Innflytjendamýta 2 – frjálsleg innflytjendastefna er óhagkvæm

Þeir sem óttast frjálst flæði fólks milli landa, hafa oft áhyggjur af því að mikill fjöldi innflytjenda skerði lífsgæði þeirra sem fyrir eru í landinu. Reyndin er þó sú að í flestum Evrópulöndum hafa lífskjör batnað á síðustu áratugum, þrátt fyrir að innflytjendum fjölgi stöðugt.

Velferðarkerfið í löndum eins og Grikklandi og Ítalíu ræður ekki við þann mikla fjölda flóttamanna sem þar hefst við en vandamálið þar er ekki frjálsleg innflytjendastefna heldur einmitt sú aðskilnaðarstefna sem Evrópulöndin bera sameiginlega ábyrgð á. Í stað þess að taka upp sameiginlega flóttamannaáætlun, hafa Evrópuríkin velt nánast allri ábyrgðinni yfir á þau lönd sem flóttamenn koma fyrst til, enda þótt þeir hafi alls ekki hugsað sér að setjast þar að og enda þótt þessar þjóðir ráði ekki við svo mikinn fjölda óstuddar. Íslensk yfirvöld réttlæta svo tregðu sína til að axla hluta ábyrgðarinnar með því að vísa til fjölþjóðlegs samkomulags, rétt eins og sé hætta á því að við myndum stórmóðga Grikki eða Ítali með því að taka einn og einn flóttamann frá þeim (venjulega menn sem hafa engan áhuga á að vera þar og voru einmitt á leið burt.)

Það eru þó ekki aðeins flóttamenn sem fólk óttast að grafi undan velferðarkerfinu, heldur er óttinn við löglega innflytjendur ekki minni. Dæmi eru um að fólk fái fjárhagsaðstoð á meðan það er að koma sér fyrir og þar sem innflytjendur eins og annað fólk á rétt á bótum ef það missir vinnu eða starfsgetu, skelfur þjóðin sem kyngir milljarða afskriftum á skuldum auðmanna á beinunum yfir tilhugsuninni um að skattgreiðendur þurfi að framfleyta útlendingi. Niðurstaðan er skýr:
-Þetta fólk kemur hingað til að leggjast á velferðarkerfið.

Allt er til. Til eru Íslendingar sem vilja ekki vinna fyrir sér og það sama á við um aðrar þjóðir, það verða alltaf einhverjir sem misnota velferðakerfið en ein ástæðan fyrir því að við höldum uppi velferðarþjónustu er sú að það er hagkvæmara að halda uppi einum bótaþega þegar 10 aðrir greiða skatta, en að láta öreiga og sjúka út á Gvuð og gaddinn.

Ég hef enn ekki séð nein haldbær rök fyrir þeirri trú að misnotkun á velferðarkerfinu sé hlutfallslega meiri meðal innflytjenda en innfæddra, hvort heldur er á Íslandi eða annarsstaðar. Langflestir þeirra sem flytja milli landa gera það ekki í þeim tilgangi að lifa af bótum, heldur til að tryggja sér skárri lífsskilyrði og vera hjá ástvinum sínum. Í Bandaríkjunum er hlutfall innflytjenda 11,5% þjóðarinnar. Hlutfall innflytjenda á vinnumarkaði er hinsvegar 12,4%. Þetta segir okkur að hlutfall vinnandi innflytjenda í Bandaríkjunum er hærra en hlutfall innfæddra sem eru í vinnu. Skattgreiðslur innflytjenda í Bandaríkjunum eru auk þess margfalt hærri en þær bætur sem innflytjendur þiggja (áhugaverðar upplýsingar hér) Ég er ekki búin að finna tölur um það hvernig þessu er farið á Norðurlöndum en auglýsi hér með eftir tenglum.

Þegar þrengir að á atvinnumarkaðinum eru innflytjendur vinsæll blóraböggull. Mýtan
-Útlendingar taka vinnu frá okkur,
er jafnvel enn ógurlegri grýla en goðsögnin um útlendinga á aumingjabótum.

