Sú innflytjendamýta sem ég verð mest vör við eru hin viðteknu sannindi:
Innflytjendavandamál skapast þegar ólíkri menningu er blandað saman.
Það er alveg sama hversu oft við tyggjum þessa klisju, þetta er einfaldlega rangt. Innflytjendavandamál skapast fyrst og fremst þegar fólk með ólíkan menningarbakgrunn býr við aðskilnaðarstefnu. Auðvitað væri hægt að skauta fram hjá þeim verkefnum sem skapast við innflutning fólks sem ólíkan menningarbakgrunn með því að hleypa einfaldlega engum útlendingum inn í landið en þar sem það er hvorki raunhæft né réttlátt, stendur valið á milli menningarblöndunar og aðskilnaðarstefnu.
Hvarvetna þar sem aðskilnaðarstefnu er framfylgt með valdboði, eru afleiðingarnar langvarandi stríðsástand, ofbeldi og hatur en jafnvel þótt aðskilnaðarstefna sé ekki opinber getur auðveldlega skapast ástand sem hefur öll einkenni aðskilnaðarstefnu. Þegar það gerist búa tvær eða fleiri þjóðir í landinu. Minnihlutanum er gert erfitt fyrir á allan hátt, hver menningarhópur finnur sig knúinn til að styrkja sjálfsmynd sína með því að dauðhalda í sérkenni sín og berjast fyrir hagsmunum sínum með öllum ráðum. Gagnkvæm fjandsemi verður til þess að menningarblöndun verður lítil en átök mikil. Í slíku landi búa mörg samfélög á sama svæði og aðskilnaðarstefnan kemur fram í hugmyndinni „við“ og „hinir“ fremur en lögbundinni undirokun. Þetta er alger andstæða við fjölmenningarsamfélag.
Fjölmenningarsamfélag einkennist ekki af köldu stríði og þrúgandi umburðarlyndi, heldur af gagnkvæmri tillitssemi, frjálslegum og kurteislegum samskiptum ólíkra hópa og þátttöku ólíkra hópa í menningu hvers annars. Slíku samfélagi verður ekki komið á með því að taka á móti innflytjendum með tortryggni og ótta og skamma þá fyrir að vera öðruvísi, heldur með því að bjóða þá velkomna.
Þegar maður lýsir þessari skoðun fær maður gjarnan svar á borð við:
-Já en menningu okkar stafar hætta af muslimum og öðru fólki með ólíkan menningarbakgrunn.
Afsakið en hvað er íslensk menning og hvaða áhrif hafa valdið mestum breytingum á henni á undanförnum árum? Hafa menn svona miklar áhyggjur af því að Íslendingar fari að borða hummus í staðinn fyrir lifrarpylsu? Eða er meiri hætta á að við munum borða meiri hummus og færri pizzur? Borðum við svona mikið af pizzum vegna ágangs ítalskra innflytjenda? Er hættan sú að í stað íslenskrar harmónikkutónlistar muni taílesk tónlist glymja í útvarpi? Eða eru útvarpstöðvar kannski löngu farnar að spila bandaríska og breska popptónlist í stað íslenskrar harmónikkutónlistar? (Sem er reyndar álíka íslensk og vínarbrauð, byggingarstíll ráðhússins og Nike skór.)
Nei auðvitað stafar íslenskri menningu engin hætta af austurlenskum matsölustöðum eða fólki með viskustykki á hausnum. Ekki frekar en amerískum kvikmyndum eða franskri handsnyrtingu. Menningin þróast, blandast og breytist, við ráðum ekki við það á tímum fjölmiðlafrelsis og falafel vagn á Lækjartorgi drepur sviðasultuna ekki frekar en hamborgarinn.
Þetta er nú bara almenn skynsemi er það ekki? en ponkulitli rasistinn innra með okkur hefur svar á reiðum höndum;
-Jújú, við verðum náttúrulega fyrir áhrifum annarsstaðar frá en það er annað að fá fólk inn í samfélagið en að hlusta á tónlist eða spila tölvuleiki. Vandamálið er að þetta fólk vill bara ekkert aðlagast vestrænu samfélagi svo það verða stöðug átök þessvegna.
