Mannsal

Í síðustu viku sátum við nokkrar vinkonur saman að áti, þegar ein lýsti því yfir að eftir reynslu sína af þeim lúðalökum sem væru í boði á öldurhúsum borgarinnar, þætti sér alveg koma til greina að kaupa þjónustu vændismanns.

Spunnust af þessu hinar áhugaverðustu umræður og niðurstaðan varð sú að aðalástæður þess að engin okkar hefur ennþá splæst í slíkan lúxus væru praktískar. Annarsvegar liggja upplýsingar um þjónustu vændismanna ekki á glámbekk og áhuginn ristir ekki nógu djúpt til að við leggjumst í leit; hinsvegar erum við ólíklegar til að setja vændismann ofarlega á forgangslistann yfir allt það dekur sem höfðar til okkar og kostar almennt meira en við erum til í að greiða. Ef valið stendur á milli extrím hárdekurs eða vændismanns, þá tækjum við líklega hárfríðkuna fram yfir, enda vara áhrif handbragðs hennar lengur.

Það var ekki fyrr en daginn eftir sem ég áttaði mig á því að í þessari umræðu hafði engin okkar hafnað þjónustu vændismanns á þeirri forsendu að líklega væri hann ánauðugt fórnarlamb miskunnarlauss iðnaðar og gréti sig gjarnan í svefn af óhamingju yfir hlutskipti sínu.

One thought on “Mannsal

  1. ————————————————–

    Hvernig gat hvarflað að ykkur að kaupa óhamingusaman vændismann til einkanota ? Þið ættuð að skammast ykkar … er ykkur vinkonunum ekkert heilagt ? 😉

    Posted by: Hugskot | 26.03.2007 | 23:22:05

    ———————————————–

    Við lifum líklega í blekkingunni um hamingjusama hórkarlinn.

    Posted by: Eva | 27.03.2007 | 7:28:25

    ———————————————–

    Hef aldrei heyrt um karlmann sem hefur „flotinu“ neitað, sama hvaða hroðbjóður var í boði. En þá er ég auðvitað fordómafull.

    Posted by: lindablinda | 27.03.2007 | 10:00:09

    ———————————————–

    þvílíkar vinkonur sem þú átt Eva, ha! *á innsoginu*

    (vona að þær sem tóku þátt í svona ábyrgðarlausu hjali kunni að skammast sín)

    Posted by: baun | 27.03.2007 | 10:28:33

    ———————————————–

    Góður punktur. Sennilega er hin pólitíska rétthugsun á þann veg að vændismaður væri alltaf hamingjusamur meðan vændiskona væri alltaf óhamingjusöm.

    Posted by: GVV | 27.03.2007 | 10:50:24

    ———————————————–

    „Hef aldrei heyrt um karlmann sem hefur „flotinu“ neitað“

    Ég held að hér felist svarið Eva. Fólk telur að karlmenn lifi fyrir kynlíf og hugsi um fátt annað. Það er því ekki hægt að nauðga karlmanni, nema annar karlmaður sé að verki. Það er heldur ekki hægt að treysta karlmönnum því maður veit aldrei hvenær þeir hætta að hugsa með toppskrúfunni og fara að hugsa með miðfætinum.

    Posted by: Þorkell | 27.03.2007 | 10:55:12

Lokað er á athugasemdir.