Hugleiðing um rottur

Ég veit að pínulítil, viðbjóðsleg rottusál hangir langtímum á sápunni minni. Nei, ég er ekki þessi týpa sem leggur sig niður við að rekja ip tölur. Auk þess hef ég engan tíma í svoleiðis bull. Ég fékk þetta bara staðfest fyrir tilviljun.

Grey litla rottan. Hún heldur að hún sé svo heppin. Allir hafa sagt henni að rottur séu stórsnjöll kvikindi og svo eru þær svo lífseigar. Verður ekki meint af að róta í skít og hafa þessi einkennilegu höfuðbein sem leggjast bara saman ef þær þurfa að smjúga inn um þröngar rifur til að ná sér í æti, eða út um þær til að forða sér.

Það sem hún veit hins vegar ekki er að versti óvinur hennar er hvorki meindýraeyðirinn né kötturinn, heldur félagar hennar. Hinar rotturnar. Hún er svo lítil rottusál. Svo lítil og vitlaus að þegar stóra, feita rottan vísar henni á skítahaug og segir henni að éta, þá heldur hún í alvöru að stóra rottan sé vinkona hennar. Hún veit ekki að stóra rottan notar hana sem tilraunadýr.

Halló litla, hálfsköllótta halarotta. Þú ættir sjálfrar þín vegna að taka betur eftir því sem er að gerast í kringum þig en að bora viðurstyggilegu snjáldrinu á þér í dagbókina mína. Hér er ekkert ætilegt fyrir ógeðskvikindi eins og þig. Forvitnilegt til að naga smávegis kannski -en ekki ætilegt. Fylgstu heldur með stóru feitu rottunni sem situr glottandi og gónir á þig á meðan þú gúllar í þig sorpinu. Veistu af hverju hún étur ekki líka? Ég skal segja þér það. Hún er að bíða eftir því að sjá hvort þér verður meint af. Þegar hún er búin að sannfæra sig um að þú braggist vel, mun hún líka fá sér að éta. Og reka þig frá, sannaðu til.

ÆÆÆ. Eymingja, litla, ljóta, sýkladreifandi nagdýrsgrey. Þrátt fyrir ógeð mitt á rottum vorkenni ég þér næstum því. Þú munt nefnilega ekki lifa eins lengi og þú heldur. Stóra, feita, halalanga vinkona þín er nefnilega gáfaðri. Hún mun alltaf nota litlar og heimskar rottur eins og þig sem tilraunadýr. Það er eðli hennar.

Nei, það er líklega rétt sem þær segja, rottum stafar ekki ógn af vel öldum heimilisköttum. Það er svo mörg vitleysan sem sögð er um ketti. T.d. að allir staðir séu kettinum jafn kærir. Það er bara bull. Köttur myndi t.d. aldrei velja sér samastað í skítahaugnum þínum. Hann er bara of hreinlátur til þess. En eitt er þó rétt sem þeir segja um köttinn. Hann fer í alvöru talað sínar eigin leiðir.

Og þótt heimiliskettir eltist frekar við götótta sokka og garnhnykla en lifandi rottur, eru ennþá til villikettir á Íslandi.