Síðan koma sögur af einhverjum Tyrkjakerlingum sem eftir 20 ára búsetu í Danmörku fara varla út úr húsi og eru enn að fylgjast með tyrknesku sjónvarpsefni, muslimi sem vilja ekki að dætur þeirra stundi sundlaugarnar eða kínverskum innflytjendum sem fást ekki til að kalla bandarískan kærasta dóttur sinnar gælunafni. (Já og öll þessi sæmdarmorð, það er náttúrulega það sem menn óttast. Íslensk menning er í stórhættu vegna þess að muslimir munu ala yngri kynslóðina upp í þeirri trú að sæmdarmorð séu góð hugmynd? Drepið mig ekki með ruglinu. Ég mun skrifa meira um sæmdarmorðamýtuna síðar.)
Ég játa. Ég hef búið í Danmörku í rúm tvö ár. Menningin er nánast sú sama og á Íslandi og ég flutti þangað af sjálfsdáðum. Engu að síður hef ég fylgst mun meira með íslenskum fréttum en dönskum á þessum tíma. Ég hélt áramótin hátíðleg með fjölskyldu systur minnar og við borðuðum ekki grænkálsjafning og við horfðum ekki á áramótaávarp drottningarinnar heldur héldum við íslensk áramót. Ég finn enga þörf fyrir að borða rúgbrauð með spægipylsu daglega og ég mun aldrei skreyta heimili mitt með pappaflöggum á afmælinu mínu. Og hvað með það? Hverjum kemur það við? Er ég að skaða Dani eða danska menningu með því að vera Íslendingur í Danmörku?
Sannleikurinn er sá að margir innflytjendur hafa ekki flust til nýja landsins af einskærum áhuga, heldur vegna erfiðleika í heimalandinu. Margir koma hálfnauðugir og konur frá íhaldssamari menningarsvæðum hafa stundum ekkert verið spurðar álits á þeirri ákvörðun. Jafnvel fólk sem flytur af áhuga hefur þörf fyrir að halda í sínar venjur og tungumál og það er hvorki raunhæft né sanngjarnt að ætlast til þess að Pólverji hætti að vera pólskur við það að flytja til Norðurlanda.
Það er auðvitað hægt að gera ákveðnar kröfur til innflytjenda en við getum vel boðið fólk velkomið þótt við höfnum sharía lögunum og öðrum venjum sem brjóta í bága við siðferðishugmyndir okkar. Þær kröfur sem við getum gert til innflytjenda og ættum að gera, er að þeir virði lög nýja landsins (að svo miklu leyti sem þau standast mannréttindi en sú er ekki alltaf raunin) og taki tillit til þeirra menningarþátta sem snerta heimamenn beint. Að öðru leyti ættum við að leggja áherslu á menningarblöndun, fremur en aðlögun innflytjenda. Það er hægt að ætlast til þess af Indverjum að þeir stilli sig um að prútta í íslenskum verslunum (þar sem það snertir okkur beint) en okkur kemur yfirleitt ekkert meira við hvernig þeir haga lífi sínu en það hvort hún Sigga í næsta húsi þvær gardínurnar fyrir jólin eður ei. Við getum hinsvegar gert sambúðina ánægjulegri með því að líta á það sem skemmtilega viðbót við menningarlífið þegar þeir opna matsölustað eða bjóða upp á námskeið í magadansi.
Jú, það væri nú kannski alveg hægt að búa í sátt við nágranna sína þótt þeir hafi sérviskulegan smekk og fínt að fá fleiri veitingastaði en ponkuliti rasistinn er enn ekki viss og slær nú út næsta trompi:
-Sko flestir þeirra vilja ekki einu sinni læra tungumálið og það er ekkert hægt að bjóða sjúklingum og gamalmennum upp á það að enginn sem sinnir þeim tali íslensku.
E-hemmm… Það er einfaldlega ekki rétt að innflytjendur vilji ekki læra tungumálið. Í flestum Evrópuríkjum og í Ameríku er málleysi ein helsta ástæða þess að innflytjendur fá ekki vinnu í samræmi við menntun sína svo það er mikið hagsmunamál fyrir þá að læra málið. Meira en 75% innflytjenda í Bandaríkjunum tala góða ensku eftir 10 ára dvöl í landinu (nánari upplýsingar hér og hér) þrátt fyrir að á mörgum stöðum séu kynþáttaátök stórt vandamál og eftirspurn eftir enskunámi eykst stöðugt. Ég hef ekki tölur um íslenskukunnáttu en ég þekki þó nokkur dæmi um að fólk sem kom til landsins með enskukunnáttu sem nægði ekki einu sinni til að bjarga sér í búðum, hafi á fáum árum lært góða ensku en sáralitla íslensku. Ástæðan er ekki sú að útlendingar vilji ekki læra íslensku, heldur sú að Íslendingar telja víst að enska sé á einhvern hátt eðlilegra mál en íslenskan og grípa strax til ensku þegar þeir tala við útlendinga, jafnvel þegar viðkomandi útlendingur kann ekki ensku.
