Og þú ert ekki kominn lengra en hingað

Þegar ég var lítil ímyndaði ég mér að þegar ég yrði stór, yrði ég rík og hamingjusöm. Ég sá fyrir mér villu, eða eiginlega frekar höll sem stæði í skógi vaxinni fjallshlíð. Umhverfis hana lystigarður með laufskálum, gosbrunnum og gríðarlega flottum rólum.

Ég ætti tvö börn. Haukur litli 5 ára og Dana litla 3ja ára, væru fullkomnustu börn í heimi. Ég sá Hauk fyrir mér í bláum stuttbuxum og hvítum bol (hreinum) á litlu reiðhjóli með hjálpardekkjum, hjólandi eftir stéttinni undir trjágöngunum heim að höllinni á laugardögum. Ég reiknaði með að hann yrði hinn fullkomni bróðir sem myndi lofa litlu systur sinni að prófa hjólið og að hún yrði þakklát og hamingjusöm, prófaði bara eina ferð en sneri sér svo að því að elta fiðrildi, blása sápukúlur og skemmta garðyrkjumanninum með snjöllum hugmyndum sínum á meðan ég lægi í sólbaði með eitthvað rautt í háu glasi. (Þess má geta að ég hef aldrei haft unun af sólböðum.) Dana litla liti út nákvæmlega eins og Hulla systir mín gerði á þeim aldri og hún yrði með tíkarspena, í stuttum kjól og sandölum.

Ég hugsaði mér að eftir hádegið á slíkum laugardegi kæmi Hulla systir í heimsókn með börnin sín og litla snyrtilega terríerhundinn. Hulla yrði líka rík en samt ekki jafn rosalega rík og ég. Hennar börn væru líka afskaplega falleg og skemmtileg en þó dálítið skítug og ekki eins kurteis og vel upp alin og mín. Frændsystkinin myndu leika sér í kofa uppi í tré á meðan við systurnar sætum í laufskálanum og drykkjum te og ætum rjómakökur. Við yrðum í viktoríukjólum, hún í hvítum eða ljósgulum, ég í bláum, og með stóra hatta. Við yrðum þekktar sem fínu systurnar en á þessum tíma yrði ég samt orðin miklu fallegri en hún.

Ég ímyndaði mér að á virkum dögum leiddi ég börnin á leikskólann og færi svo heim og sæti við efsta turngluggann og skrifaði metsölubækur fram að hádegi. Við Hulla færum svo saman á fínan veitingastað í hádeginu með kvikmyndagerðarmönnum og öðru fínu fólki sem slægist um að fá að gera kvikmyndir eða setja upp leiksýningar byggðar á verkum mínum. Hlutverk Hullu á þessum fundum var dálítið óljóst en ég held að ég hafi kannski treyst hennar persónutöfrum betur en mínum eigin – þótt ég væri auðvitað miklu fallegri.

Garðyrkjumaðurinn, brytinn og eldabuskan léku nokkuð stór hlutverki í þessum draumum mínum. Ég kom náðarsamlegast fram við þau eins og jafningja, eða því sem næst og þau þjónuðu mér af stakri hollustu. Andlit þeirra voru andlit leikaranna í sápuóperunni Húsbændur og hjú.

Ég hafði ekki jafn ljósa mynd af manninum mínum. Vissi þó að hann yrði fullkominn og ræki einhverskonar fyrirtæki sem skilaði ævintýralegum hagnaði. Hann yrði allavega dökkhærður með brún augu og skjannahvítar tennur og kæmi alltaf heim með blóm eða súkkulaði handa mér. Nema á föstudögum. Þá kæmi hann með skartgripi eða blúndunærföt. Ég sá fyrir mér að þegar hann kæmi heim á kvöldin, kæmu börnin hlaupandi á móti honum með útbreiddan faðminn og að hann þyrfti að leggja blómin frá sér á gangstígnn til að fagna þeim. Að öðru leyti var hlutverk mannsins ekki ljóst. Hann var allavega hvergi nálægur í laugardagsteboðum okkar systranna, því síður í svefnherberginu mínu með bláu og gylltu himinsænginni og frönsku svalahurðinni.

Í dag eru draumar mínir ekki sérlega myndrænir. Samt sem áður vildi ég ennþá sitja við efsta turngluggann og skrifa.