Rafmagnssnúruflækjumartröð tilveru minnar er á enda. Málarinn reddaði því eins og öðru. Nú sést hvergi snúrugöndull, hvorki í búðinni né heima. Svo er hann líka búinn að setja lýsingu í glerskápinn og hillurnar svo nú getur fólk séð það sem það er að kaupa án þess ég hafi þurft að fórna stemmningunni. Þetta getur ekki endað í öðru en fullkomnun.
Málarinn er aukinheldur búinn að útvega mér brennara, glás af steinum, birkipötur og trix svo ég geti flutt kertagerðina niður á Vesturgötu. Það er satt að segja orðið hálfþreytandi að vera með hana á eldhússborðinu.
Og til að toppa allt er kjallarinn rétt að verða tilbúinn fyrir spákonuna.
Mammon er næs. Hann sendir mér allavega rétta fólkið. Nú stendur til að heiðra hann sérstaklega með fórnarathöfn, áheitum og kynningu á sjóðnum, næsta fimmtudagskvöld. Mammonsmessan hefst kl 18:30 og er opin almenningi á meðan húsrúm leyfir.