Lýtaaðgerðir eru náttúrulega bara argandi snilld. Það er nefnilega ekki gaman að vera ljótur. T.d. held ég að sé ekkert gaman að hafa auga á kinninni, þrjú brjóst eða klofinn góm. Það er ekki fallegt. Hinsvegar er svo skrýtið að fullt af fallegu fólki fer í lýtaaðgerðir og það er áreiðanlega hátt hlutfall lýtaaðgerða sem mætti kannski kalla yngingaraðgerðir. Í dag getur sextug kona litið út eins og tvítug ef hún á nógu mikið af peningum. Eða ekki.
Það eru nefnilega ennþá ákveðnir hlutir sem er ekki hægt að breyta. T.d. stækka eyru og nef með aldrinum. Það er alltaf verið að minnnka nef en ég hef aldrei heyrt að eyru séu smækkuð, ætli það sé hægt án þess að þau verði fáránleg? Og hvað með hendur? Það er hægt að fela hendur sem eru knýttar af elli með hönskum og kannski hægt að blekkja augað með skartgripum og gervinöglum en eru gerðar handlyfingaraðgerðir? Það er allavega ekki enn hægt að breyta lyktinni af fólki, bara setja aðra lykt yfir.
Kannski kemur að því að allt verði fullt af 110 ára gömlu fólki sem lítur út fyrir að vera tvítugt nema bara með rosalega stór eyru, gamlar hendur, beyglaðar tær og lyktandi eins og elliheimili? Eða þá með svo mikið ilmvatn til að fela hrörnunarlyktina að það lyktar nánast eins og baðbúðin í Kringlunni. Mér finnst eitthvað hálf óhugnanlegt við það.