Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég flutti til útlanda hvers konar drasl íslenskir brauðostar eru. Ostur er reyndar rangnefni, þeir eiga meira skylt við gúmmí. Og nei, ég er ekki að tala um gerviost sem er seldur sem pizzuálegg heldur þetta rusl sem er kallað brauðostur, góðostur, skólaostur gauda o.s.frv.
Prófið að bræða íslenskan ost. Hann klessist við hnífapörin eins og soðið tyggjó. Hann eyðileggur uppþvottabursta. Og hann er ekki einu sinni bragðgóður. Láttu þér aldrei detta í hug að setja brauðost út í sósuna, ef þú ætlar að nota ost í sósu notaðu þá rjómaost, brie eða útlenska osta, annars fer allt kvöldið í það að þrífa pottinn.
Sennilega finnst mörgum Íslendingum þetta myndband hér að neðan ótrúverðugt. Ég veit reyndar um konu sem reyndi þetta með íslenskum skólaosti og bölvaði myndbandinu í sand og ösku á meðan hún hamaðist á pönnunni. Fékk sér svo ristað brauð með smjöri því auðvitað varð engin ostasamloka úr þeirri tilraun, heldur aðeins uppþvottaslys.
En þetta er ekkert svindl. Ef maður er með alvöruost virkar þetta bara mjög vel. Það er hægt að fá almennilegan, breskan Cheddar á Íslandi, Cathedreal í rauðum pakkningum og ég mæli með honum. Tek fram að þetta er ekki kostuð kynning, ég veit bara ekki um neinn annan ost sem er fáanlegur á Íslandi sem er hægt að steikja á pönnu en ábendingar eru vel þegnar.
Hugsanlega koma aðrir ostar til greina en ekki reyna þetta með osti sem er ekki hægt að mylja. Ef hann er gúmmíkenndur þá klessist hann bara við pönnuna.
Ég mæli reyndar með því að strjúka brauðsneiðarnar (þá hlið sem á ekki að grillast) með hvítlauk og/eða ferskum chili-pipar og smyrja svo með rjómaosti og setja paprikusneið á milli en nota Cheddar ostinn aðeins utan á samlokuna. Þeir sem borða kjöt setja að sjálfsögðu grillað beikon inn í samlokuna, hvort sem notaður er Cheddar eða rjómaostur.