Líkami minn var skekinn eldingu þegar rann skyndilega upp fyrir mér að leikritaskrif síðustu ára höfðu fleiri hliðar en ég áttaði mig á og að höfundur verksins var þar ginningarfífl númer eitt, tvö og tíu. Maður heldur að maður sé að skrifa sápuóperu tilveru sinnar en kemst að raun um að maður er fastur í einhverri allt annarri sápuóperu þar sem aðrir hafa skrifað fyrir mann hlutverk sem er manni ekki að skapi. Ég efast æ meira um raunveru mína utan vefsögunnar. Hef bókstaflega engst af ógeði, skrifað eins og vindurinn, svitnað og skolfið, skitið og ælt, þambað vatn í lítravís til að þorna ekki upp. Slitið hjartanu jafn mikið á tveimur dögum og í venjulegri álagsviku. Samt ekki komið miklu í verk.
En nú er það búið. Í gærkvöldi sofnaði ég á stofugófi Málarans. Kitlaði í hvarma, kringum nasirnar og munninn undan penslinum. Venjulega kitlar mig ekki en er óvön snertingu við þessi viðkvæmu svæði. Samt sofnaði ég. Grjótsofnaði. Undir venjulegum kringumstæðum gæti ég ekki einu sinni sofnað á meðan einhver málar á mér bakið eða axlirnar og það var ekki róandi návist hans sem hafði þessi áhrif. Ég var bara búin. Vaknaði þremur tímum síðar með gyllt og rauðbronsað andlit og háls. „Smart að vera á launum við að sofa,“ rumdi ég og notaði tækifærið fyrst ég var vöknuð til að aka heim áður en svefninn kæmi yfir mig aftur án þess einu sinni að þrífa framan úr mér.
Í dag ætla ég að láta Lærlinginn mála kjallaraherbergið. Svo ætla ég að byrja að skrifa nýtt leikrit. Það verður ekki leikritið um gæsina sem verpti ekki nógu mörgum gulleggjum.