Til þess að útlendingar læri íslensku þarf tvennt að gerast:
-Það þarf að bjóða þeim upp á íslenskunámskeið sér að kostnaðarlausu um leið og þeir koma til landins, en ekki eftir að þeir eru búnir að eyða mörgum mánuðum í að læra ensku. Auk þess þurfa námskeiðin að standa til boða á þeim tíma dags að fólk geti sótt þau.
-Íslendingar þurfa að nenna að leggja það á sig að tala íslensku við fólk sem er rétt að byrja að læra hana í stað þess að grípa alltaf til enskunnar.
Auk þess þurfum við að tileinka okkur þann hugsunarhátt að tilgangurinn með því að kenna útlendingum íslensku sé sá að auðvelda samskipti en ekki að gera útlendinginn þóknanlegri. Þetta á reyndar ekki aðeins við um tungumálið heldur einnig önnur önnur svið menningarinnar. Við ættum að kenna útlendingum íslenskar venjur með því hugarfari að auðvelda samskipti en ekki því að við séum að kenna þeim að hegða sér „rétt“. Við þurfum að hætta að tala um að útlendingar eigi að „aðlagast“ en skiptast frekar á hugmyndum um það hvernig hægt sé að auðvelda menningarblöndun. Já og fyrir alla muni gætum þess að bjóða innflytjendum til umræðunnar, tölum við þau en ekki um þau.
Nema náttúrlega ef við viljum endilega stríð. Þá skulum við reka aðskilnaðarstefnu og halda áfram að reyna að ala útlendinga upp gegn vilja sínum.
——————————–
þrælgóð grein og útpæld, og góðir punktar um þessa útbreiddu enskunotkun Íslendinga við útlendinga – sosum eðlilegt í byrjun þegar útlendingur er vita mállaus, en djísus þetta gengur svo langt að einn vinur minn frá BNA, sem hefur búið hér í áratugi og er fyrir löngu orðinn íslenskur – hann þurfti að biðja fólk sérstaklega að tala við sig á íslensku, því hann vildi læra hana og taldi sig þurfa þess
Posted by: Halldór Carlsson | 9.08.2011 | 14:33:28
——————————–
Myndarleg grein og gott framtak.
Ég hef dálítið velt þessum málum fyrir mér og verð að viðurkenna að ég hef gælt við hugmyndir sem þú myndir líklega kalla aðskilnaðarstefnu. Þá á ég við hugmyndir um að þvínga t.d. múslímska innflytjendur til að láta af ýmsum viðhorfum sínum til kvenna – sem er nokkuð augljóslega illmögulegt, svo ég veit ekki hvað það á að fyrirstilla hjá mér.
Ég bjó um skeið í Danmörku og varð vitni að nokkrum atburðum sem mér þóttu alveg ömurlegir á ýmsa vegu. T.d. var það vandamál í Kaupmannahöfn að hópar múslímskra innflytjenda gengu um á pöbbum og áreittu danskar stelpur mjög hranalega. Þær urðu hreinlega að leita sér verndar hjá dönskum strákum, eða flýja og afleiðingin var sú að hörundsdökkir karlmenn fengu ekki að fara inn á marga skemmtistaði – dyraverðirnir voru þá að reyna að tryggja góða stemningu fyrir dönsku krakkana.
Ég kynntist nokkrum Írönum sem litu á Danskar konur sem leikföng, en litu á konur að heiman sem heiðvirðar konur sem hægt væri að giftast. Mér þótti virðingarleysi þeirra við konur á næturlífinu hljóta að tengjast þessum sjónarmiðum.
