Rafbókin verður ráðandi

Bókasnobbið í Íslendingum gengur gjörsamlega fram af mér. Nánast allir sem ég hef talað við halda því fram að bók sé ekki alvöru bók nema hún sé prentuð á pappír. Sama fólk hefur hinsvegar aldrei álitið að tónlist sé ekki alvöru tónlist nema sé búið að brenna hana á geisladisk. Sama fólk hlustar á tónlist á netinu, skoðar kvikmyndir á netinu og hefur aldrei látið sér detta í hug að það sé eitthvað minna ekta.

Önnur vitleysa sem fólk virðist heltekið af er sú að það sé svo erfitt að lesa af tölvuskjá. Þetta segir sama fólk og situr fyrir framan tölvuna stóran hluta sólarhringsins. Og hvílík della. Ef eitthvað er, er auðveldara að lesa af tölvuskjá því maður getur stækkað letrið án þess að halda einhverju fornaldar stækkunargleri yfir bókinni.

Þriðju bullrökin fyrir útgáfu pappírsbókar eru þau að þá sé ekki hægt að lesa í rúminu. Í fyrsta lagi getur fólk bara lesið upprétt, rúm eru hönnuð til þess að sofa í og það er hvort sem er ekkert þægilegt að lesa liggjandi. Í öðru lagi hef ég margsinnis sofnað með lappann í fanginu sjálf (enda þótt rúm séu heldur ekki hönnuð til tölvuvinnu), svo jú, það er bara víst hægt. Jú, það þýðir að vísu að maður getur ekki legið á hliðinni, sem er kannski ákveðinn ókostur en nú er bara komið á markaðiinn tæki sem leysir þetta stóra og erfiða vandamál. Lítið handhægt tæki, léttara en bók, sem er auðvelt að taka með sér í rúmið eða strætó.

Ég hélt að ég væri ekkert sérstakt tæknifrík en það er engu líkara en að ég þekki bara einhverja afturhaldsseggi. Þeir fáu sem hvetja mig til að gefa út e-bók eru einmitt þeir sem hafa sjálfir keypt slíkar bækur. Þeir eru, allir sem einn, svo ánægðir með þetta form að þeir eru hættir að kaupa pappírsbækur ef rafræn bók er í boði.

Því betur sem ég skoða möguleikann á rafrænni bók, því sannfærðari verð ég. Þetta er framtíðin, það er engin spurning. Eftir nokkur ár verðu pappírsbókin jafn úrelt og offsetprent. Þar fyrir utan er það bara eitt af ofbeldisverkum mannsins gagnvart náttúrunni að rækta tré eingöngu til þess að verða að pappír, sem aftur verður að rusli og m.a.s. baneitruðu rusli eftir að búið er að prenta á hann. En þau rök smjúga seint í gegnum þykkan skráp neysluhyggjumannsins. Meiri pappír, meira snobb, meira ofbeldi. Og það þótt rafbókin sé á allan hátt praktískari.

One thought on “Rafbókin verður ráðandi

  1. ————————————————

    Ég get ekki sagt annað en mig er farið að hlakka til að næla mér í eintak 🙂

    Posted by: Stefán H. | 31.01.2010 | 19:06:40

    ————————————————

    Mér finnst þessi rafbókarhugmynd stórgóð, en skil að einhverju leyti hin íhaldssömu rök. Það er erfitt að snúa olíuskipi.

    Posted by: baun | 2.02.2010 | 21:56:24

Lokað er á athugasemdir.