Sú hugmynd að útlendingar taki vinnu frá Íslendingum er þó sjaldan studd öðrum rökum en þeim að í stórmörkuðum og á sjúkrastofnunum vinni margir útlendingar og ég hef hvergi fundið neitt sem rennir stoðum undir þessa kenningu.

Allir sem hafa reynslu af því að sækja um vinnu í útlöndum vita að útlendingslegt nafn eitt og sér takmarkar möguleikana og því verri sem þekking manns á tungumáli og menningu er, því erfiðara á hann uppdráttar á atvinnumarkaði. Þegar tveir jafnhæfir sækja um, á sá innfæddi nánast alltaf meiri möguleika á að fá vinnuna. Skýringin á lágu hlutfalli atvinnuleysis meðal útlendinga (bíddu nú við, eru þeir semsagt ekki allir á bótum?) skýrist frekar af því að þeir gera minni kröfur um há laun og starfsframa en Íslendingar (einmitt vegna þess að þeir vita að þeir eiga minni möguleika en innfæddir á því að nýta menntun sína og reynslu, allavega fyrstu árin í nýja landinu) og hinsvegar af því að margir innflytjendur skapa sér og sínum fjölskyldum atvinnu sjálfir.

Rasistinn getur ekki svarað þessu vegna þess einfaldlega að hann finnur hvergi tölur sem styðja goðsögnina um atvinnurán innflytjenda en þó stendur ekki á svarinu;
-Einmitt, innflytjendur lækka vinnulaun því þeir eru tilbúnir til að vinna fyrir lægri launum.

Hið rétta er að mikið framboð af starfsfólki leiðir til launalækkunar og já, sjálfsagt eru flestir tilbúnir til að slá af kröfunum þegar þeir vita að þeir eiga minni möguleika en meðalmaðurinn. Það eru þó ekki nýbúasamtökin sem semja um lágmarkslaun, heldur verkalýðshreyfingin, svo ef einhver vinnur gegn hagsmunum launþega þá ættum við kannski að vísa forkólfum verkalýðshreyfinga út í hafsauga í stað þess að stofna til kynþáttastríðs.

Að kenna innflytjendum um lág laun og vilja losna við þá úr landi eða skerða réttindu þeirra til vinnu er álíka heillavænlegt og að reka allar konur úr landi eða meina þeim aðgang að vinnumarkaði. Athugum líka að jafnvel þótt væri hægt að henda öllum útlendingum úr landi, koma alltaf af og til tímabil þegar mikil þörf er fyrir starfsfólk. Í gamla daga var þetta tæklað með því að konum var húrrað út á vinnumarkaðinn á uppgangstímum og þær svo nánast hlekkjaðar við eldavélina þegar kreppti að. Ég efast um að þýði neitt að ræða réttlæti og jöfnuð við fólk sem finnst sæmandi að fara þannig með útlendinga og ég trúi því ekki að þeir séu margir sem líta á það sem góða lausn. Í umræðunni um lægri laun vegna mikils framboðs á vinnuafli, gleymist aukinheldur oft að líta á skemmri vinnudag og skemmri starfsævi sem lífsgæði. Spyrja má hvort sé nokkuð verra að fáir hafi há laun og fáir haldi þar með uppi samfélagsreksti en að fleiri leggi hönd á plóg og hver um sig beri minna úr býtum.

Umræðan um að útlendingar skerði lífsgæði okkar fær hvergi neina stoð. (Holskefla nauðstaddra flóttamanna er annað mál sem ég kem að í öðrum pistli síðar.) Betra væri að líta innflytjendur sömu augum og konur; sem mikilvæga viðbót við atvinnumarkaðinn, taka alvarlega á atvinnurekendum sem nýta sér neyð þeirra til að undirborga erlent vinnuafl, og auðvelda þeim innflytendum sem hafa áhuga á því að koma sér upp atvinnurekstri. Við skulum heldur ekki gleyma því að innflytendur nota þjónustu eins og annað fólk svo þeir sem hafa áhyggjur af því að þeir taki störf frá okkur, misnoti bótakerfið og lækki laun, ættu kannski að velta því aðeins fyrir sér hversu mörg fyrirtæki færu á hausinn ef allir innflytendur hyrfu úr landi.

One thought on “Innflytjendamýta 2 – frjálsleg innflytjendastefna er óhagkvæm

 1.  
  ———————————————– 
  Frábær grein.

