Síðasta haust ætlaði ég að kaupa mér nýjan kjól fyrir veturinn. Það var reyndar ekki nóg fyrir mig að fá nýjan kjól, ég vildi hlýjan vetrarkjól með löngum ermum. Ég fór í margar búðir en satt að segja mátaði ég ekki marga kjóla. Ekki af því að það væri neinn skortur á kjólum, heldur af því að hlýju kjólarnir voru allir gráir og grár er bara ekki minn litur. Þeir voru ekkert allir eins. Þeir voru missíðir og með misjöfnu sniði. Sumir voru dökkgráir, aðrir ljósgráir, fölgráir, yrjóttir eða köflóttir. En þeir voru allir í einhverjum litbrigðum grámans. Ég er nokkuð viss um að einhversstaðar í einhverri búð í Glasgow var til rauður kjóll eða grænn sem hefði hentað mér en ég vildi ekki verja mörgum dögum í þessa leit og á endanum fór ég bara heim.
Þótt kjörsókn á Íslandi sé meiri en víðast annarsstaðar er samt alltaf nokkuð stór hópur sem situr heima á kjördag eða skilar auðu. Þeir eru auðvitað til sem hafa bara engan áhuga á stjórnmálum en mun oftar heyri ég fólk skýra ákvörðun sína með því að það sé bara ekkert í boði sem það geti hugsað sér að kjósa. Maður hefði kannski haldið að þegar ellefu nýir valkostir koma til greina ætti kjörsókn að aukast en fleiri framboð virðast ekki hafa þau áhrif.
Málið er að þegar fólk vill “eitthvað nýtt” í stjórnmálum á það ekki við að það vilji geta valið úr mörgum nýjum Framsóknarflokkum. Það vill ekki fleiri litbrigði grámans heldur eitthvað sem er allt öðruvísi.
Ég gæti frekar hugsað mér þennan kjól en fóturinn er kannski aðeins tú möts
Í þetta sinn var eitthvað nýtt í boði. Eitthvað sem hefur ekki verið reynt áður. Mér hefði þótt ánægjulegt ef allt þetta fólk sem vill eitthvað nýtt, en sat heima, hefði splæst í einn nýjan fyrir næsta kjörtímabil. Á hinn bóginn get ég ekki láð nokkrum manni það að nenna ekki að verja tíma sínum og orku í að kynna sér stefnu, mannval og vinnulag fimmtán framboða. Það eru takmörk fyrir því hversu margar búðir maður nennir að þræða til að finna þennan eina sem er ekki grár. Ef hann er þá til.
Við vitum að minnsta kosti núna að trixið til að fá fólk á kjörstað er ekki það að bjóða upp á fleiri valkosti. Við viljum ekki fleiri gráa kjóla heldur klæðskera sem er til í að vinna með þau efni, snið og liti sem við veljum sjálf.