Þunglyndi er ástand sem flestir upplifa einhverntíma á ævinni. Milli 10 og 20% verða einhverntíma á ævinni það veikir af þunglyndi að þeir komast ekki út úr því hjálparlaust. Í ljósi þess hve algengt þetta er, finnst mér með hreinustu ólíkindum hversu fáir kunna að bregðast við því.
Þunglyndi getur verið aðstæðubundið, hreinlega afleiðingar af áföllum eða langvarandi óhamingju eða það getur stafað af efnaskorti. Ástæðan skiptir í sjálfu sér ekki máli, einkennin eru þau sömu, yfirþyrmandi vanlíðan, vonleysi, óvirkni og mjög óþægileg nærvera. Þunglyndi er sennilega jafn erfitt fyrir aðstandendur eins og sjúklinginn því það er varla hægt að halda gleði sinni í návist manneskju í þessu ástandi en á hinn bóginn getur verið glapræði að láta fólk í þunglyndiskasti afskiptalaust.
Ég er ekki geðlæknir en ég hef bæði lent í alvarlegum geðlægðum sjálf og sinnt fólki í þessu ástandi og mér finnst með ólíkindum að viðbrögð við þunglyndi skuli ekki vera jafn sjálfsagt námsefni í grunnskólum og umferðarfræðsla og brunavarnir. Ráðin sem flestir grípa til eru þau sömu og gagnvart fólki sem hefur orðið fyrir minniháttar vonbrigðum eða er bara ekki í stuði. Fyrst vinsamlegar ábendingar um að ‘hressa sig við’ svo ráðleggingar og að lokum fer fólk út í það að þræta við sjúklinginn, rökræða um það hvort líf hans sé einhvers virði eða ekki. Ef því er haldið áfram nógu lengi verða sjúklingarnir tveir í stað eins. Þeir sem ekki nenna að sökkva sér í meðvirkni reyna annaðhvort að klippa á samtalið, forða sér eða þá að þagga niður í fýlupúkanum með því að taka undir það sem hann segir. Hvorttveggja er í huga þess sem stríðir við þunglyndi staðfesting á því að hann hafi rétt fyrir sér. Það hljómar kannski mjög geðveikislega en þunglyndi er semsé geðsjúkdómur, Það getur stafað af aumingjaskap eða þróast út í aumingjaskap en það er í grundvallaratriðum geðsjúkdómur og það er ekki hægt að laga það með með heilbrigðri skynsemi.
Það er ekki nærri eins flókið og maður gæti haldið að tala við einstakling í andlegri kreppu. Maður þarf bara að skilja nokkur grundvallaratriði:
a) Þunglyndi er sjúklegt ástand hvernig sem það er tilkomið. Að því gefnu að þú sért ekki læknir þá getur ekki læknað manninn, hann verður annaðhvort að gera það sjálfur eða fá faglega hjálp. Það eina sem þú getur gert er að vera til staðar, rétt eins og ef um líkamlegan sjúkdóm væri að ræða. Auk þess ertu að setja sjálfan þig í hættu því sjúklingurinn hefur stundum sjálfur mjög óheilbrigðar hugmyndir um æskilegar lækningaraðferðir en getur verið mjög sannfærandi. Ég þekki dæmi um að þunglynt fólk hafi sannfært sína nánustu um að ef þeir fái hátt peningalán verði allt í stakasta lagi. Ef viðkomandi er farinn að hegða sér skaðlega (leggjast í rúmið eða meiða sig) komdu honum þá undir læknishendur.
b) Þegar þunglyndur maður heldur því fram að líf hans sé ónýtt, þá er hann ekki að kalla eftir rökræðu heldur að láta vita að eitthvað sé að. Honum líður raunverulega svona. Það er jafn tilgangslaust að rökræða við fólk um líðan þess eins og rökræða trúmál. Hugsanlega fer svo að hinn aðilinn fallist á rök þín, en það lagar ekki tilfinninguna. Þú myndir ekki reyna að segja manni sem kvartar um verk í fæti að þar sem hann sé ekki fótbrotinn séu verkirnir bara vitleysa í hausnum á honum, vegna þess einfaldlega að þín skoðun losar hann ekki við verkina.
c) Þunglyndur maður þarf ekki góð ráð, heldur samúð. Það er jafn tilgangslaust að benda á björtu hliðarnar eins og að benda fótbrotna manninum á að hann sé þó allavega ekki handleggsbrotinn. Það er tilgangslaust að benda þeim sem er í þunglyndi eftir að hafa misst vinnuna á að hann geti fengið aðra vinnu eða þeim sem er í ástarsorg á að hann geti elskað einhverja aðra. Óumbeðnar ráðleggingar hljóma í skársta falli fáránlega en geta líka orkað sem háð á þann sem er mjög illa haldinn.