  Hef þó eina athugasemd sem varðar atvinnumál innflytjenda á Íslandi: Í gróðærinu var hærra hlutfall af innflytjendum á atvinnumarkaði en gerðist meðal Íslendinga. Eftir hrunið var rætt um að nú myndu „útlendingarnar bara fara heim“ sem var auðvitað fáránleg hugmynd því að þó að einhverjir þeirra sem raunverulega voru farandverkmenn færu „heim“ þá var sá hópur liklega stærri sem að hafði fest rætur hér. Nú hefur það svo gerst að í atvinnuleysinu eru það innflytjendurnir sem fyrst missa vinnuna og því er meira atvinnuleysi meðal þeirra en Íslendinga.

  Þá skiptir miklu máli að þeim bjóðist ódýr eða ókeypis íslenskukennsla. Það hefur sem betur fer verið gert en Vinnumálastofnun tekur þátt í kostnaði vegna íslenskunámskeiða þeirra sem eru í atvinnuleit og hafa ekki íslensku sem móðurmál. Líklega hefði þó verið betra að þeim hefði gefist tækifæri til að stunda íslenskunám fyrr en á meðan atvinnan var sem mest var oft mjög erfitt að finna tíma fyrir íslenskunámið því fólk var alltaf að vinna og það voru bara einstöku atvinnurekendur sem buðu upp á íslenskunám á vinnutíma (Ríkisspítalar, Grandi og fleiri).

  Posted by: Ingibjörg Stefáns | 12.08.2011 | 13:27:36

  ———————————————– 

  Takk fyrir góða umsögn og innlegg Ingibjörg. Ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt að sem flestir innflytjendur fái íslenskukennslu strax. Vinir og vinnufélagar sem venja sig á að tala ensku við þann sem er nýr í hópnum, eiga oft erfitt með að venja sig af því aftur og það getur tafið fyrir því að fólk nái tökum á málinu.

  Posted by: Eva | 12.08.2011 | 23:00:14

  ———————————————– 

  Þú segir:
  „Reyndin er þó sú að í flestum Evrópulöndum hafa lífskjör batnað á síðustu áratugum, þrátt fyrir að innflytjendum fjölgi stöðugt.“

  Mjög gott, en í stað „þrátt fyrir“ gætir þú alveg sagt „vegna“.

  Án innflytjenda hefði hagvöxtur í V Evrópu verið ómögulegur.

  Posted by: Sverrir Agnarsson | 15.08.2011 | 14:55:24

  ———————————————– 

  Afríka fyrir svertingja, Asía fyrir Asíumenn, Hvít Lönd fyrir Alla.
  Tortíming með Samlögun.
  Holland er álíka þéttbýlt og Japan, Belgía er álíka þéttbýlt og Suður Kórea, en enginn segir að Japan eða Suður Kórea muni leysa KYNÞÁTTA vandamálið með því að flytja inn milljónir frá þróunarríkjunum til að samlagast og giftast þeim.
  Allir segja að endanleg lausn á KYNÞÁTTA vandamálinu er þegar ÖLL hvít lönd og AÐEINS hvít lönd flytja inn íbúa þróunarríkjanna og samlagast með þeim.
  Innflytjendur, umburðarlyndi, og sérstaklega samlögun eru núna notuð gegn hvíta kyninu.
  Allir þessir innflytjendur og giftingar eru fyrir ÖLL hvít lönd og AÐEINS fyrir hvít lönd.
  And-hvítir eru kallaðir and-rasistar en það leiðir aðeins til þess að eitt kyn og aðeins eitt kyn hverfur.
  Þetta er þjóðarmorð.

  Posted by: Skúli Jakobsson | 15.08.2011 | 22:55:09

  ———————————————– 

  Aftur Skúli, þú ert nasisti og rasisti en auk þess illa upplýstur. Lestu pistlana og svaraðu þeim rökum sem þar eru sett fram ef þig langar að tjá þig hér en hlífðu okkur við þessari copy-paste útgáfu af þjóðarmorðsþvælunni.

  Posted by: Eva | 15.08.2011 | 23:57:34

  ———————————————– 

  Sverrir, þú ert fullur af skít og fafræði skín með ummælum þínum, rétt eins og hjá Evu.