Það gýs upp í mér xenophobia þegar ég hugsa til þessara hluta, en skynsemisraddir eins og þín minna mig á að skoða málið betur. Eflaust er um keðjuverkandi þætti að ræða. Ungu múslímarnir vita kannski að þeir verða þvingaðir til að giftast konum að heiman (ég varð vitni að því) og til að bera sjálfir virðingu fyrir þeim ráðahag fara þeir kannski ómeðvitað að sannfæra sjálfa sig um að það sé þeim fyrir bestu, það séu „betri“ konur. Eitthvað fleira í þessum dúr setur hegðun þeirra eflaust í samhengi.
Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir svona menningarárekstra, annað en að gera ekkert og vona að menningarblöndun 3-4 kynslóða leysi vandann? Líklega er ekkert hægt að gera sem ekki um leið stuðlar að aðskilnaði og andúð – annað en að vera botnlaust jákvæð/ur.
Mér þykir sem einhver svona umræða þurfi að vera möguleg, en hún endar venjulega með því að öfgafólk í báðar áttir bulllar allt út af sporinu.
Hvað sem því líður er gaman að fylgjast með þér stinga upp í þjóðernissinnana og ég hlakka til að lesa meira í ritröðinni um innflytjendamýturnar.
mbk,
Posted by: Kristinn | 9.08.2011 | 14:55:31
——————————–
Stór hluti persa og araba hefur alist upp við þá hugmynd að vestrænar konur séu upp til hópa ýlfrandi af girnd og hafi enga sérstaka skoðun á því hvaða menn hjakkist á þeim (það er semsagt eitthvað annað en klámvæðingin sem veldur kvenfyrirlitningu.) Ég hef reyndar fulla trú á að þessar hugmyndir breytist með 2-3 kynslóðum en það er engin ástæða til að umbera kynferðislega áreitni og full ástæða til að flýta viðhorfsbreytingunni eins og mögulegt er.
Ég hef enga trú á að sé hægt að þvinga fram viðhorfsbreytingu en ég trúi á upplýsingu. Það tók ekki mörg ár að sannfæra Íslendinga um að það væri sjúkt og rangt að berja börn, viðhorf til reykinga breyttust á örfáum árum og þótt dómskerfið taki seint við sér er þorri almennings kominn á þá skoðun að dræsulegur klæðaburður konu gefi engum leyfi til að taka hana með valdi. Ég hef nú þá trú að fólk af öðrum kynþáttum sé alveg jafn réttsýnt og rökhyggið og við. Það skiptir áreiðanlega miklu máli hvernig áróður er settur fram og ég er sannfærð um að menningarblöndum flýtir fyrir viðhorfsbreytingu í þessum efnum.
Posted by: Eva | 9.08.2011 | 18:47:07
——————————–
Já, ég hefði náttúrulega ekki átt að tala um þá sem múslíma, heldur t.d. sem araba og persa.
Mér sýnist málið snúast að stórum hluta um jarðveginn hér heima. Ef fólk ætlar að taka við innflytjendum með ólund og tortryggni verður blöndunin hæg og erfið. Annars vonandi hressari og fljótari – svo það liggur mikið við að greinaröð þín sannnfæri landann um að gefa þjóðernishyggjuna upp á bátinn 🙂
Varðandi drusluklæðnaðinn, þá á ég í mestu vandræðum með að finna einhver innlend samtíma dómsmál eða fréttir þar sem druslulegur klæðnaður kemur við sögu við mat á sekt nauðgara. Áttu hlekki á eitthvað slíkt upp í ermina?
Annars ætla ég ekki aðfvegaleiða umræðuna hér. Innflytendamál eru til umræðu.
mbk,
Posted by: Kristinn | 9.08.2011 | 21:01:04
——————————–
Leiðrétting þarna í restina:
..að afvegaleiða..innflytjendamál..
Posted by: Anonymous | 9.08.2011 | 21:02:55
——————————–
Stórkostleg grein sem þú bara verður að fá þýdda yfir á ensku. Ef afgangurinn verður jafn góður þá verður þú að gefa þetta út í bók.
