Hvenær særir maður mann?

-Ætlaðir þú ekki að vera í Osló klukkan eitt? spyr ég.
-Ég var þar klukkan eitt í nótt. Lagði mig í tvo tíma og hélt svo áfram
-Ertu bilaður maður? Hvað er þetta eiginlega langur akstur?
-1000 mílur, svarar Bjartur, og Noregur er ekkert nema fjallvegir og krókar, víðast hvar 50 km hámarkshraði.
-Þú hefðir ekki átt að aka þetta að nóttu til. Hversvegna lá þér svona á?
-Ég sef ekki undir stýri. Lagði mig tvisvar á leiðinni. Ég hefði kannski átt að taka lengri tíma í ferðina en ég vildi sjá þig sem fyrst.

Við ökum heim. Ég hef stöðugar áhyggjur af að hann sofni en hann segist vera eiturhress og afþakkar boð mitt um að taka við akstrinum. Það fékk einkennilega mikið á mig að hitta hann aftur en ég kemst niður á jörðina aftur við að hitta kisurnar mínar og fjölskylduna. Hann virðist líka alveg vera í jafnvægi þótt hann hafi komist að þeirri bjánalegu niðurstöðu að hann sé ástfanginn af mér, eftir að hann fór til Noregs. Hann er allavega ekkert að æsa sig yfir því að ég hafi boðið öðrum manni heim aðeins tveimur vikum eftir að hann fór. Hann æpir ekki, grætur ekki, og hótar ekki að skera sig á háls eða neitt svoleiðis. Hann er sennilega búinn að sætta sig við þá staðreynd að við viljum ekki samskonar framtíð. Þetta verður áreiðanlega allt í lagi og ég svara ’jú það er fínt’ þegar sá fjaðurmagnaði sendir mér sms og spyr hvort það henti mér að hann panti far út á tilteknum degi. Ég gat ekki afpantað flugið sem hann borgaði undir mig frá Kaupmannahöfn til Sønderborgar, löngu áður en ég vissi að Bjartur yrði á ferðinni um svipað leyti og ég er með samviskubit yfir því hvað hann er búinn að eyða miklum peningum í ferðalög bara til að kynnast mér almennilega.

-Þú værir náttúrulega ekki að velta kostnaðinum fyrir þér ef þú værir viss um að þú vildir búa með honum, segir Birtan í mér.
-Ég er kannski ekki alveg viss, enda sagði ég honum það líka en ég er næstum viss. Ég ætla sjálfri mér betra hlutskipti en að bíða eftir einhverjum manni sem veit ekkert hvað hann vill og fyrir nokkrum vikum vildi hann eignast börn og verða bóndi. Það er ekki sérlega trúverðugt að hann hafi skipt um skoðun á því á einni nóttu, svara ég.
Ég hugsa með hryllingi til þess að vera bundin yfir hrossum á Stokkseyri af öllum eymdarinnar plássum. Hvílík gæfa að hafa kynnst manni sem myndi aldrei láta sér detta slíkt í hug.

Og samt, og samt langar mig að snerta Bjart, grafa andlitið í hálsakot hans, strjúka á honum hnakkann, kyssa hann, kyssa hann meira. Hann er ekki einu sinni að horfa á mig heldur að klappa köttunum. Hann hefur reyndar ekki gert neitt til að kveikja í mér, þetta er algerlega sjálfsprottin þrá, frumstæð og smekklaus. Langar að kyssa… Ojæja, maður fær víst ekki allt… Ég vík mér ekki undan þegar hann tekur í höndina á mér og biður mig að koma með sér út að ganga því hann þurfi að ræða við mig undir fjögur. Það er ekki eftir neinu að bíða og ég er búin að æfa það sem ég ætla að segja:
-Láttu ekki eins og kjáni Bjartur minn. Þú hafðir ekki meiri áhuga á mér en svo að þú fluttir úr landi án þess að spyrja mig álits og ef ég hefði áhuga á langtíma sambandi hefði ég reynt eitthvað áhrifaríkara til að telja þér hughvarf en að benda þér á verðlagið á tóbaki í Noregi.

Reyndar er hann hættur að reykja svo líklega hefði þurft eitthvað merkilegra en lægra tóbaksverð til að halda honum í Fjallleysulandi en það er allavega nokkuð ljóst að hann hefur meiri þörf fyrir nálægð við fjöll og fossa en nærveru mína. Ekki finn ég heldur fyrir minnstu löngun til að setjast að í einhverjum norskum hundsrassi og búa með foreldrum hans. Þá er nú skárra að búa í dönskum hundsrassi þar sem systir mín er í næsta nágrenni og verðlagið á súkkulaði hóflegt. Helvíti er það annars kaldhæðnislegt að þegar almennilegir karlmenn sýna mér loksins áhuga sem nær út fyrir svefnherbergið séu það tveir í einu sem gefa sig fram. Ég hata tilhugsunina um að þurfa að særa einhvern en ég reikna ekki með að þeir vilji búa saman svo það er best að ljúka því af.
-Já, við skulum rölta aðeins, svara ég og æfi nýja rullu í huganum.