Hlýddu

Ég hef gaman af orðum sem tákna tvennt ólíkt. Orðið ‘hljóð’ er sennilega undarlegasta orð íslenskunnar því það táknar í senn hávaða og þögn. Hvernig á að útskýra svona rugl fyrir nýbúum?

Það áhugaverðasta við orð með margar merkingar er þó það hvernig tungumálið afhjúpar viðhorf okkar. Vitur maður hefur bent á að það sé ekki tilviljun að lán táknar bæði gæfu og það að setja sig í skuldir enda hafa Íslendingar löngum litið á skuldsetningu sem gæfuspor. Annað orð sem kemur upp um frekar Íslendingslegt viðhorf er orðið ‘hóf’, sem stendur í senn fyrir gleðskap sem gjarnan einkennist af ofneyslu áfengra veiga og einnig það að halda hegðun sinni og neyslu innan skynsamlegra og geðfelldra marka. Sögnin ‘að vinna’ toppar svo bilunina, rétt eins og einhver sigur sé fólginn í því að slíta sér út.

Undanfarið hafa sagnirnar að hlýða og gegna verið mér einna hugleiknastar slíkra afhjúpunarorða. Sú fyrri merkir annarsvegar að hlusta og hinsvegar að fara að fyrirmælum yfirboðara. Sú síðari merkir að svara og um leið að fara að fyrirmælum yfirboðara. Þannig fela þessi orð í sér þá hugmynd að það að hlusta og svara jafngildi því að vera þeim þóknanlegur sem til manns talar. Eða kannski að þeir sem taka sínar eigin ákvarðanir séu vart viðræðuhæfir.

One thought on “Hlýddu

 1. Tjásur:

  Eitt orð í viðbót…auður merkir bæði auðæfi og að eitthvað sé tómt, og er svo nafn í þokkabót! 🙂

  Posted by: Auður | 5.07.2009 | 19:42:53

  já… svona hlustaðu og gegndu!

  Posted by: Hrönn | 6.07.2009 | 10:25:49

   

Lokað er á athugasemdir.