Smíða bát með leynivini mínum úr barnaskóla. Andans fley. Hann stýrir verkinu, ég ber lím á trékubbana en hann neglir.
Birta: Taktu hamarinn af honum!
Eva: Í guðsbænum láttu mig nú í friði. Ég er að reyna að leika við hann Halla Gulla og þetta er fínt svona.
Birta: Þú getur alveg svissað hlutverkunum án þess að hann fatti það.
Eva: Já áreiðanlega, en til hvers? Hann ræður alveg við þetta, áreiðanlega betur en ég.
Held kubbunum við fjölina á meðan Halli Gulli neglir, líka þegar þess þarf ekki. Ég held fingrunum óþarflega nálægt nöglunum, bara til að storka Birtu.
-Þér er greinilega alveg sama þótt ég berji á puttana á þér, segir hann.
-Nei en ég treysti þér, segi ég. Sé að þetta þarfnast nánari útskýringar svo ég held áfram:
-Þú varst eini strákurinn í skólanum sem gast lamið mig án þess að meiða mig.
-Það má nú kannski skilja það sem móðgun. Eins og ég hafi verið of aumur til að ráða við þig, segir hann og þótt hann viti nákvæmlega hvað ég á við staðfesti ég þá túlkun sem ég veit að hann hefur í huga:
-Neinei, þú bara vissir hvenær þú áttir að hætta. Skildir að þótt ég fengi kikk út úr áflogum væri ekkert í lagi að láta hnefana vaða í andlitið á mér.
Hann segir svosem ekkert. Brosir bara. Rekur svo síðasta naglann í bátinn, án þess að slá á puttana á mér.