Mannréttindi má ekki skerða

Mér gramdist nokkuð þegar Illugi Jökulsson tók fram í umfjöllun sinni um stjórnarskrárfrumvarpið að mannréttindi mætti skerða ef nauðsyn bæri til. Eftir öðrum skrifum hans að dæma, reikna ég með að hann eigi einfaldlega við að mannréttindi takmarkist af hagsmunum annarra svo sem gert er ráð fyrir í lögum en mér gramdist þetta samt, vegna þess að því miður hugsa ekki allir á þann hátt og því tel ég þetta orðalag dálítið varasamt.

Ragnar Þór Pétursson tók svo upp nákvæmlega sama orðalag í einkar áhugaverðri rökræðu við kynþáttahatarann séra Skúla Jakobsson á blogginu sínu í dag. Ég hjó eftir þessu og bað Ragnar að skýra þetta nánar. Hann svaraði mér með ágætum pistli sem staðfestir það sem ég átti nú frekar von á, að hann er að tala um þær skorður sem lögin setja mannréttindum.

Sjálf lít ég ekki svo á að mannréttindaskerðing felist í lögum, nema þá að þau lög séu gölluð. Mig langar að skýra þetta nánar vegna þess að ég tel að það sé grundvallarmunur á því að vilja hafa lög og að gefa mannréttindum lítið vægi.

Á meðan árekstrar verða milli fólks er útilokað að setja reglur sem aldrei þarf að endurskoða. Mannréttindum er hinsvegar ætlað að tryggja hagsmuni einstaklings gegn yfirvöldum og öðrum sem eru í aðstöðu til að kúga hann án þess að þurfa að bera persónulega ábyrgð á því (við tölum ekki um glæpi einstaklinga sem mannréttindabrot.) Mannréttindi þurfa að vera eins almenn og mögulegt er til þess að hugtakið sé nothæft, því ef það gildir um „alla nema bölvaða bófa“ þá er það fallið um sjálft sig.

Ég lít ekki á það sem skerðingu á mannréttindum þótt samfélag komist að lýðræðislegri niðurstöðu um hvað skuli teljast slíkur yfirgangur gagnvart hagsmunum heildarinnar eða annars einstaklings að menn setji sínum eigin mannréttindum skorður með þessháttar hegðun. Skerðing á mannréttindum veltur á geðþótta fárra. Hún beinist gegn einstaklingum eða hópum eða þá að hún er aðferð ógnarstjórnar til að kúga fjöldann. Mannréttindaskerðing getur þannig aldrei verið bæði almenn og lýðræðisleg.

Á Vesturlöndum setja menn almennar og lýðræðislegar reglur um þá hegðun og aðstæður sem takmarka frelsi og réttindi manna og þær reglur eru ekki eilífar heldur endurskoðaðar reglulega. Almennt ríkir stemning fyrir því viðhorfi að þessar reglur eigi að vera skýrar og aðgengilegar, þannig að fólk eigi ekki á hættu að vera svipt frelsi sínu eignum eða öðrum réttindum nema vera meðvitað um þá áhættu fyrirfram. Hversu góðar reglurnar eru á hverjum stað og tíma, deila menn svo aftur um. Ragnar Þór nefnir dæmi um bónda sem þarf að sætta sig við framkvæmdir sem hann er mótfallinn fari fram á landi hans. Það er einmitt ágætis efni í slíka umræðu en það má sannarlega færa rök fyrir því að lögin verndi ekki hagsmuni heildarinnar heldur gangi þau erinda kapítalsins. Hugsanlega hefur lýðræðis ekki verið gætt þegar þau voru sett, ábendingar umhverfissinna hundsaðar eða hagsmunum fárra gefið óhóflega mikið vægi. Lög eru ekki fullkomin. Sum ákvæði útlendingalaganna brjóta beinlínis í bága við mannréttindi án þess að það komi hagsmunum heildarinnar nokkuð við og eflaust má finna mörg fleiri dæmi um gölluð lög.

