Ljóðið lifir

Keli vinur minn er haldinn þeirri meinloku að ljóðið sé dautt. Sennilega hefur hann bitið þessa vitleysu í sig í einhverju svekkelsi, þegar hann á æskuárum ungur var og uppgötvaði að vinir hans vildu frekar verja kvöldunum við að horfa á ofbeldiskvikmyndir en að sitja undir tré í Hljómskálagarðinum og lesa ástarljóð.

Þegar Keli áttaði sig á þessu varð honum svo mikið um að hann leiddist út í guðfræði. Ef hann hefði verið uppi á 19. öld hefði hann eflaust gengið í klaustur, enda háleitar skáldaglórur hans til grafar bornar og æskutaugar allar sundurskornar, slík eru örlög svo margra ungskálda.

Það er rétt að fáir lesa ljóð

Allt frá þeim tíma sem Keli lenti í guðfræðinni, höfum við þráttað um það okkar á milli hvort ljóðið sé lifandi eða dautt. Keli heldur því fram að ljóðið sé dautt og hefur það til marks að fólk lesi ekki ljóðabækur. Fólk kaupi ljóðabækur eingöngu til að gleðja skáldið og mæti á ljóðaupplestur fyrst og fremst til að hlusta á sjálft sig og nánustu vini en ekki af áhuga á ljóðagerð. Það er rétt hjá Kela að fáir lesa ljóð en ég hafna samt algerlega þeirri kenningu að það merki að ljóðið sé dautt.

Að halda því fram að þar sem fólk lesi ekki ljóðabækur hljóti ljóðið að vera dautt er álíka gáfulegt og að segja að leikritið sé dautt af því að fáir lesi leikrit eða að tromman sé dautt hljóðfæri af því að fáir kæri sig um að kaupa geisladiska með eintómum trommuleik. Listgreinar eru misjafnlega sjálfstæðar. Leikstjórn er t.d. ekki framkvæmanleg nema í tengslum við handrit, leik, kvikmyndatöku o.s.frv. Það merkir þó ekki að leikstjórn sé ómerkilegri listgrein en hver önnur. Það sama á við um hljóðfæraleik, hann þrífst ekki án tónsmíða.

Ljóðið hefur aldrei þrifist sem sjálfstætt listform

AssurancetourixSannleikurinn er sá að ljóðið hefur aldrei lifað sérlega góðu lífi sem sjálfstætt listform enda er það frá fyrstu tíð nátengt öðrum listgreinum, einkum tónlist. Ljóðið hefur brúað bilið milli listgreina og þjónað ýmsum fræðigreinum, ekki síst sagnfræðinni. Ef ekki væri fyrir ljóðlistina má gera ráð fyrir að margar þeirra goðsagna og ævintýra sem eru varðveitt t.d. í kviðum Hómers og Eddukvæðunum, hefðu glatast. Ljóðlistin er einnig uppistaðan í mörgum af vinsælustu leikverkum sögunnar og einkum og sér í lagi þjónar ljóðlistin tónlistinni og öfugt.

Það er rétt að fólk nennir sjaldan að lesa ljóð. Rétt eins og fáir nenna að hlusta á tónlist án texta. Það er tiltölulega þröngur hópur sem hlustar á nútímatónlist og á sama hátt er það þröngur hópur sem hefur yndi af nútímaljóðlist. Þar fyrir lifir ljóðið aldeilis prýðilegu lífi í tengslum við tónlist.

Af hverju á ljóðið svo erfitt uppdráttar?

Ég held að vandamál ljóðlistarinnar í dag séu einkum af þremur rótum

    1. Ákveðið snobb er ríkjandi hjá þeim sem fjalla um ljóðlist.
      Þannig eru það aðallega skáld sem kenna sig við ákveðnar skáldskaparstefnur, einkum póstmódernisma og minimalisma sem fá umfjöllun í fjölmiðlum. Sáralítið er fjallað um ljóðagerð poppskáldanna, þeirra skálda sem ná til almennings. Ég hef t.d. aldrei séð blaðaumfjöllun um hina yndislegu kvæðagerð Jónasar Friðriks í Ríó. Í íslenskunámi mínu í Háskólanum heyrði ég aldrei minnst á Guðmund Böðvarsson (óhó, það segir Mogginn.) Samt sem áður kyrjuðu stúdentar kvæði hans hástöfum á hverju einasta fylliríi (og þau voru sko ekki fá) þótt flestum þeirra yrði fátalað um Þorstein frá Hamri eða Ingibjörgu Haraldsdóttur, nema helst þeim sem vildu sýnast gáfaðri en þeir voru.

