Mig dreymdi að Napóleon væri búinn að kljúfa Miðflokkinn og stofna nýtt framboð og Gunnar Bragi væri í sárum, genginn til liðs við Pírata og hefði sett í gang Twitterherferð með myllumerkinu #hrossakaup.
Ég ákvað að kjósa ekki Pírata og taka ekki þátt í neinum Twitterherferðum. Einhver asni á internetinu sagði að ég væri að persónugera vandann með því að vera fúl yfir þessum liðsauka enda væri stjórnmálaflokkur án Framsóknarmanna pólitískur ómöguleiki. Af einhverjum ástæðum fannst mér þetta vera tilefni til þess að hringja í Ívar vin minn og biðja hann að skála við mig í kartöfluflögum.