðum. Þá skipti ekki lengur máli hvort fólk færi í heimsókn eða á kaffihús. Það er líka mannréttindi okkar hinna sem ekki reykja að fá að sækja slíka staði án þess að sitja í reykjarmökk. Jú vissulega bjóða margir upp á reyklaus svæði en það breytir litlu. Reykurinn virðir engin landamæri.

  Annars þekki ég reyndar ekki svo marga sem reykja. Mér skilst að reykingar séu á undanhaldi í samfélagi okkar, sem betur fer. Upp á síðkastið hefur reykur farið æ-meira í taugarnar á mér og er ég t.d. hættur að heimsækja þá fáu vini sem ég á sem reykja, enda neyðist ég iðurlega til að fara í sturtu og skipta um hverja einustu spjör þegar ég kem heim, eftir slíka heimsókn.

  ——————————–

  Eva @ 23/03 14.43

  Mér skilst líka að reykingar séu á undanhaldi en það virðist vera að ég þekki einmitt þessi 30% þjóðarinnar sem reykja og hafa ekki hug á að hætta því. Mér finnst ægilega leiðinlegt að geta ekki umgengist fólk án þess að það kosti bað og fataskipti en mér finnst ennþá leiðinlegra að missa af samskiptum við þetta ágæta fólk svo ég læt mig hafa það. Ég vona að reykingar verði ekki bannaðar á kaffihúsum því þá missi ég flesta minna bestu vina.

Lokað er á athugasemdir.