 

    1. Útgefendur hafa ekki staðið sig í markaðssetningu ljóðlistarinnar.
      Í stað þess að reyna að ná samstarfi við tónlistargeirann og leikhúsin, hegða útgefendur sér eins og ljóðlistin lúti sömu lögmálum og skáldsagan. Þar sem auglýsingar duga ekki til að selja ljóðabækur reyna þeir varla að gefa út aðra höfunda en þá sem þeir vita að bókmenntaelítan muni kaupa til að hafa uppi í hillu. Þeir auglýsa ljóð nánast ekkert en treysta þess í stað á þann þreytta frasa (gott ef hann er ekki ættaður frá Þorsteini frá Hamri, án þess að ég þori að sverja það) að ljóðið rati til sinna. Aðra eins þvælu hef ég aldrei heyrt, nema ef vera skyldi sú vonda kenning að bænir mannanna rati sjálfkrafa til guðdómsins.

 

  1. Nútímaljóðskáld virða ekki kröfur markaðarins.
    Áður fyrr var kveðskapur að verulegu leyti markaðssettur í gegnum yrkisefnið. Sá kveðskapur sem hefur lifað af er fyrst og fremst sá sem þjónaði þörfum alþýðunnar. Sjálfstæðisbaráttan var að nokkru leyti háð með skáldskap. Fólkið fékk kvæði sem hægt var að syngja og tjáðu þörf þess fyrir sjálfstæði, ást þess á föðurlandinu og móðurmálinu; kvæði sem styrktu sjálfsmynd þess. Þegar 20. öldin gekk í garð og lífsbaráttan var ekki alveg eins hörð og áður, tóku skáldin upp á því að yrkja um ástina af meiri léttúð en áður hafði þekkst. Þau mættu þörfum samtímans. Nútímaljóðið mætir ekki þörfum samtímans. Flest nútímaskáld (allavega íslensk) leggja lítið upp úr hljómi orðanna en leggja fremur áherslu á að draga upp myndir. Þau yrkja fullmikið um sína eigin tilvistarkreppu og mjög oft er viðfangsefnið tungumálið eða jafnvel skáldskapurinn sjálfur. Þau skáld sem haldið er mest á lofti skortir gáska, ástríðu, áhuga á lífi almennings, pólitíska afstöðu og síðast en ekki síst, það sem alla tíð hefur verið undirstaða þess að ljóðið fái yfirhöfuð áheyrn; tengsl þess við tónlistina – hljóm.

Hvaða skáldskap þekkir alþýðan?

Þótt ungskáld í dag geti ekki reiknað með að verða rík af útgáfu ljóðabóka er ljóðið langt frá því að vera dautt. Að vísu þekkja fáir órímuð ljóð Þórarins Eldjárn en flestir þekkja kvæðin hans sem Stuðmenn gerðu vinsæl á sínum tíma. Skrýtin tilviljun!

Kvæði Jónasar Árnasonar eru sannarleg ekki dauð, svo er bróður hans og írskri þjóðlagahefð fyrir að þakka. Megas í holdinu er mun nærri dauðanum en kveðskapur hans. Spaugstofuskáldin eru stórlega vanmetin. Þótt þau hafi sýnt frábæra færni í öllum þáttum ljóðagerðar hef ég aldrei heyrt bókmenntagagnrýnanda nefna kveðskap þeirra einu orði en eyrum þjóðarinnar ná þau svo sannarlega.

Nei, ljóðið er ekki dautt, það er ekki einu sinni kvefað. En ljóðabókin, Keli minn kær, hið prentaða ljóð, jú, mikið rétt, það er vissulega dautt. Enda hefur það heldur aldrei verið lifandi.