En varðandi spurningu Kristins. Þetta fellur undir lið Evu um að fylgja lögum landsins. Hér er jafnrétti og kynferðislega áreitni er bönnuð. Ef fólk er ósátt við þessa hegðun þá ber að gagnrýna hana, sama hvaða kynþáttur á í hlut. Staðreyndin er nefnilega sú að konur frá Asíu lenda fyrir álíka miklum fordómum af höndum hvítra, sem líta á þær sem hórur og halda að þeir geti fengið þær til að gera hvað sem er, svo lengi sem þeir borgi vel fyrir. Og það er líka til helling af hvítum mönnum sem líta niður á konur, sama hvaða kyn um er að ræða. Og svo er til helling af hörundsdökkum karlmönnum sem koma ekki svona fram við vestrænar konur og við skulum gæta þess að gera þá ekki seka fyrir syndir annarra.
Við eigum alls ekki að afsaka svona hegðun, alls ekki. Mér er alveg sama hvort fólk sé þvingað í sambönd eða ekki. Það afsakar ekki neitt. Gagnrýnum gjörðirnar en gerum þær ekki að kynþáttavanda, enda eru þær það ekki.
Posted by: Þorkell | 9.08.2011 | 21:17:19
——————————–
Rannsóknir benda til þess að klæðaburður hafi nákvæmlega engin áhrif á líkurnar á því að konu sé nauðgað (Þórunn Elva fjallar t.d. um þetta í bók sinni „Á mannamáli“) en engu að síður er klæðnaður, drykkja og drusluleg hegðun oft notuð sem réttlæting.
Ég efast um að múslimir naugði frekar léttklæddum konum en þeim sem klæddar eru að þeirra þjóða sið en þeir eru kannski líklegri til að áreita vestrænar konur. Það er samt ekki bara klæðaburðurinn sem ræður því. Þegar ég var í Palestínu urðum við systurnar fyrir hroðalegri áreitni, jafnvel þótt við værum í víðum fatnaði með síðum ermum. Okkur var svo ráðlagt að horfast ekki í augu við karlmenn og brosa ekki til þeirra og þá hætti þetta bara. Þeirra menning virðist líta á beint augntillit og bros sem daður, og sú túlkun, auk hórufordómanna, ýtir sjálfsagt undir líkurnar á því að þeir reyni.
Svo held ég að þessi ógeðfellda ágengni sem sumir þeirra (einkum ungir strákar) sýna, standi að einhverju leyti í sambandi við skírlífið og takmarkanir á samskiptum kynjanna. Þeir kunna hreinlega ekki þær viðreynsluaðferðir sem okkar samfélag viðurkennir.
Spurning hvort þarf ekki að taka daður inn í menningarkennslu, rétt eins og það hvernig á að nota vestrænt klósett og hvernig á að losa sig sig við sorp (semsagt ekki að kveikja í því.) Ég held að sé árangursríkara að taka á þessari hegðun með því að nálgast hana sem kunnáttuleysi og klaufaskap fremur en frumstætt eðli kvenhatarans.
Posted by: Eva | 10.08.2011 | 9:57:28
——————————–
Þorkell – jú, vitaskuld fellur þetta undir lög landins. Það breytir því ekki að það getur orðið snúið að framfylgja þeim hvað svona hluti snertir. En vonum það besta.
Eva – Þetta eru góðar pælingar. Samskipti kynjanna eru að mér skilst ansi mikið öðruvísi í heimalöndum araba og persa, svo það getur skýrt margt. Vonandi tekst eins og þú talar um að koma á fót skóla í þeim efnum sem nær árangri – einhverjir Íslendingar hefðu eflaust gott af því að sækja þann skóla líka 😉
Posted by: Kristinn | 10.08.2011 | 12:54:50
——————————–
Eitt sinn þegar góður íraskur vinur minn var að útskýra fyrir mér hversu viðsjálverðar konur væru og ég var fullur efasemda sagði hann: Þetta sannaðist allt í aldingarðinum Eden, þegar Eva kom með eplið osf.
Þá fyrst varð mér orðvant.
Posted by: Siggi Þórðar | 10.08.2011 | 15:57:16
——————————–
Eitt af því sem mig rak í rogastans yfir var hversu algengt var að konur væru gerðar út til kynlífs eða réttara sagt hnepptar í hórdóm. En ég var ekki minna hissa þegar ég heyrði að þær væru aldrei muslimar heldur kristnar eða gyðingar. Löngu seinna las ég að fjölgyðistrúarfólk nyti minni virðingar sbr. vinnukonur frá Indlandi og Tælandi.