  Það eina sem hefur bætt lífskjör okkar er tækni og þróun hennar, og ég sé ekki betur en að vesturlöndin hafa verið leiðandi afl í slíkri þróun og eru það flest allt jú hvítir Evrópubúar og kanar sem vinna á rannsóknarstofum, reyndar Asíbúar líka. Ekki hef ég tekið eftir því að múslimar eða Afríkubúar hafa gefið mikið af sér í þágu mannkyns á síðastliðinni öld, og hvað varðar ódýrt vinnuafl þá er það einungis gróði fyrir stórfyrirtækin og aukin vandamál í samfélaginu sem slíkt vinnuafl skapar, bæðu fyrir ríkið og hagkerfið.

  Forfeður okkar hafa unnið hart á að byggja upp okkar samfélag og lífskjör, gáfu okkur menningu, þjóðerniskennd og okkar siðmenningu yfir höfuð. Held að við ættum að sína þeim ásamt börnunum okkar smá abyrgð með því að rústa ekki okkar arfleið og einkennum eins og Eva leggur til.

  Posted by: Hákon | 17.08.2011 | 3:05:00

  ———————————————– 

  Að þínu áliti er ég rasisti og nasisti. Þú segir það bara vegna þess að ég er Hvítur. And-rasismi er bara dulorð um and-Hvíta.
  Allir þínir pistlar og ‘rök’ eru í raun til þess ætlaðir að Hvíta útrýmingin haldi áfram á fullri ferð. Þess vegna bendi ég stanslaust á þessa Hvítu útrýmingu sem þú ert að hvetja til.
  Ég tala ekki um aukaatriði við fólk sem er and-Hvítt og eru fyrir Hvíta Útrýmingu vegna þess að þeim er alveg sama hvað hendir okkar fólk svo lengi sem þeir fá sinn „fullkomna heim“ án Hvíts fólks.

  Posted by: Skúli Jakobsson | 17.08.2011 | 11:16:58

  ———————————————– 

  Hákon, til þess að nýta tækni og þróun þarf vinnuafl og aukinn fólksfjöldi útheimtir auk þess aukna þjónustu og er því atvinnuskapandi.

  Hvaðan hefur þú þær upplýsingar að flestir sem vinna á rannsóknarstofum séu hvítir Evrópubúar og hvaða rannsóknarstofur ertu að tala um?

  Posted by: Eva | 17.08.2011 | 17:35:39

  ———————————————– 

  Takk fyrir góða ábendingu Sverrir, það er auðvitað alveg rétt hjá þér að hagvöxtur verður ekki í fámennissamfélögum þar sem fæðingatíðni er lág.

  Hákon, ég er ekki hrifin af arðráni stórfyrirtækja eða stórfyrirtækjavæðingu heldur og ekki mæli ég með því að útlendingar séu notaðir sem ódýrt vinnuafl þótt það skýri kannski að einhverju leyti mikla atvinnuþátttöku þeirra. Staðreyndin er þó sú að við búum við kapítalískt hagkerfi og það er ekkert sem bendir til þess að innflytendur dragi úr velmegun okkar.

  Posted by: Eva | 17.08.2011 | 17:53:20

  ———————————————– 

  Já og eitt í viðbót Hákon, hvaða menningararfleifð er það sem stendur svona mikil ógn af innflytjendum? Áttu við þjóðerniskenndina (sem varð ekki til fyrr en með sjálfstæðisbaráttunni á seinni hluta 19. aldar) eða hefurðu áhyggjur af því að unglingar hætti að lesa Íslendingasögurnar ef allt fyllist af aröbum hér?

  Posted by: Eva | 17.08.2011 | 18:01:02

  ———————————————– 

  Ég vil bæta einu við Eva. Ísland sparar mikið á því að taka við fullorðnu fólki sem fer beint á vinnumarkaðinn og greiðir skatta. Ríkið þurfti því ekki að greiða skólagöngu og fl. heldur fékk nýjan þegn nánast því að kostnaðarlausu.

  Posted by: Þorkell | 20.08.2011 | 8:16:27

   

Lokað er á athugasemdir.