-Mér helst ekki á karlmanni og veit ekki hvers vegna. Geturðu kennt mér að laga það? spurði ég dimmum rómi og horfði hvasseyg á Sáluna.
-Já. sagði hún, jafn blátt áfram og ef ég hefði spurt hvort hún kynni að sjóða ýsu.
Ég missti andlitið. Hingað til hef ég aldrei heyrt sálfræðing, ráðgjafa eða geðlækni gefa nokkurt fyrirheit um hæfni sína heldur hafa spurningar á borð við þessa vakið ábúðarfullan samúðarsvip og varfærnislegar spurningar um alla þá vonsku sem þeir ímynda sér að heimurinn hafi sýnt mér.
-Ef ég þarf að segja þér ævisöguna mína og væla yfir henni vil ég helst ljúka því strax. Ég á ekkert erfitt með það en mér finnst hún bara frekar leiðinleg og það hefur hingað til ekki læknað mig að velta mér upp úr henni, urraði ég.
-Viltu nokkuð vera að eyða tíma þínum og peningum í eitthvað sem virkar ekki? spurði hún.
-Helst ekki. Ertu að segja að það sé til önnur leið sem virkar betur?
-Það er til nothæf leið fyrir alla, við þurfum bara að finna út hvað virkar fyrir þig. Ég sé enga ástæðu til að draga dómgreind þína í efa og það er bara bónus að vita hvað virkar ekki. Við prófum þá bara eitthvað annað.
-Hvað þá?
Hún horfði á mig þegjandi smá stund. Hallaði sér svo aftur í stólnum og sagði:
-Hefur þér aldrei dottið í hug að þessir menn sem þér helst ekki á hafi bara fundið á sér að þeir séu of miklir lúserar til að þú eigir skilið að sitja uppi með þá?
-Jújú mér hefur svosem dottið það í hug en það er nú frekar ótrúlegt að allir sem verð hrifin af séu aumingjar.
-Já finnst þér það ótrúlegt? sagði hún og brosti eins og sá sem veit betur. Kannski við ættum að byrja á því að leiðrétta þann misskilning að það sé ótrúlegt að í öllu því kraðaki aumingja sem er á markaðnum, hafi þér tekist að rekast á fleiri en einn.
Ekkert kjaftæði um tilfinningadagbók, engar kenningar um litla hrædda barnið innra með mér sem á svo erfitt með að tjá sársauka sinn, engin samúðartónn vegna ímyndaðrar hryðjuverkastafsemi gamalla áfalla á sjálfsvirðingu minni, engar tillögur um að sinna sjálfri mér betur eða drekka te með heybragði og gera slökunaræfingar.
Svei mér þá ef er ekki reynandi að gefa henni séns.