Posted by: Siggi Þórðar | 10.08.2011 | 16:18:04
——————————–
Þann tíma sem ég var í Danmörku þá tók ég eftir því að almennt eru Danir mjög meðvitaðir um hvað þeir segja. Það að ráða einhver með dökkan húðlit og sérstaklega einhvern sem hét Ahmed eða eitthvað slíkt, það var allt annað. Atvinnuleysi meðal vissra hópa innflytjenda er svoleiðis margfalt hærra en meðal „hvítra“ dana. Það er bara staðreynd svo maður fer að velta fyrir sér hve vel þessi fjölmenningarstefna hefur gengið. Þetta virðist vera meira svona Gettóvæðing en raunveruleg samsuða mismunandi menningarþátta.
Posted by: GVV | 11.08.2011 | 16:39:20
——————————–
Siggi, þótt kreddukenndar hugmyndir séu algengar meðal Írana, þýðir það ekki að þær kreddur sé ekki hægt að uppræta. Ef út í það er farið eru ennþá til Íslendingar sem trúa því að ef ólétt kona drekkur úr kaffibolla með skarði verði barnið holgóma. Flestir trúa þessu þó ekki, það er vegna þess að við erum búin að heyra rök fyrir því að þetta standist ekki nógu oft.
Hvaða lönd ertu að tala um þegar þú talar um kynlífsþrælkun á kristnum konum og gyðingum? (Ég er ekki að rengja þig, vantar bara upplýsingar)
Posted by: Eva | 12.08.2011 | 10:31:45
——————————–
Guðjón Viðar, það er einmitt þetta sem ég á við. Það er engin fjölmenningarstefna fólgin í því að taka við fólki og henda því svo út í horn. Menningarblöndun er nauðsynleg.
Posted by: Eva | 12.08.2011 | 10:33:25
——————————–
Frábær grein. Takk.
Posted by: Ingibjörg Stefáns | 12.08.2011 | 12:59:07
——————————–
Allir segja að það er til þetta KYNÞÁTTA vandamál. Allir segja að þetta KYNÞÁTTA vandamál leysist þegar þriðji heimurinn flæðir inn í ÖLL hvít lönd og AÐEINS inn í hvít lönd.
Holland og Belgía eru orðin álíka þéttbýl og Japan eða Suður Kórea, en enginn segir að Japan eða Suður Kórea munu leysa þetta KYNÞÁTTA vandamál með því að flytja inn milljónir af þriðja heims búum og (tilvitnun) samlagast(tilvitnun lokið) með þeim.
Allir segja að hin endanlega lausn á þessu KYNÞÁTTA vandamáli er þegar ÖLL hvít lönd og AÐEINS hvít lönd munu „samlagast,“ þ.e.a.s. giftast, öllum þessum and-hvítu.
Hvað ef ég segði að það væri til þetta KYNÞÁTTA vandamál og að þetta KYNÞÁTTA vandamál væri aðeins hægt að leysa ef hundruð milljóna af öðru en svörtu fólki væri flutt inn í ÖLL svört lönd og AÐEINS svört lönd?
Hversu lengi mun það taka alla að skilja það að ég er ekki að tala um KYNÞÁTTA vandamál. Heldur, að ég væri að tala um endalega lausn á SVARTA vandamálinu?
Og hversu fljótt myndu allir andlega heilbrigðir svartir menn taka eftir þessu og hvers konar svartur brjálæðingur myndi ekki mótmæla þessu?
En ef ég segi þann augljósa sannleika um yfirstandandi áætlun um þjóðarmorð á mínum kynþætti, hvíta kynþættinum, þá eru Umburðarlyndir og sómakærir íhaldsmenn sammála um að ég sé nasistisemvilldrepasexmilljónirjúða.
Þau segja að þau séu and-rasistar. Þau eru í raun and-hvít.
And-rasisti er dulorð um and-hvíta.
Fjölmenningarstefnan er dulorð um Hvíta útrýmingu.
Posted by: Skúli Jakobsson | 15.08.2011 | 22:06:38
——————————–
Já Skúli, þú ert einmitt nasisti og rasisti en auk þess illa upplýstur. Lestu pistlana og svaraðu þeim rökum sem þar eru sett fram ef þig langar að tjá þig hér en hlífðu okkur við þessari copy-paste útgáfu af þjóðarmorðskenningunni.
Posted by: Eva | 15.08.2011 | 23:41:32