Frábært að fá franska kvikmyndahátíð.
Ennþá betra væri það ef upplýsingar um myndir og sýningatíma væru almenningi aðgengilegar. Dagskráin sem er birt á netinu er nefnilega öll í rugli, vantar inn í upplýsingar um myndir, dagsetningar stemma ekki við vikudaga og sýningatímar virðast vera á einhverju flakki líka. Allavega var allt önnur mynd í boði en sú sem var auglýst á netinu þegar við Darri fórum í bíó á föstudagskvöldið.
Myndin sem við sáum (óvart) heitir Falinn og er verulega góð en það skyggði aðeins á að tæknimenn sem sáu um sýninguna virtust vera algerir viðvaningar. Ég geri ekki miklar kröfur í þá veru en finnst samt skipta dálitlu máli að myndin sé á tjaldinu en ekki einhversstaðar annarsstaðar.
Ég ætlaði að sjá meira í dag en dagskráin á netinu er ekki áreiðanleg, ekki birt í fréttablaðinu eða á vef Háskólabíós og miðasalan svarar ekki síma.
Eru aðdáendur evrópskar kvikmyndagerðar virkilega svo örvæntingarfullir að þeir flykkist í bíó bara til að sjá eitthvað sem er ekki amerískt, jafnvel þótt þeir viti ekkert hvað það er?