Pólitískur þefur

Því hefur verið haldið fram að það sé pólitískur þefur af komandi Alþingiskosningum. En hvernig er pólitískur þefur og hvernig lykta stjórnmálaflokkarnir hver um sig? Starafugl birti í gær stjórnmálaskýringu sem byggir á rannsóknarverkefni Snorra Páls, sem felst í ítarlegri þefgreiningu á stjórnmálaflokkunum.

Nornin lagði sitt til rannsóknarinnar, hér eru þau svör:

 

Alþýðufylkingin lyktar eins og blautir en þó hreinir ullarsokkar. Lyktin er ekki beinlínis slæm en sannfærir þig um að það sé alls ekki tímabært að reyna að nota þá og gæti reyndar farið mjög illa. Þú reiknar með að prófa næst (því þá þeir hafa vonandi náð að þorna) að því gefnu að ekkert betra verði í boði, en ekki núna.

 

Það er ælufýla af Bjartri framtíð. Þau eru búin að kyngja of miklu, halda því niðri of lengi og þegar þau loksins losa sig við það sem þau hefðu aldrei átt að leggja sér til munns, hafa magasýrurnar náð að brjóta það niður. Svo bætist gallið við og lyktin gýs upp. Það er enginn að fara að gæða sér á þessu gumsi, sama hversu girnilegt það var áður en þau gleyptu það hrátt.

 

Það er engin lykt af Dögun. Hún er bara vefsíða með uppskriftum og ekki einu sinni með myndum af réttunum  Þér er sagt að allskonar kræsingar séu í boði en þú færð ekki að lykta af þeim. Þú veist líka að kokkarnir eiga ekki séns á að fá að vera með í raunveruleikaþættinum svo þú nennir ekki að lesa uppskriftirnar þótt þær séu stuttar.

 

Flokkur fólksins angar eins og ruslafata á kvennaklósetti í heimavistarskóla. Tíðahringurinn samstillur svo dömurnar eru allar á túr í einu, ruslafatan yfirfull og blóðfnykinn leggur langar leiðir. Þú færð ekkert hræðslukast þótt gangurinn lykti af blóði því það er augljóst að flokkurinn hefur ekki burði til þess að stinga neinn á hol. En þú veist að svona sóðaskapur getur haft sjúkdóma í för með sér og þegar þau útskýra að þau séu að geyma herlegheitin handa Blóðbankanum, þá áttarðu þig á því að þau eru hættulegri en lyktin gefur til kynna.

 

Fjósalyktin hefur alltaf fylgt Framsóknarflokknum. Þegar ég var lítil fór ég í sveit og bændurnir reyndu að telja mér trú um að fjósalykt væri góð, enda kýrnar göfugar skepnur. Ég kann vel við kýr en vissi líka að fjósalyktin er ekki fyrst og fremst af kúnum heldur af kúk og pissi og hún er sko ekki góð. Meira að segja þeir sem telja þennan þef viðeigandi í fjósi eða til að bera á tún vilja ekki hafa hann heima hjá sér. Nema skítaflugurnar, þær kjósa delluna.

 

Íslenska þjóðfylkingin lyktar eins og saltsýra. Maður hrekkur til baka um leið og maður opnar flöskuna og þarf ekki að lesa á umbúðirnar til að vita að þetta er eitur.

 

Myndin er sviðsett

Miðflokkurinn lyktar eins og sambland af hægðum stórtæks kókaínneytanda og sæði einhverrar skepnu; gæti verið hrútasæði en mér finnst samt líklegra að við séum að tala um búrhval. Ég er ekki viss, því ég hef aldrei þefað af sæði búrhvals en það er magnið sem ég hef í huga.

 

Pírataþefurinn minnir helst á íkamsræktarstöð. Mikill dugnaður en of margir að rembast við eitthvað sem þeir ráða ekki við og sumir á sterum. Allir hafa aðgang að glænýjum tækjum sem flestir kunna ekkert á en halda að kunnáttan sé meðfædd og alger óþarfi að leita til þjálfara. Svitalyktin er umberanleg en maður hefur nístandi áhyggjur af því að íþróttameiðslin leiði til örorku og stöðin neyðist til að loka.

 

Samfylkingin ilmar eins og veisluhlaðborð. Ekki bara eitthvað fyrir alla heldur allskonar fyrir alla. Lyktin af hverjum rétti passar við útlitið og hvort sem þú vilt reyktar gæsabringur, síldarsalat eða  houmus af forréttaborðinu truflar lyktin af hinum réttunum þig ekki neitt. Þetta er svo faglegt og flott útlits og auk þess fullkomin lyktarsynfónía, meira að segja kertin illma svo vel að þig langar að sleikja þau. En á meðan þú stendur í röðinni með diskinn þinn, hálfbrjálaður af hungri og bíður eftir að komast að, kemstu ekki hjá því að hugsa um það hver eigi að borga fyrir partýið og hvort sé virkilega nóg handa öllum. Það er nefnilega hópur af fínimönnum að ganga í salinn og þú veltir því fyrir þér hvort þeim verði veittur forgangur. Það er ekki nóg að lyktin sé góð ef allt verður búið þegar aumingjarnir komast loksins að.

 

Sjálfstæðisflokkurinn þefjar eins og kæst skata. Óæt og eyðileggur jólin fyrir öllum í sama stigagangi. Það er samt ekkert hægt að gera til að stöðva þessa skynfæraárás þar sem sú hefð að kjósa skötu tilheyrir menningararfleiðinni og flokkast því sem mannréttindi samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, við verðum bara að lifa með þessu. Svo kemur í ljós að margir þeirra sem mæta í skötuveisluna upp á hefðina vilja alls ekki skötu. Enginn grundvöllur til þess að sjóða alla skötuna og afgangarnir fá að úlnda í rólegheitum út kjörtímabilið. Þetta er heilsuspillandi en hefðum verður ekki breytt.

 

Viðreisn lyktar eins og þessir bananar. Lyktin er ekki slæm. Dísæt og klístruð, reykt og feit allt í senn. Þú kemur inn og hugsar, hvað er eiginlega í ofninum? því þú áttir von á kæstri skötu. Þetta virðist í það minnsta ætt og þú heldur að þú munir alveg tékka á þessu, allavega smakka einn bita. En þegar þú sérð þessa samsetningu þá missirðu lystina snarlega. Hægri hagstjórn og vinstri velferð passa bara ekki saman, ekki frekar en Hollandaise-sósa og bananar.

 

Vinstri græn lykta eins og þessi ananaslegi réttur. Ef þú sérð fyrirbærið úr fjarlægð, á kosningahlaðborðinu, er nærtækasta ágiskunin sú að þetta sé eftirréttur úr ananas. Eitthvað svona sætt og gott og ekki bara sykurfroða heldur ávaxtafylling. Þegar þú kemur nær áttarðu þig á því að það getur varla staðist, í það minnsta er lyktin mjög undarleg. Ef þú smakkar samt kemstu að raun um að þetta er — eins og lyktin gefur til kynna — lifarpylsa með mæjónesi og Worschesterhire-sósu. Já og skreytt með einni niðursneiddi, fylltri ólívu, til þess að heilla þá sem eru hrifnir af grænu og rauðu. Eflaust finnst einhverjum þetta gott en þetta er alls ekki það sem verið er að reyna að selja þér.