Leigubílsstjórinn varð dálítið kindarlegur þegar við nornafeðgarnir stigum inn í bílinn, vopnaðar hrafnskló og hauskúpu af rollu og báðum hann að stoppa við kirkjugarðinn. Það viðraði vel til galdrakúnsta í þessari fyrstu tunglfyllingu ársins en sjálf hef ég takmarkaða trú á því að kirkjugarðar séu öðrum stöðum magnaðri, held það hafi frekar verið veðrið og já, kannski tvær laggir af púrtvíni sé ekki eins galin hugmynd og ég hef haldið.
Nýtt ár, ný plön. Þetta eru góðir dagar. Allt í einu langar mig hvorki í karlmann né árskort í leikhúsið. Mig langar ekki einu sinni í stærri brjóst og þá er nú eitthvað merkilegt að gerast í hausnum á mér. Mig langar ekkert nema að umbylta þessu viðurstyggilega valdakerfi sem við búum við. Mér er sama um allt þetta efnislega. Ég fann, þegar ég var í Susyia að ég gæti búið í helli og lifað á brauði og ólívuolíu án þess að verða óhamingjusöm. Ég kýs það ekki ef ég kemst hjá því en ég hef ekki áhyggjur af afkomu minni. Ég hef ekkert að missa því ég átti hvort sem er ekkert nema skuldir og ímyndað verðgildi íbúðar sem sveiflast eins og dingulber án þess að neinn fái við það ráðið. Bankahrunið fletti ofan af ímynunarheiminum sem við lifðum í og þrátt fyrir dálæti mitt á ævintýrum, líkar mér raunveruleiki sápuóperunnar betur.
Nýtt ár, nýr heimur og nú hef ég saumað pappírsþurrku með hrákaslummu vitleysings inn í galdrabúðu og magnað undir fullu tungli, vitleysingnum til afhjúpunar og athlægis.
Kindin, það er annað mál en í minni fjölskyldu hafa ærhausar ætíð gefið góðan árangur. Sonur minn Byltingin kom t.d. Halldóri Ásgrímssyni frá völdum með kindarhaus og reyndist hann betur en þorskhausinn sem hann magnaði gegn Geir Haarde á sínum tíma. Ég var þó ekki að reyna að koma neinum frá völdum í nótt. Það gerði ég með vargastefnunni þann 1. desember og hafi vel til tekist mun sá galdur bera árangur innan 7 mánaða.
Stemningin var mögnuð í nótt. Það er ekki oft sem ég kasta galdri við annan mann en nærvera annarrar nornar truflaði mig síður en svo. Reyndar er ég ekki frá því að ég hafi heyrt kindina jarma eins og úr öðrum heimi. Kannski var það bara draugakind en draugar eru í hausnum á manni og jafn raunverulegir og gróðærið og því vafasamt að taka mark á þessháttar jarmi. En kannski var það kind. Raunveruleg mannkind sem lá meinvill einhversstaðar í myrkrinu. Ætli það hafi verið ríkisstjórnin hin meinvilla sem jarmaði?
——————–
Mér vona að það virkir. Takk fyrir, Eva.
Posted by: Lissy | 11.01.2009 | 14:43:41
——————–
bíddu, var það Haukur sem var með kindahauskúpu á níðstöng á mótmælunum í gær?
Posted by: hildigunnur | 12.01.2009 | 7:29:49