Hvar er kreppan?

Verðlag hefur ekki lækkað í Kringlunni. Samt eru nánast öll bílastæði full. Úrvalið hefur heldur ekki minnkað, þessar verslanir eru ekki að losa sig við gamla lagera sem ganga ekki út. Hvar er kreppan?

Það gefur auga leið að þegar laun lækka og skattar hækka, hlýtur fólk að hafa minna ráðstöfunarfé. Hvar er fólk að spara ef ekki í draslkaupum? Er það hætt að fara til tannlæknis? Hættir það að fara með bílinn í smurningu? Er það búið að segja upp tryggingunum?

Ég hef engar áhyggjur af því að Íslendingar muni svelta (reyndar finnst mér jaðra við að þjóð sem lætur endalaust sparka í sig án þess að spyrna á móti eigi það bara skilið en það er önnur saga). Það er vel hægt að framleiða allan þann mat sem þjóðin þarf á að halda og meira til án þess að flytja mikið inn og reyndar ætti þjóð sem á aðrar eins auðlindir ekki að þurfa að líða skort á neinu sviði. En einhversstaðar dregur saman og ef það er rétt að fyrirhugaðar skattahækkanir merki 50-60 þúsund króna aukaútgjöld í hverjum mánuði fyrir meðal fjölskyldu, þá er viðbúið að einhverjir þurfi að neita sér um brýnni nauðsynjar en ánægjuna af því að tæta út úr búðunum.

Sjálfsagt reyna stjórnvöld að leggja meirihlutann af þessari auknu skattbyrði á breiðu bökin og það er bara rökrétt. En ég velti því fyrir mér hversu mikla kjaraskerðingu hátekjufólk muni sætta sig við. Er ekki líka rökrétt fyrir það fólk að koma sér bara úr landi? Ekki svo að skilja að rökvísi sé áberandi eiginleiki hjá þjóðarsálinni.

Ráðgáta dagsins er þessi; hvar er kreppan? Mig langar að fá viðbrögð frá lesendum. Hvernig hefur ykkar neyslumynstur breytst? Er erfitt að ná endum saman eða er þetta krepputal bara væl? Höfum við kannski bara alveg efni á því að borga hundruð milljarða fyrir fyllirí útrásarinnar?

 

One thought on “Hvar er kreppan?

  1. ——————————————

    Ég kaupi mér ekki ný föt og finnst sjálfsagt að ganga í eldgömlum fötum. Ég fer ekki lengur á snyrtistofur og læt flikka upp á miðaldra andlitið. Allt aukadót er í burtu; lúxús, leikhús, bíó.

    Ég gef barnabörnum gjafir í samráði við foreldrana en ekki að eigin vali eins og áður. Ég reyni að styrkja þau með þessu. Ég get haldið endalaust áfram. Matur er keyptur á afslætti og settur í frystikistu meira en áður.
    En það vantar konur sem leiða mótmæli. Konur eins og þig sem þora að rífa kjaft. Hér er allt í hers höndum en það er ekki sjáanlegt. Eru Íslendingar svo miklir aumingjar að þeir láta kúga sig endalaust og kyssa bara á vöndinn?

    Posted by: Margrét | 3.10.2009 | 11:44:48

     ——————————————

    Ég er þér ósammála Margrét. Það vantar ekki fólk sem leiðir mótmæli (og reyndar er meint leiðtogahlutverk mitt hrein og klár goðsögn.) Leiðtogar eru stórhættulegir og vandfundin sú manneskja sem hefur einhverskonar völd yfir öðru fólki án þess að misnota aðstöðu sína fyrr eða síðar. Það sem vantar er almenn meðvitund um að allt fólk geti gripið til einhverskonar aðgerða sjálft án þess að vera togað eða leitt.

    Posted by: Eva | 3.10.2009 | 11:58:49

     ——————————————

    Það hafa alltaf verið til Íslendingar sem hafa varla ofan í sig og þeim mun fjölga á næsta ári. Hjálparstofnanir sjá kannski til að fólk svelti ekki beinlínis en það er engin hjálparstofnun fær um að útvega fólki nýja sjálfsvirðingu þegar það er búið að missa allt.

    Posted by: Ragna | 3.10.2009 | 14:06:22

     ——————————————

    Mitt mynstur hefur ekki breyst mikið, jú við hugsum meira um að spara í matarinnkaupum og kaupum ekki eins dýr vín. Hins vegar höfum við aldrei verið með innkaupaæði og Kringlur landsins þoli ég ómögulega.

    Krakkarnir fá ennþá að vera í tónlistarskólum og öðrum áhugamálum sínum, ég hugsa það verði það sem við skerum síðast.

    En við erum líka bæði með vinnu og (nánast) óskert kaup.

    Posted by: hildigunnur | 3.10.2009 | 22:23:19

     ——————————————

    Þetta með verslunina og áframhaldandi kaup….er bara afneitun.

    Fyrstu og mest áþreifanlegu áhrifin var hrun krónunnar.

    Þegar +10% atvinnuleysi fer að loða við í meira en hálft ár fara einhverjir að taka kipp.

    Félagslegu áhrifin koma fyrst í ljós eftir 5-10 ár.

    Posted by: on | 4.10.2009 | 7:17:03

Lokað er á athugasemdir.