Hvað eru glæpasamtök?

Ég játa að mér finnst það óhugnanleg tilhugsun að Vítisenglar og álíka samtök nái fótfestu á Íslandi. Ég er hinsvegar líka meðvituð um að öll mín vitneskja um slík ‘gengi’ er til komin fyrir einhliða umfjöllun fjölmiðla. Ég hef aldrei talað við neinn úr mótorhjólasamtökum á borð við Fáfni, hvað þá Vítisengil og veit í rauninni ekkert um það hvers vegna Vítisenglar ganga um (eða aka um) og berja mann og annan. Hverjir eru þeir og hvaðan koma þeir? Hvað eru þeir svona óánægðir með og hvað vilja þeir? Hvað er svona æðislegt við Helvíti? Hversvegna líta þeir á fórnarlömb sín sem óvini? Af hverju álíta þeir aðferðir sínar æskilegar?

Af almennri umfjöllun um svokölluð gengi má helst ráða að það séu svona ljótukallasamtök. Samsafn af vondum manneskjum sem hafa það helst að markmiði að ræna og drepa og nauðga og meiða án þess að nokkur tilgangur búi að baki. Auðvitað er þetta ekki svo einfalt. Þegar upp er staðið eru gengi ekkert annað en hagsmunasamtök sem af einhverjum ástæðum hafa valið að beita ólöglegum aðferðum.

Hvort sem sú afstaða á sér réttlætanlegar ástæður eða ekki, þætti mér viðeigandi að fjölmiðlar kynntu bakgrunninn og hugmyndafræðina sem ‘gengin’ vinna eftir, þegar fjallað er um samfélagsógnina sem af þeim stafar. Ég gæti nefnilega best trúað því að auðveldara sé að draga úr þeirri ógn ef samfélagið skilur tilurð og hugsunarhátt gengisins. Það hefur allavega ekki virkað vel hingað til að stilla upp ímyndinni af Dr. Evil á móti hinu siðmenntaða samfélagi, sem þegar allt kemur til alls, er helst frábrugðið genginu að því leyti að yfirgangur ákveðinna hagsmunahópa er viðurkenndur og bundinn í lög.

mbl.is Vaxandi samfélagsógn
 

 

One thought on “Hvað eru glæpasamtök?

 1. ————————————————————-

  Er ekki nýbúið að vera viðtal við einhvern norskan sérfræðing um þessi mál?

  Hver er reynsla Dana af „mönnunum úr Vítinu“‘?

  Hvar er nú afbrota-sérfræðingur lögreglunnar?

  Eru ekki til einhverjir menn sem sérhæfa sig í að rannsaka svona mál?

  (Að skilgreina áhættur-greiningardeildir?)

  Hvar er nú riddarinn á hvíta hestinum?

  Hver er fremsti (góði) riddarinn?

  Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 08:35

  ————————————————————-

  Sæl Eva,

  ég er ekki sammála þér að það vanti einhverja meira hlutlausa, upplýsandi umfjöllun. Ég get eins sagt að öll mín vitneskja um kynferðisafbrotamenn og nauðgara sé til komin fyrir einhliða umfjöllun fjölmiðla. Ég afþakka samt pent að fá vita meira um „bakgrunninn og hugmyndafræðina“ þeirra.

  Til að skilja hugmyndafræði Englanna er líka hægt að horfa á ‘Sopranos’, reyndar uppdiktað glæpagengi og ekki á mótorhjólum. En hugmyndafræðin er einföld. Þeir vilja græða pening.

  Skeggi Skaftason, 1.9.2009 kl. 09:17

  ————————————————————-

  þurfum við ekki að prufa þetta eins og danir og norðmenn – ekki dugar okkur þeirra reynsla er það ?

  Jón Snæbjörnsson, 1.9.2009 kl. 10:45

  ————————————————————-

  Smá infó handa greinarhöfundi, Samtökin voru flugsveit í seinni Heimsstyrjöldinni og kölluðu þeir sig Hells Angels, eftir stríð hittust þessir sömu menn og stofnuðu mótorhjólaklúbb og héldu nafninu á gömlu flugsveitinni sinn Vítisenglar Hells Angels, síðan stækkaði þessi klúbbur og í dag skiptir félagatal þúsundum. Ég læt þetta duga ætla ekki að fara út í skoðanir mínar á samtökunum hér heima, allavega veistu núna hvernig þessi samtök urðu til.

  Guðjón Þór Þórarinsson, 1.9.2009 kl. 16:23

  ————————————————————-

  Við þurfum að láta heyra í okkur gegn þessum kakkalökkum. Sameinuð stöndum við gegn þessum glæpamönnum. Vona að ríkislögreglustjóra takist að fá þessi samtök bönnuð!!!

