Jólaðu heimilið á 10 mínútum

jól
Ertu voðalega langt frá því að vera jólabarn og hefur hvorki tíma né áhuga á því að  hengja jólakraut upp um alla veggi og baka smákökur? Ekki örvænta.
Þú þarft ekki að hafa jólasvein á svölunum og ljósaseríur í öllum gluggum til að eiga huggulega kvöldstund með vinum. Semdu við systur þína eða vinkonu sem bakar smákökur um vöruskipti eða kauptu af þeim heimabakaðar piparkökur. Kauptu aðrar smákökur í búð, það er alveg nóg að vera með eina sort heimabakaða. (Þú getur líka keypt tilbúið deig ef þú ert til í að eyða aðeins meiri tíma í að jóla.) Kauptu nóg af kertum, hnetum mandarínum og smá greni og þú getur skapað aðventustemmingu á 10 mínútum.
  • Settu aðventuljós í glugga eða ljósaseríu, láttu hana bara liggja í gluggakistunni því það er meiri vinna að hengja hana upp.
  • Fylltu fallega skál af mandarínum og stingdu negulnöglum í nokkrar þeirra.
  • Settu hnetur í körfu eða tréskál og stingdu nokkrum litlum grenigreinum ofan í hana.
  • Kveiktu á mörgum kertum rétt áður en gestirnir koma, líka á 2-3 útikertum svo aðkoman sé jólaleg.
  • Raðaðu piparkökum á fallegan disk.
  • Settu svo botnfylli af vatni í lítinn skaftpott og kanel út í. Hleyptu upp suðunni rétt áður en gestirnir koma. Húsið fyllist af jólalykt og allir munu halda að þú hafir bakað piparkökurnar sjálf. Ef þú ert beðin um uppskrift ljúgðu því þá bara að þú hafir fundið uppskriftina á netinu og munir ekki slóðina.
  • Svo þarf bara vel valda jólatónlist.

Þetta virkar í alvöru. Fólki mun finnast alveg ægilega jólalegt hjá þér.