Fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins Láki Snjákason, jarðálfur er genginn til liðs við Hreyfinguna. Láki tilkynnti þessa ákvörðun sína á blaðamannafundi í morgun.
„Ég var bara orðinn gjörsamlega hugmyndalaus og hættur að hafa gaman af því að gera öðrum illt, svo mér datt í hug að prófa að gera eitthvað sem gott er og fallegt“ sagði þingmaðurinn í samtali við Fréttastofuna.
Fyrsta góðverk Láka á þingi var að leggja fram frumvarp um friðun apa á þingi en eftir að Hreyfingin náði að hasla sér völl, hefur hlutfall bavíana og annarra apakatta snarlækkað á Alþingi og hafa stjórnmálaskýrendur lýst yfir áhyggjum af því að með sama áframhaldi gæti farið svo að Ísland verði ekki lengur talið til bananalýðvelda á alþjóðavettvangi.