  Helgi (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 19:41

  ————————————————————-

  Fyrirsögnin á þessari færslu þinni gefur í skyn að þú sért að gæla við samanburð við hinn skipulagða efnahagsglæp gagnvart þjóðinni sem við erum að byrja að súpa seyðið af.

  Samlíkingin er ekki út í bláinn. Núorðið finnst manni í aðra röndina öll afbrot vera frekar léttvæg og öll glæpasamtök pissudúkkur.

  Gaman að sjá þig blogga á ný eftir hlé!

  Fimmta valdið (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 21:09

  ————————————————————-

  Skeggi. Það er alveg eins með kynferðisafbrot og aðra glæpi, forvarnir og meðferð byggjast á skilningi á hugsunarhætti afbrotamannsins. Að skilja hvað er að gerast í hausnum á honum jafngildir ekki því að samþykkja hegðunina.

  Eva Hauksdóttir, 1.9.2009 kl. 21:13

  ————————————————————-

  Sammál þessum pælingum þínum Eva. Þær eru áhugaverðar. Held t.d. að þessi mótorhjólasamtök hafi byrjað sem bara svona frekar utangarðs lið -í ekkert verri tilgangi en það. Nú eru þau þó orðin eins og hver önnur alþjóðleg glæpaklíka, þrátt fyrir vissa svona „tribal tendensa“ sem væri hægt að hafa gaman af.

  En; Nei takk !

  Hildur Helga Sigurðardóttir, 2.9.2009 kl. 02:44

  ————————————————————-

  Ekki svo að skilja að ég sé hrifin af glæpaklíkum almennt en ég hef ennþá meiri andstyggð á þeim glæpaklíkum sem njóta verndar löggjafans og lögreglunnar.

  Eva Hauksdóttir, 2.9.2009 kl. 10:26

  ————————————————————-

  Já samanber LÍÚ.

  Níels A. Ársælsson., 3.9.2009 kl. 09:59

  ————————————————————-

  wikipedia gerir mann einhverju nær, a.m.k ekki sama móðursýkin og í fjölmiðlaumfjölluninni:

  http://en.wikipedia.org/wiki/Hells_Angels

  Hrannar Jónsson (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 03:00

  ————————————————————-

   

  Okkar rétarkerfi er EKKI að taka á okkar stæðstu glæpamönnum, Eva segir að Bankahrunið  sé svipuð svikamilla og hjá Bandaríkjamanninum Madoff sem fékk 130 ára fangelsi!

  Á íslandi hefur enginn verið handtekinn, engar eignir frystar, og þið eruð að hafa áhyggjur af vélhjálagengi sem á að hafa náð 40 milljónum.!  tittlingaskítur!

  Það voru fjórir menn sem náðu 1.100 milljónum út úr Byr. það hefur enginn verið handtekinn, og þeir munu eflaust komast upp með glæpinn, þeir höfðu vanan Lögfræðing með sér ,sem sagðist vera “ vanur að taka til eftir partý “ .

  Kannski eina vonin sé að fá Hell Engels til að ná þessum 1.100 milljónum aftur, þeir mættu bara ekki kalla það handrukkun, fá góðan lögfræðingmeð sér  í málið og kalla það tiltekt eftir hrunið!  Kannski nýja Ísland þurfi á Hell Engels að halda ef dómskerfið virkar ekki?

  —– Original Message —–

  Jónsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 11:20

  ————————————————————-

  „Jónsson“; það er ekkert réttlæti í íslensku samfélagi, þess vegna er misræmið svona mikið. 1.200 eiga eftir að sitja af sér „vararefsingu“ (fangelsi vegna ógreiddra skulda við Ríkissjóð – og þar af á milli 60-70% vegna „fíkniefnasekta“). Ef þú stelur pylsupakka eða tímariti – eða ert grunaður um „fíkniefnainnfluttning“, færð þú sko að dúa á meðan rannsókn stendur. En, ef þér tekst að ræna samfélagið og leggja það á hliðina, mátt þú svo sannarlega njóta ávaxtanna! Það er hið raunverulega „réttlæti“ í dag. Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem ræna milljörðum, hafa efni á að kaupa valdhafana hverju sinni – hinir eru fordæmdir sem „glæpamenn“!

  Það er EKKERT réttlæti í íslensku samfélagi – því var útrýmt fyrir mörgum áratugum síðan. Fólk tók bara ekki eftir því, fyrr en núna.

  Skorrdal (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 11:38

Lokað er á athugasemdir.