Hvað kostar karfan?

Ég er komin til Glasgow eftir 9 vikna dvöl á Íslandi.  Eins og ég sagði hér trúi ég því ekki að óreyndu að verðlag á matvöru sé sérstaklega lágt á Íslandi. Ég ákvað því að gera smá könnun.

Ef verðlagskönnun ætti að vera áreiðanleg þyrftu fleiri heimili með fjölbreytilegri innkaupakörfur að taka þátt. Einnig þyrfti að skoða verðlag á báðum stöðum í einu því verð á sumum vörum getur auðvitað verið árstíðabundið.  Ég get því ekki fullyrt neitt um almennan verðmun en markmiðið er að gera mér grein fyrir því hvort er hagstæðara að reka heimili með mínu neyslumynstri á Íslandi eða í Skotlandi. Og kannski eru einhverjir í hópi lesenda sem kaupa samskonar vörur og við.

Ég geymdi alla kassastrimla í sumar og reiknaði út meðalverðið á þeim vörum sem við keyptum. Sumt keyptum við bara einu sinni eða tvisvar svo þar getur vel verið stór skekkja en aðrar vörur keyptum við daglega. Við keyptum oftast sambærilegar vörur við þær sem við kaupum hér í Skotlandi. Við erum búin að versla einu sinni síðan við komum heim og svona lítur sú innkaupakarfa út:

karfan1

Það kom mér á óvart hvað sítrónur og læm eru miklu ódýrari á Íslandi en í Skotlandi. Við keyptum þessa ávexti oft í sumar og á mörgum stöðum svo það hefur ekki bara verið einstök heppni.

Vörumerkin eru ekki þau sömu en þetta eru að mestu leyti sambærilegar vörur. Við kaupum að vísu jógúrt hér en á Íslandi keyptum við abmjólk og súrmjólk. Ég sá jógúrt á 360 kr lítrann á á Íslandi en það getur vel hafa verið óvenju hátt eða lágt verð. Við keyptum nokkrar tegundir af íslenskum brauðostum í sumar og einnig cheddarost þann sama og við kaupum venjulega hér.

Gulræturnar voru á tilboði í dag.  „Venjulegt“ verð er 188 kr/kg en þær eru mjög oft á tilboði. Ég borða kynstrin öll af gulrótum og fæ þær oftast á tæpar 150 kr. Beikon keypti ég ekki á Íslandi en reiknaði verðið samkvæmt þessari síðu.

Ég veit ekki hvað egg frá stóru búunum kosta á Íslandi og játa hér með syndir mínar; þessi ódýru sem við keyptum núna eru ill verksmiðjuegg úr óhamingjusömum hænum. Pekanflétturnar voru á tilboði. Venjulega eru þær bara tvær á þessu verði en það er alltaf eitthvert bakkelsi hjá Morrisons á svipuðu verði, þ.e. þrjú stykki á bilinu 188-210 kr. Ég er ekki með verðið á pekanfléttum á Íslandi á hreinu en algengt verð á sætabrauði er 300-400 kr á stykkið eða þrefalt hærra en hér. Ég fannþetta tilboð á netinuog tel vel sloppið að borga 205 kr fyrir þrjú stykki þegar eitt stykki á Íslandi er á 200 kall. En kannski eru einhver bakarí sem bjóða betur.

Innkaupakarfan okkar var 1174 krónum ódýrari hjá Morrisons en á Íslandi í dag ef við reiknum ekki með þeim vörum sem ég hef ekki verðið á. Ég ætla ekki að draga of miklar ályktanir af þessum eina degi. Síðar munum við kaupa kjöt, mjöl, hreinlætisvörur og annað sem vantaði ekki í þetta sinn og þá ætla ég að bera verðið á þeim vörum saman líka.

Þess má geta að grænmeti er alltaf ferskt í þeim búðum sem við verslum við í Glasgow og íslenskir ostar eru töluvert lakari að gæðum en þeir bresku.