Hvernig er staðið að aflífun villikatta?

kisiÍ dag hefur Fréttablaðið það eftir kattabana nokkrum að hann hafi skotið 25 villiketti á tiltekinni einkalóð á Ísafirði og að í einu tilfelli hafi skot farið í gegnum kjallarahurð. Ég efast ekki um að villikettir eru ýmsum til ama en er þetta ekki dálítið gróft? Ég veit allavega að ég yrði ekki róleg ef ég vissi til þess að kattaskytta eða hvaða skytta sem er, héldi löngum stundum til við lóðamörkin hjá mér, gagngert í þeim tilgangi að dúndra riffilskotum inn á mína einkalóð. Ég er hrædd um að börnin mín yrðu algerlega undanþegin því að fara út með ruslið eða sækja þvottinn út á snúrur ef ég byggi við slíkt ástand. Mér finnst satt að segja dálítið furðulegt að hægt sé að banna umferð um einkalóðir en ekki skothríð.

Reyndar hélt ég að skothríð innan þéttbýlis væri einfaldlega bönnnuð með öllu, nema sérsveit lögreglunnar telji það óhjákvæmilegt með tilliti til almenningheilla að grípa til vopna. Ég hélt að villikettir væru handsamaðir og þeir svo aflífaðir á stöðum sem til þess eru ætlaðir en ekki inni í íbúðahverfum. Var það bara misskilngur hjá mér? Getur maður í alvöru átt það á hættu að mæta meindýraeyði á kattaskytteríi ef maður bregður sér í kvöldgöngu um hverfið?

 

 

One thought on “Hvernig er staðið að aflífun villikatta?

  1. sigga @ 21/09 02.14

    Ef kattabaninn má skjóta ketti inni á einkalóð en ekki ganga um hana, hver hirðir þá hræið?

    Þetta hljómar hættulegt, ekki aðeins geta börn orðið fyrir skoti, þau eiga kannski á hættu að finna dauðan kött í garðinum sínum (kannski sinn eiginn) hvað með sýkingarhættu af slíku hræi. Bera villikettir ekki með sér sjúkdóma eins og rotturnar?

    Ekki get ég greint heimiliskött frá villiketti í margra metra fjarlægð. Ég hélt að kettir væru veiddir í búr en aðeins aflífaðir ef enginn vitjaði kattarins innan ákveðins tíma.

    Væri ekki skynsamlegra að hvetja fólk til að gelda ketti og þannig takmarka offjölgun. Ef greitt væri leyfisgjald fyrir kattahald væri kannski hægt að niðurgreiða geldingu katta.

    ——————–

    Þorkell @ 21/09 08.29

    Mig grunar að þetta sé einsdæmi á Ísafirði, og ekki í samræmi við lögin. Það getur margt gerst á minni stöðum.

    ———————

    eva @ 22/09 07.21

    Í gær hitti ég mann sem hefur starfað sem lögregluþjónn og spurði hann út í þetta. Hann sagði mér að kettir væru skotnir innanbæjar og að meindýraeyðar hefðu leyfi til að skjóta þá innan þéttbýlis og nota hljóðdeyfi á byssuna. Mér finnst þetta ekki alveg í lagi.

Lokað er á athugasemdir.