Jæja Ólafur Ragnar
Nú eru liðnir sjö mánuðir síðan ég heimsótti skrifstofu þína á Sóleyjargötunni, við þriðja mann, í þeim tilgangi að biðja þig að beita þér í málefnum Palestínu. Ég reiknaði að vísu með að þú hefðir þegar heyrt af hernáminu og séð dramatískar ljósmyndir af sundurtættum búkum. Ég hafði engu að síður lofað slökkviliðsstjóranum í Nablus að segja forseta Íslands frá ástandinu í Palestínu og hafði dregið allt of lengi að ganga á fund þinn. Þú varst að vísu í kosningaferð úti á landi þennan dag en ritari þinn tók vinsamlega á móti okkur og tók fyrir þína hönd við útprentun af ferðasögu minni til Palestínu, haustið 2008 en samþætt henni er dagbók Hauks sonar míns sem hafði dvalist í Hebron tveimur árum fyrr.
Ástæðan fyrir því að ég afhenti þér söguna alla var sú að ég bjóst við að þurfa meira en örfáar reynslusögur til að sýna þér fram á hvernig hernámið gegnsýrir allt daglegt líf fólks á Vesturbakkanum og Gaza. Ég vissi að ef þú skildir hvernig smávægilegustu atburðir í lífi fólks sem býr við hernám verða að vandamálum, værir þú löngu búinn að gera eitthvað í málinu. Mig langaði líka að sýna þér reiði og vanmáttarkennd sjálfboðaliða sem átta sig á því að sjálfboðastarf af þessu tagi hefur ekkert að segja nema okkur takist að fá fólk sem getur haft áhrif á alþjóðavettvangi til að hlusta. Fólk eins og t.d. forsetann og maka hans.
Þessi mynd birtist á ruv.is í morgun
ásamt fleiri góðum myndum frá Gaza
Nú reikna ég með að þú hafir hlustað gaumgæfilega á Örnólf ritara þinn þegar hann útskýrði fyrir þér að það væri ekki nóg að renna í gegnum dramatískustu sögurnar, þú yrðir líka að horfa á ómerkilegri atburði og setja þig í spor fólks sem kemst ekki til vinnu sinnar eða á sjúkrahús nema í fylgd útlendinga. Fólks sem stendur ráðalaust þegar nágrannarnir byggja sér geymslu inni á einkalóð þess, fólks sem er hindrað í því að sækja vatn í sinn eigin brunn eða bera látna ástvini til grafar. Ég geng að því vísu að þú hafir lesið sögurnar af athygli (fyrir utan túristakaflana sem ég merkti sérstaklega til að þreyta þig ekki með efni sem skiptir ekki máli fyrir aðra en persónulega vini mína) og að þú hafir síðan unnið baki brotnu við að beita áhrifum þínum til að uppræta hernámið. Ég býst við að þú hafir tekið sérstaklega til greina ábendingar mínar í persónulegu bréfii til þín á bls 314 í bókinni. Þú hefur eflaust átt náið samstarf við félagið Ísland-Palestínu og ég geri ráð fyrir að þú sért búinn að skipuleggja opinbera heimsókn til Palestínu. Ennfremur reikna ég með að við megum á hverri stundu eiga von á því að þú fordæmir hernámið, aðskilnaðarmúrinn og stríðsglæpi Ísraelsmanna á alþjóðavettvangi.
Þótt ég hafi ekki bent þér sérstaklega á það, finnst mér líklegt að þú hafir sjálfur áttað þig á kostum þess að hafa stuðning utanríkisráðherra í baráttu þinni gegn þjóðarmorðinu í Palestínu. Við erum nefnilega svo gæfusöm að hafa nú, í fyrsta sinn í Íslandssögunni, utanríksisráðherra sem hefur sýnt kjark og vilja til þess að styðja frelsisbaráttu Palestínumanna og ég efast ekki um að Össur hefur tekið erindi þínu vel þegar þú leitaðir liðsinnis hans.
Ennþá hefur ekkert heyrst frá þér á opinberum vettvangi varðandi ástandið í Palestínu en líklegt þykir mér að undirbúningsvinnu sé nánast lokið og nú langar mig að vita hvenær nákvæmlega við Íslendingar getum vænst þess að forseti vor lýsi opinberlega yfir hneysklun sinni á þeim atburðum sem nú eiga sér stað á Gaza.
Einnig kalla ég eftir upplýsingum um það hvenær og með hvaða hætti þú hyggist koma þeim skilaboðum til alþjóðasamfélagsins að Ísland muni leggja sitt af mörkum til þess að binda endi á undirokun og ofsóknir herveldis gegn vopnlausri þjóð og hvernig Íslendingar muni styðja Palestínumenn í því að endurheimta hernumdu svæðin.
Ég vona að þú svarir þessu bréfi fljótt og vel, helst opinberlega en að öðrum kosti geturðu sent mér tölvupóst.
Kær kveðja
Eva
___________________________________________________________________