Klafi

Undanfarnar vikur hef ég efast um mátt minn og megin og í morgun vaknaði ég með burn out syndrom. Ég er svo þreytt að ég hálf dróst fram til að bursta tennurnar og skreið svo aftur upp í rúm. Ég er enn í rúminu, ekki einu sinni búin að laga kaffi og klukkan langt gengin í 9. Ég er ekki veik og það hefur ekki verið óhóflegt vinnuálag á mér. Mig bara langar ekki á fætur, sem er mjög óvenjulegt fyrir mig því yfirleitt vakna ég mjög glöð þótt ekkert merkilegt sé fyrirhugað.

Ég ætti að vera eiturhress því gærdagurinn gekk svo miklu betur en ég þorði að vona en núna finnst mér það bara ofboðslega þreytandi hugmynd að fara á fætur og gera alla þessa hluti sem ég geri venjulega. Taka saman nokkrar pantanir, svara tölvupósti, fjandinn ég þarf að þvo gluggana, það tekur 7 mínútur og mér finnst hugmyndin beinlínis erfið.

Ég gæti frestað ýmsu en eitt af því sem ég verð að gera í dag er að finna lausan rafvirkja. Systir mín var svo elskuleg að standa í búðinni í gær og einmitt þá fór rafmagnið. Ekki af öllu, heldur bara kassanum, posanum hilluljósinu og eldhúsinu, eða m.o.ö. öllu sem ég get ekki verið án. Hún stóð sig eins og hetja og reddaði sér bara án rafmagns en ég sé ekki fram á að reka rafmagnslaust fyrirtæki mjög lengi í samfélagi sem þrífst á kortaviðskiptum. Er heldur ekki viss um að Skattmann yrði glaður ef ég skilaði handfærðu uppgjöri um lengri tíma. Stefán kom af endalausri greiðvikni sinni til að líta á þetta fyrir mig og þetta er alvöru bilun. Ekki samt í eldgömlum rafmagnsleiðslum, heldur þeim nýjustu. Hann er á kafi í vinnu sjálfur og getur ekki tekið þetta að sér. Ég stóð sjálfa mig að verulegum fordómum þegar Helgi sagði mér að það hefði verið einhver Letti á vegum Rússlönu sem dró rafmagnið í eldhúsið og Stefán hló góðlátlega. Hvaðan fengum við eiginlega þá hugmynd að fólk frá Austur-Evrópu sé ónýtir iðnaðarmenn?

Og nú vildi ég að einhver legði lófann kviðinn á mér og segði -förum nú á fætur, þetta verður ekkert mál.

 

One thought on “Klafi

 1. ———————-

  Kæra norn.

  Það er sannað að stress dregur úr manni mátt. Meðal helstu stressvalda má telja málaferli, peningaáhyggjur, sambandsslit og áhyggjur af afkvæmum.

  Það er mín reynsla að stressþreyta kemur aftan að manni og það getur tekið smá stund að átta sig á því að þreytan er ekki „ástæðulaus“ þó maður hafi ekki verið að vinna í akkorði daginn áður.

  Þá er nauðsynlegt að hvíla sig eftir bestu getu og horfa á skýin og blómin og hvað það nú er sem gerir mann glaðan. Og svo allt í einu uppgötvar maður jafn skyndilega að þreytan er horfin (nota bene þá er ég ekki að tala um samdægurs). Og svona heldur lífið áfram …

  Takk fyrir sápuóperuna – ég er dyggur lesandi.

  Posted by: Sliban | 13.06.2008 | 10:21:31

  ———————-

  Uhh, þú segir nokkuð. Getur rafmagnslaust fyrirtæki kannski líka fallið undir skilgreininguna streituvaldur? Kannski er þessi þreyta ekki svo óeðlileg þegar allt kemur til alls.

  Posted by: Eva | 13.06.2008 | 14:05:53

Lokað er á athugasemdir.