Þótt lögin kunni að vera gagnrýniverð, sé ég samt ekki fyrir mér samfélag þar sem réttindi fólks eru algerlega takmarkalaus. Jafnvel samfélag án yfirvalds kemur sér saman um umgengnisreglur. Lög sem er ætlað að vernda hagsmuni heildarinnar eru samkvæmt þessum skilningi, ekki skerðing á mannréttindum í sjálfu sér, þótt einstaka ákvæði sé umdeilt eða þarfnist lagfæringa. Það er aftur á móti skerðing á mannréttindum ef fámennur hópur (hvort sem hann kallast yfirvald eða byltingarafl) afnemur lög, bætir við lögum eða breytir þeim að eigin geðþótta.

Ég hefði ekki áhyggjur af þeirri hugmynd að „mannréttindi megi skerða ef nauðsyn krefur“ ef allir sem tala á þeim nótum væru eingöngu að tala um að mannréttindi takmarkist af þeim lögum sem sett eru af réttmætum og lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum og „nauðsynin“ snerist um að vernda rétt annarra. Því miður er þó ekkert óalgengt að fólk telji að mannréttindi eigi eingöngu að gilda fyrir þá sem eru þeirra verðir (að mati þess sem talar hverju sinni.)

Sú skoðun að mannréttindi megi skerða ef nauðsyn ber til er grundvöllur þeirrar túlkunar taliba að fólk skuli njóta mannréttinda í samræmi við sharia lögin.

Hún endurspeglast í orðum Belhaj um þá meðferð sem Saadi Caddafi má vænta.
Hún er undirstaða þeirrar skoðunar að dauðarefsingar og pyntingar eigi rétt á sér og að menn eins og Breivik eigi ekki skilið að fá réttarhöld heldur eigi bara að skjóta hann á færi.

Hún birtist í kröfu þeirra sem vilja öfuga sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum.

Hún kemur fram í því sjónarmiði að öryggi og frelsi einhverra halanegra skipti minna máli en réttur „okkars“ til að þurfa ekki að mæta slíku kvikindi á götu.

Það er að mínu mati grundvallarmunur á þessum hugsunarhætti og því sjónarmiði að mannréttindi verði að takmarkast af lögum um réttindi annarra (sem ég sé heldur ekki að hægt sé að komast undan nema þá með því að snúa mannréttindahugtakinu upp í andstæðu sína.) Og vegna þess að það er hreint ekki óalgengt að fólki finnist bara allt í lagi að gefa skít í mannréttindi þegar fúlmenni eiga í hlut, finnst mér óheppilegt að þeir sem ekki líta svo á, tali um að mannréttindi megi skerða, án þess að skýra það nánar. Sérstaklega finnst mér að í stjórnarskrá þurfi þetta að vera algjörlega á hreinu. Það er nefnilega auðvelt fyrir þann sem á hagsmuna að gæta að sjá nauðsyn allsstaðar.

One thought on “Mannréttindi má ekki skerða

  1.  ————————————————–
    Já og svona upp á PC-ið, ég veit að sumir lesenda minna líta svo á að það sé ekkert til sem heitir réttmæt og lýðræðislega kjörin stjórnvöld. Á meðan við búum við ríkisvald er því miður ekki hægt að ræða hluti eins og mannréttindi nema ganga út frá því skársta sem er í boði. Þar með er ég ekki að mæla með því að allir sem hafa áhuga á að bæta heiminn gangi í stjórnmálaflokk.

    Posted by: Eva | 1.09.2011 | 14:23:32

     ————————————————–

    Algjörlega sammála. Reyndi að ná sumu af þessu með orðalaginu: „Inntak mannréttinda er breytilegt eftir stað og stund. Þau eru ekki óbreytanleg réttindi sammannleg. Það eina sem er úniversalt við þau er að þau eru skilyrðislaus. Þ.e. þeim fylgja engar skyldur aðrar en að vera maður (eða það á a.m.k. að heita svo).“

    Og er sammála því að óþægilega margir virðast líta svo á að mannréttindi séu munaður þeirra sem halda sig „innan kerfis.“ Á meðan mannréttindi ættu einmitt að vera brjóstvörn þeirra sem standa utan kerfis.

    Fagna þessvegna umræðunni um málið. Við þurfum að skerpa á þessu.

    Posted by: Ragnar Þór Pétursson | 1.09.2011 | 14:24:12

     

Lokað er á athugasemdir.