Hvað heldurðu eiginlega að þú sért?

ugla

Jafnrétti í lagalegum skilningi -jú ég held að í okkar heimshluta sé því náð. Og þótt halli sumsstaðar á konur þá hallar bara líka á karla.

En það er samt þessi tilfinning. Kannski er það að einhverju leyti paranoja en hún er þarna samt, einhversstaðar í bakgrunninum. Eins og stöðugt læðist upp að manni einhver grunur um að þeir telji sig merkilegri, á einhvern hátt yfir okkur hafna. Að þeir séu einhvernveginn óhóflega öruggir um stöðu sína -og okkar. Allavega stöðu sína gagnvart okkur.

Það er auðvelt að skilgreina feminisma þegar maður horfir á stöðu kvenna í þriðja heiminum. Maður þarf ekkert að velta því fyrir sér hvort barnahjónabönd séu réttlætanleg. Hvort sé í lagi að skera kynfærin af stúlkubörnum með skítugu glerbroti. Hvort sé í lagi að eyða meyfóstrum af því að samfélagið álítur drengi merkilegri en telpur.

En í okkar heimshluta er kvennakúgun ólögleg og þykir heldur ekki við hæfi þar sem lögin duga ekki til. Ég hef aldrei kynnst manneskju sem segist ekki vera jafnréttissinnuð, það er bara blæbrigðamunur á því hvernig fólk skilgreinir jafnrétti. Langflest jafnréttismál sem koma upp eru umdeilanleg. Við höfum sama rétt samkvæmt lögum, svo hvernig stendur þá á því að við finnum stöðugt fyrir þessu vogarafli? Og er það raunverulegt eða er hugmyndin bara alin upp í okkur?

Feminismi er ekkert bara sú skoðun að jafnrétti sé ekki náð. Hann er ekki síður tilfinning.
Tilfinningin sem grípur þig:
-Þegar þú situr með vinkonu þinni á öldurhúsi, niðursokkin í samræður og karlmaður sprangar fram á ykkur, útblásinn af innistæðulausu sjálfstrausti og segir “hvað eru svona fallegar konur að gera einar?”
-Þegar þú segir yfirmanninum að verkefnaflóðið sé orðið óviðráðanlegt, þú þurfir að fá aðstoðarmann og nokkrum vikum síðar tilkynnir hann þér með tölvupósti að vegna hagræðingar hjá fyrirtækinu sé búið að ráða annan mann (karlmann að sjálfsögðu) í þitt starf og þú verðir flutt í annað starf þar sem þú hefur minni völd an áður -og skilur ekkert hversvegna þú ert reið, því hann var jú einmitt að þessu til að létta á þér.
-Þegar ókunnugur karlmaður segir þér af óumbeðinni umhyggjusemi, hvernig þú getir bætt ímynd þína og/eða hvernig þú þurfir að breyta verkum þínum til að verða geðþekkari.
-Þegar karlmaður sem er ekki nógu öruggur gagnvart þér til að kaupa handa þér gjöf nema spyrja þig fyrst hvort þú kærir þig um það, er samt nógu öruggur um þig til að tilkynna þér að þú “megir ekki” vera með öðrum karlmanni.
-Þegar þú, eftir ævilöng kynni af sjálfri þér segir nýjum bólfélaga að þú kærir þig ekki um einhverja tiltekna kynferðisathöfn og hann svarar “jújú, ég skal sýna þér…”

Hversvegna í fjandanum halda þeir að þeir geti leyft sér þetta? Líklega af því að við samþykkjum það?

Við gerum örugglega eitthvað sambærilegt eða ekki skárra. Ég hef staðið sjálfa mig að því að rífa straubolta af karlmanni. Sennilega hefði ég ekki vaðið yfir konu á sama hátt enda þótt mér hefðu mislíkað aðfarirnar. Ég skil gremju karlmanns þegar konan virðir hann fyrir sér og spyr í sama tón og hún væri að tala við smástrák; “ætlarðu að fara í þessu?” Af hverju þykir allt í lagi að hafa orð á holdafari karlmanns en ekki konu? Af hverju finnst karlmanni hann vera leiðinlegur ef hann frábiður sér kynferðislega áreitni af hálfu konu?

Það er ekki hægt að setja lög gegn yfirlæti, hvað þá gegn því að fólk upplifi eitthvað sem ekki var meint á þann þann hátt. Er þessi framkoma kynbundin eða tökum við bara meira eftir þessu ójafvægi milli eintaklinga af gagnstæðu kyni en því sama? Og er valdataflið í samskiptum (kynjanna?) lögmál? Eigum við einhverntíma eftir að umgangast án þess að hugsunin “hvað heldurðu eiginlega að þú sért” mari í hálfu kafi?