Hvað er í dósinni?

Höndin sem fæðir mig færði mér niðursuðudós í fyrradag. Sem væri svosem ekki í frásögur færandi nema af því að hún vakti hjá mér tilfinningu sem ég hélt að væri dauð.

Þessi ofur sérstaka niðusuðudós er ómerkt. Ekki með neinum miða. Ég veit ekki hvað er í henni. Og merkilegt nokk, ég upplifi forvitni, eftirvæntingu, eins og þegar ég var lítil og fékk innpakkaða afmælisgjöf.

Ég hef ekki fundið fyrir þessari tilfinningu mjög lengi. Ég er búin að hrista dósina til að reyna að átta mig á hvað er í henni. Kannski grænar baunir. Kannski ananasbitar. Kannski tómatsósa. Kannski hundamatur. Ég gæti auðvitað bara opnað hana og athugað það en ég á svo mikið af sniglum sem ég þarf að klára áður en þeir skemmast að það væri ekki verjandi að opna dós sem hugsanlega inniheldur líka snigla. Þetta er búið að vera mjög erfitt í dag.

Innpakkaðar gjafir vekja þessa tilfinningu ekki lengur. Ég held að það sé að hluta af því að ég veit nákvæmlega hvenær ég mun opna pakkann. Þegar maður er lítill gerir maður sér ekki almennilega grein fyrir muninum á ‘eftir tvo daga’ og ‘eftir þrjá daga’. Og maður leyfir líka sér að fantasera um það hvað kunni að vera í pakkanum. Maður kann ekki almennilega við það þegar maður er fullorðinn.

Fólk hefur eytt ómældum tíma í að reyna að finna réttu göfina handa mér. Að maður tali nú ekki um peninga. En það sem hitti í mark hjá mér var ómerkt niðursuðudós.

Hvort innihaldið vekur mér fögnuð kemur í ljós þegar sniglarnir eru búnir. Mér finnst það táknrænt. Að það séu sniglar meina ég. Þeir eru víst svo hægir á sér. En hvort sem það er maískorn, jarðarber eða kókosmjólk sem ég fæ upp úr dósinni, þá er ég viss um að innihaldið er á einhvern hátt táknrænt.

 

One thought on “Hvað er í dósinni?

 1. ——————————————–

  Litli bróðir minn (minnir mig, frekar en systir) plokkaði einu sinni utan af öllum niðursuðudósunum í dósaskúffunni heima. Það var alltaf gríðarlega spennandi, í nokkrar vikur, hvort við vorum að fá blandaða ávexti, jarðarber eða grænar baunir þegar við opnuðum…

  Posted by: hildigunnur | 19.01.2009 | 1:07:24

  ——————————————–

  Nú, en gæti það verið, þú sér Elísabet?

  Posted by: tvífara | 19.01.2009 | 1:53:29

  ——————————————–

  Að ég sé Elísabet eða að ég sjái hana? Sá hana í gær en held að við verðum seint kallaðar tvífarar.

  Posted by: Eva | 19.01.2009 | 8:23:26

Lokað er á athugasemdir.