Þegar naggrísamamman dó, datt elskulegri systur minni í hug að kannski mætti bjarga krílunum með því að leggja þá á spena kisumömmu í staðinn. Ég var afskaplega efins þótt kisa léti sér bara vel líka, og ég átti satt að segja alveg eins von á að þeir yrðu veikir. Sá minnsti dó á öðrum degi en hinir tveir hafa þrifist vel.
Kettlingunum líkaði að vísu stórilla að þurfa að deila mömmu sinni með einhverjum rottum og við þorðum ekki að yfirgefa kisu á meðan naggrisirnir lágu hjá henni en ungarnir hafa stækkað heilmikið, eru orðnir stærri en kettlingarnir og nú fá þeir kattaþurrmjólk úr pela. Ég játa á mig yfirdrifna krúttkennd við að sjá þá totta. Krútt ársins er samt kettlingurinn sem hvæsti strax á öðrum degi tilveru sinnar. Svona líka reiður. Hulla er að reyna að telja mér trú um að mig vanti kött. Mig langar reyndar meira í mann en þeir eru ekki jafn krúttlegir þegar þeir hvæsa.