Jesús Satan hvað ég er fegin.
Fékk svar frá systur minni. Blóðsystur minni. Það er ekki vitað um önnur tilfelli í ættinni. Ég er búin með internetið og þótt sé ekki alveg 100% öruggt að þetta hafi ekki verið arfgenga afbrigðið (getur víst leynst í marga ættliði) eru líkurnar kannski 1% í stað 50% og það breytir öllu. Eða öllu heldur smættar það sem hefði breytt öllu. Ég verð sennilega ekki komin í hjólastól eftir 3 ár og dauð 65 ára. Það er léttir. Mest vegna strákanna samt.
Ég verð að ná í þá áður en móðir mín gerir það. Þeir vita að vísu að hún gengur ekki heil til skógar en ég vil samt síður að hún færi þeim frétttirnar. Ég skrifaði Hauki strax og bannaði honum að barna Sunnevu en hann hefur ekki svarað svo sennilega hefur hann enn ekki skoðað tölvupóstinn sinn. Það næst ekki í hann í síma frekar en fyrri daginn.
Ég næ ekki í Ingó. Hann á aldrei eftir að klára umbrotið nema ég sitji yfir honum. Ég verð að komast til Íslands. Klára dæmið. Fáránlegt að hafa skrifað heila bók sem mun svo aldrei verða lesin. Ég verð að fá vinnu, á aldrei eftir að lifa af skrifum. Ekki ef ég á að vera raunsæ. Prófessorinn segist trúa því að ég eigi eftir að lifa af skrifum. Það gefur mér von að heyra hann segja það þótt líklega beri það frekar vott um samskiptahæfileika hans en möguleika mína.
Ég þarf að finna einhvern sem hefur í alvöru tíma til að brjóta þessa bók fyrir mig. Ingó segir aldrei nei við neinn og það er greinilegt að hann hefur lofað upp í ermina á sér. Auðvitað þyrfti ég bara að eignast og læra á indesign sjálf. Ég þoli ekki að vera upp á aðra komin.
Ég þoli ekki að þurfa að biðja aðra að vinna tölvuvinnu fyrir mig. Ekki einu sinni besta vin minn. Hvernig ætli mér gengi þá að sætta mig við að verða líkamlega ósjálfbjarga?