 

One thought on “Ljóðið lifir

  1. —————

    Dagný @ 15/06 13.00

    Kannski skiptir það ekki máli í þessu samhengi, en ég hef verið að dunda mig við það undanfarnar vikur að lesa ljóð mér til skemmtunar. Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar, Vísnabók Káins og Aldahvörf Eðvarðs T. Jónssonar. Mér leiðist ekkert við þetta.

    —————

    Þorkell @ 15/06 13.26

    Eva segir: „En ljóðabókin, Keli minn kær, hið prentaða ljóð, jú, mikið rétt, það er vissulega dautt. Enda hefur það heldur aldrei verið lifandi.“

    Og ég sem hélt að Svartar Fjaðrir hafi verið metsölubók á sínum tíma!

    —————

    Eva @ 15/06 13.29

    Enda rímuð ljóð og langflest kvæðanna afskaplega sönghæf. Fólk keypti bókina og söng hana upp til agna.

    —————

    Eva @ 15/06 13.31

    Söngbækur seljast ennþá í stórum upplögum.

    —————

    Torfi @ 17/06 15.48

    Ég er sammála Evu um slaka stöðu ljóðsins þegar það stendur eitt sér. Gott dæmi um þetta eru bókabúðirnar. Ljóðabækur sjást þar varla.
    Jafnframt er það rétt hjá henni að ljóðið stendur vel í tengslum við annað, fyrst og fremst við söng. Segja má að helstu ljóðskáld nútímans komi boðskap sínum á framfæri sem tónlistarmenn.
    Reyndar hafa ljóðskáld löngum gert þetta. Bjarni Thorarensen er gott dæmi um það. Hann samdi mörg sín ljóð með ákveðin lög í huga, oftast dönsk. Eldgamla Ísafold er t.d. samið við erlent lag, ekki það sama og það er sungið nú. Eitthvað til að taka upp og gera að þjóðsöng?
    Bjarni er einnig gott dæmi um skáld sem orti ekki aðeins um sjálfstæði, kvæði sem styrktu sjálfsmynd þjóðarinnar. Hann orti einnig um ástina af meiri léttúð en áður hafði þekkst, ljóð sem mættu þörfum samtímans!
    Gaman væri ef menn settu upp lítið ljóðahorn hér á annálnum og sendu inn uppáhaldsljóðin sín.
    Allir eiga nefnilega eitt eða fleiri slík.

    —————

    Torfi @ 17/06 16.13

    Ljóð sem ég les oft þessa dagana er þýðing Bjarna Thorarensen á ljóði eftir Sappho. Um svipað leyti, eða rétt áður (um 1820), þýddi Sveinbjörn Egilsen sama kvæði. Til eru skemmtileg ummæli Bjarna um að ljóðið sýni að Sveinbjörn sé enginn kvennamaður miðað við sig!
    Er kvenfólkið hér sammála því?

    Hér koma ljóðin, fyrst Bjarna:
    Goða það líkast unun er / andspænis sitja á móti þér / og stjörnu sjá, þá birtu ber, / á brúna himni tindra. / Hefi ég þá í huga mér / svo harla margt að segja þér, / en orð frá vörum ekkert fer, / því eitthvað málið hindrar. // Mjúksár um limu logi mér / læsir sig fast og dreifir sér, / þungt fyrir brjósti æ mér er, / en öndin blaktir á skari. / Sem blossa nálgast flugan fer, / mig færa vil ég nærri þér, / brátt hitinn vex en böl ei þver, / ég brenn fyrr en mig varir.

    —————

    Torfi @ 17/06 16.30

    Þá Sveinbjörn:
    Sá gumi líkur guðum er, / gullfögur augun þín er sér, / og málið sætt af munni þér / og mildan hláturinn nemur; / en hjarta mitt á flótta fer, / flemtrað í brjósti lyftir sér, / nær ég þig lít, og málið mér /af munni varla kemur. // Um hörund leikur logi tær, / lömuð er í mér tungan mær, / grand ekki sjá mín augun skær, / fyrir eyrum hljómur sýður; / um kroppinn svita köldum slær / af kvíðahrolli skinnið rær, / fölna ég sem grösin, fjör og blær / úr feigum nösum líður.

    Já mögnuð eru meyja áhrif!

    —————

    Eva @ 18/06 21.42

    Bjarni er betri, ekki vafamál.

Lokað er á athugasemdir.