Miðaldurskrísa

-Fårikål, hvað mér finnst ergilegt að hafa svona óreglulegar blæðingar, segi ég.
Já? Ertu kannski komin á breytingaskeiðið? svarar Bjartur kindarlega.
-Varla. Nema ég hafi verið á breytingaskeiðinu frá því að ég hætti á pillunni. Þá var ég 17 ára svo það er nú ekki líklegt.

Mig langar poknulítið að verða fúl en það er staðreynd aš breytingaskeiðið getur hafist upp úr fertugu þótt þap sé kannski ekki algengt, svo spurningin er eiginlega ekki nógu heimskuleg til að ég geti leyft mér að urra. Hann strýkur fingurgómi yfir enni mitt og horfir rannsakandi á mig. Á hvað er maðurinn eiginlega að góna? Æðaslitið í andlitinu á mér kannski eða er hann að telja hrukkurnar? Hann rennir fingrunum upp í hársræturnar á mér. Hann er sennilega að kíkja eftir gráum hárum.
-Hvað ertu að hugsa? spyr hann.
-Ég er að hugsa um ufsabollur, lýg ég. Við verðum að reyna að nýta allan þennan ufsa.
Já, hvað er eiginlega að gerast í hausnum á mér? Spurningin er ágæt þótt mig langi ekki að svara henni. Er þetta miðaldurskrísa eša eitthvað svoleiðis?

Ég hef varla verið eldri en 25 ára þegar ég naut þess aš kvelja sjálfa mig á því að hafa yfir draumaljóðið hans Steins Steinars og þá sérstaklega þessar línur:

Þig skorti hvort vit, né þrek í þraut
en þú ert ekki kominn lengra en hingað.

Ég gat velt mér upp úr mínum eigin aumingjaskap og dugleysi

tímunum saman en það er fyrst núna á síðustu mánuðum sem mér hefur dottið í hug að það sé orðið of seint að breyta því. Já og ég hef svosem haft áhyggjur af því frá 12 ára aldri að lærin á mér séu of feit, varirnar of þunnar o.s.frv. en hingað til hefur það verið hégómleg fullkomnunarárátta en ekki þessi lamandi kvíði sem ég hef fundið til síðustu vikurnar.

Kannski ýtir það undir miðaldurskrísu að vera með miklu yngri manni? Samt… hann var líka miklu yngri en ég fyrir einu ári og þá var mér alveg sama. Að vísu reiknaði ég ekki með því þá að það yrði nokkurntíma svo alvarlegt að við ættum eftir að segja krökkunum okkar frá því, hvað þá foreldrum, en samt… þetta er náttúrulega fáránlegt.

-Eigum við að fara út að borða í kvöld?
Rassgat og fårikål, hugsa ég, hvað er það eiginlega sem maðurinn skilur ekki? Mér er skapi næst að springa en Birtan í mér talar um fyrir mér: Karlmenn eru heimskir, Eva. Það er ekki hægt að ætlast til að þeir skilji mannamál, hvað þá að þeir muni eitthvað sem maður sagði fyrir viku. Útskýra nú, röklega, rólega, enga geðbólgu takk, þeir skilja það enn síður.
-Nei elskan, segi ég blíðlega. Ég ætla aldrei að fara út með þér aftur.
Hann starir angdofa á mig og segir svo það sem hann segir alltaf þegar hann veit ekki hvað hann á að segja:
-Ha?
-Já elskan. Staðan er bara einfaldlega þannig að þér finnst ég ekki falleg þegar ég er vel til höfð og mér líður illa þegar ég er ótilhöfð. Sem merkir að hvorugt gengur upp.
-Eva? Ertu ekki að grínast?
-Nei, Bjartur minn. Mér þykir það leitt en það verða ýmsir árekstrar þegar fólk á fátt sameiginlegt og hér rekst smekkur okkar harkalega á.
-Heyrðu sko! Ég ætla ekkert að fara að stjórna útliti þínu. Kannski var það einu sinni þannig að konan þóknaðist karlinum í einu og öllu en þeir tímar eru bara liðnir.
-Skilurðu virkilega ekki hvað ég á við? Mig LANGAR að ganga í augun á þér en fyrst það er þetta sjúskaða lúkk sem höfðar til þín, þá get ég það ekki við aðstæður þar sem konur eru vanar að punta sig.

Hann hristir höfuðið í uppgjöf og rótar ástúðlega í hárinu á mér.
Það er út af þessu sem karlmenn eru stundum óhreinskilnir við konur – og veistu dálítið; ég skil það.
-Ekki halda að ég vilji ekki að þú sért hreinskilinn,
 segi ég. Það er gott að þetta er komið á hreint þótt það flæki auðvitað ýmislegt þegar viðhorf okkar rekast svona á. Þetta verður ekki vandamál. Þegar aðstæður eru þannig að við þurfum helst að mæta bæði, eins og t.d. við brúðkaup eða jarðarfarir, þá geri ég það alveg. En ég ætla ekki að láta mér líða illa ef það er engin sérstök þörf fyrir það.
-Það verður víst vandamál því ég get náttúrulega ekki mætt ef það kostar það að þér líði illa.
-Jæja,
 segi ég og yppti öxlum, þá verður þetta líklega vandamál.

-Mér finnst gaman að fara út með þér og mér finnst þú falleg eins og þú ert. Mér datt aldrei í hug að það yrði vandamál, segir hann.
-Mér finnst gaman að ganga í augun á kærastanum mínum en mér finnst líka gaman líta ekki út eins og ég sé með alnæmi á lokastigi, og mér datt aldrei í hug að það yrði vandamál, segi ég.
Þögn

-Elskan mín, þetta gengur náttúrulega ekki. Við verðum að geta farið út saman. Ég meina – vertu bara eins og þú vilt. Ég veit alveg hvernig þú lítur út í alvöru. 
Ég dæsi vonleysislega.
-Hjartað mitt, þú skilur mig ekki.
Jú. En það gengur samt ekkert upp að þú getir ekki látið sjá þig á almannafæri nema ég sé hvergi nálægur. Kannski geturðu bara greitt þér einhvernveginn öðruvísi? Kannski notað öðruvísi meik?

Kannski? Ég veit það ekki. Tilgangurinn með andlitsfarða og hárgreiðslu er að líta vel út. Og honum finnst ég líta illa út þegar ég lít vel út. Eða skár en ég geri í alvöru öllu heldur. Þetta er náttúrulega fokkans, kálkindar lúxusvandamál. Kannski líkt því að vera í sambandi þar sem annað er frjálslynt en hitt strangtrúaður múslími sem álítur að konur eigi ekki að sjást á almannafæri nema með tusku fyrir smettinu.

Og aldrei hefði hvarflað að mér að ég ætti eftir að verða múslíminn í sambandinu. Eða er það ég? Ég er bara svei mér þá hreint ekki viss.