-Komstu hingað út af kreppunni? spyr samstarfskonan.
-Ekki út af kreppunni sem slíkri, ég er ekkert hrædd um að verði hungursneyð eða neitt svoleiðis, en ég vil ekki taka þátt í efnahags- og stjórnkerfi sem byggir beinlínis á spillingu. Ég vil ekki vera undir stjórnvöldum sem segja eitt en gera annað og ég vil ekki eiga viðskipti við íslensk stórfyrirtæki og banka, segi ég.
-Því skal ég trúa, segir hún. Áður en ég kom hingað vann ég við að afgreiða matar- og vínpantanir í flugvélar og ég hef aldrei séð annað eins bruðl og óráðsíu eins og á Íslendingum. Þeir eru þekktir fyrir að panta allt það dýrasta og fínasta, stundum varð mér nú bara flökurt.
-Já, þetta er ósmekklegt. Manni kemur það kannski ekki við hvernig fólk notar sína eigin peninga en mér finnst út af fyrir sig ágætt ef það eru færri sem geta hegðað sér svona á meðan hálfur heimurinn sveltur.
-Sína eigin peninga! Heldurðu virkilega að fólk fjármagni svona flottræfishátt með sínum eigin peningum? Ónei góða mín, allt skrifað á fyrirtæki, sem við vitum núna að voru verðlaust sjónarspil, nú eða þá bankann. Það gekk mest fram af mér þegar ég fékk pöntun frá íslenskum banka, rauðvín upp á 40.000 kr, góðan daginn!
-40.000, það er sæmilegt. Var þetta svona stór hópur eða voru þeir á fylliríi í fluginu?
-Neinei, þetta voru bara tvær flöskur.
-Tvær flöskur? Á 40.000?
-Já.
-40.000 íslenskar þá?
-Nei, danskar auðvitað.
-Það getur fjandinn hafi það ekki staðist. Maður hefur heyrt um dýrt kampavín en 20.000 kr rauðvín, er það yfirhöfuð til?
-Já, ef þú ert nógu snobbuð þá er hægt að finna sérútgáfur af hverju sem er fyrir stjarnfræðilegar upphæðir.
40.000 danskar krónur. Það er auðvitað tilgangslaust að reikna í íslenskum krónum í dag en þetta samsvarar 5370 evrum eða 4690 breskum pundum. Jújú, ég skil að fína fólkið þurfi að hafa eitthvað almennilegt til að gúlla í sig í fluginu en va for helveðe, ég segi nú ekki annað.
-Og þú ert viss um að þetta hafi verið íslenskur banki? spyr ég. Ekki stórfyrirtæki, ekki FL group?
-Nei, sagði hún, það var banki og hann er örugglega íslenskur. Kojbtving heitir hann.
——————————————————
Þetta er með ólíkindum. Ég hef heyrt fleiri svona sögur af lifnaðinum.
Þetta er m.a. það sem við erum að borga fyrir og börnin okkar.
Posted by: Lára Hanna | 8.06.2009 | 19:52:53
——————————————————
skítapakk!
Posted by: lindablinda | 9.06.2009 | 18:50:43
——————————————————
Það er nú kannski ekkert undarlegt þótt menn fari ekki að ráðum Evu Joly. Hún vill láta haldleggja bókhald bankanna og það gengur náttúrulega ekki að einhverjar evur séu að hnýsast í einhvern tittlingaskít, eins og t.d. hvað bankarnir hafi gert til að tryggja mikilvægum viðskiptavinum og starfsmönnum ánægjulega flugferð.
Posted by: Eva | 11.06.2009 | 10:23:45
——————————————————
Það er nú kannski ekkert undarlegt þótt menn fari ekki að ráðum Evu Joly. Hún vill láta haldleggja bókhald bankanna og það gengur náttúrulega ekki að einhverjar evur séu að hnýsast í tittlingaskít, eins og t.d. hvað bankarnir hafi gert til að tryggja mikilvægum viðskiptavinum og starfsmönnum ánægjulega flugferð.
Posted by: Eva | 11.06.2009 | 10:24:03
——————————————————
Mér fannst augljóst um hvaða banka væri að ræða. Auðvitað bankann sem ekki hefur haft efni á að láta lagfæra viðmót heimabankans síns frá því hann var opnaður!
Posted by: Unnur María Bergsveinsdóttir | 26.06.2009 | 22:29:06