d) Þótt þunglyndi sé sjúklegt ástand ber viðkomandi sjálfur ábyrgð á því að bregðast við því. Það er mikill munur á því að gera lítið úr líðan hans og að kalla hann til ábyrgðar á því að takast á við það. Þú skammar ekki mann í þunglyndi ekki frekar en þú reynir að lina kvalir hins fótbrotna með því að segja ‘þér var nær’. Alveg á sama hátt og sá sem er fótbrotinn verður að sýna samvinnu jafnvel þótt það sé sársaukafullt, þarf að glíma við þunglyndi til að yfirvinna það. Það er ekki hægt að hjálpa þunglyndissjúklingi með því að hjúkra honum.
Þegar einhver sem þér þykir vænt um er miður sín er eðlilegt að þú byrjir á því sem virkar á heilbrigða manneskju á erfiðum degi; – hvaða vitleysa, þú þarft bara að hressa þig við, af hverju ferðu ekki bara í nám? það er allt í lagi að vera gráhærður, þú lætur bara lita á þér hárið, hættu nú þessu væli… Þú sérð strax hvort þetta virkar eða ekki og ef um þunglyndi er að ræða mun þetta sennilega hafa öfug áhrif. Næst þegar það gerist prófaðu þá að;
a) viðurkenna tilfinninguna en ekki röksemdafærsluna
-með því að svara á sama hátt og ef hann væri fótbrotinn
-neita að ræða sjúklegar hugmyndir eins og t.d. að hann sé einskis virði en án þess að þagga niður í honum
b) láta viðkomandi taka ábyrgð
-með því að nota spurningar meira en staðhæfingar
-með því að virða óskir hans um að vera látinn í firði þótt þú vitir að sé ekkert að marka hann
Ímyndaðu þér samtal við mann með mikla verki í fæti. Þú myndir líklega segja eitthvað á þessa leið:
-Ertu búinn að vera svona lengi?
-Viltu fara upp á slysó?
-Þú ert ekki brotinn. Þetta lagast sennilega þegar bólgan hjaðnar en viltu kannski prófa að taka verkjalyf til að slá á þetta?
Prófaðu að nálgast þann þunglynda á sama hátt
-Þér líður greinilega illa, hefur þér liðið svona lengi?
-Já þetta er ömurlegt ástand, viltu prófa að leita til læknis?
-Ég held reyndar ekki að það sé rétt hjá þér að þetta lagist aldrei en þetta kannski frekar spurning um hvað er hægt að gera núna strax. Eigum við að koma aðeins út og athuga hvort þér líður betur?
Sá sem er meiddur á fæti reynir sennilega ekki að gera til þín óraunhæfar kröfur um að þú læknir hann. Sá þunglyndi gæti hinsvegar reynt það. Þú getur prófað að bjóða það sama og þegar þarf bara að ‘hressa hann við’. Horfa með honum á bíómynd eða gefa honum mat. Ef hann vill ekkert slíkt, taktu þá mark á því. Ef þú ferð að dekstra þann sem er í þunglyndi þá ertu að gefa honum þau skilaboð að þú takir ekki mark á honum og það sé auðvelt fyrir hann að fá þörfum sínum fullnægt með því að hegða sér eins og bjáni. Prófaðu frekar eftirfarandi:
-Það er skelfileg tilfinning að halda að öllum sé sama um mann.
-Nei það er reyndar ekki rétt hjá þér að öllum sé sama um þig en fyrst þér líður þannig þá þarftu náttúrulega að gera eitthvað í því.
-Hvað viltu gera í þessu?
-Hvað get ég gert fyrir þig?
Ef ekkert kemur út úr svona samræðu og viðkomandi er ekkert jákvæðari, þá getur þú ekkert meira gert. Ef ástandið er ekki það slæmt að það sé ástæða til að koma viðkomandi undir læknishendur, þá skaltu sjálfs þín vegna slíta samtalinu þegar þú sérð að þú kemst ekki lengra. Hafðu samt í huga að hversu leiðinlegur sem viðkomandi er, þá ræður hann ekki við það og höfnun getur verið stórhættuleg. Ef þú þarft að slíta samtali gerðu það þá án þess að hafna honum. Þú getur t.d. sagt;
-Mér finnst leiðinlegt að þér skuli líða svona en ég verð líka leiður þegar ég get ekkert gert fyrir þig svo ég ætla að fara núna. Ég hringi í þig á morgun.