Hjal

Situr klofvega ofan á mér, hlæjandi og heldur úlnliðum mínum við axlirnar.

-Ég gæti kitlað þig.
-Þú vogar þér ekki!
-Ég gæti það. Ég er sterkari en þú.
-Virkilega?

Horfi á svip hans skipta úr Gáskanum í Rannsakandann, brosir út í annað og lyftir augnbrún, gefur frá sér hljóð sem er einhverstaðar miðja vegu milli vandræðaflisss og andvarps.

-Ég veit hvað þú ert að hugsa! Fokkitt Eva, ég sé það í augunum á þér.
-Þú ert aldeilis klókur.
-Í alvöru,
segir hann og losar takið um úlinliði mína; þú ert að óska þess að ég væri meira karlmenni.
-Jamm! Ég býð með óþreyju þess dags þegar þú tekur upp á því að safna nefbrúskum og prumpa við hvert tækifæri.
-Víst vildirðu að ég sýndi meiri manndóm. Þú vildir að ég tæki af skarið og gerði það sem þú varst að hugsa um fyrir nákvæmlega tveimur andartökum.
-Ljósið mitt. Ég óska þess ekki að þú sért neitt annað en það sem þú ert og sem betur fer þarf ég ekki endilega að framkvæma hverja einustu hugsun sem flýgur í gegnum hausinn á mér. Það yrði nú ljóta ruglið.
-Ég gæti prófað.
-Eflaust gætirðu það en til hvers? Þú hefur það ekki í þér og mér líður prýðilega.

Ég dreg hann til mín og velti mér ofan á hann. Grannur líkami hans gefur eftir, augun hálflukt og varnirnar eilítið aðskildar, almáttugur hvað ég elska þennan svip. Opnar svo augun og horfir á mig lengi. Ég horfi á móti og reyni að ráða í þessar viprur í kringum munnvikin.

-Halló sæti strákur. Hvað er að gerast í kollinum á ÞÉR akkúrat núna?
Hann svarar með óræðu umli.
-Ég er hrædd um að þú verðir bara að segja það. Ég er ekki eins flink að lesa hugsanir og þú.
Löng þögn.
-Það er… kannski flókið að segja frá því… meira eins og tilfinning en myndir… lýgur hann að lokum.
-Drengur maður, þú ert feiminn!
-Mmhm. Pínu.

Ég bið hann ekki að segja meira. Reikna ekki með að það þjóni tilgangi. Líklega hef ég það ekki í mér hvort sem er. Prrðra ástúðlega í hálsakotið á honum og hann þrýstir mér að sér. Hann er í alvörunni strekari en ég.

-Ég elska þig eins og stórt gult epli, segi ég.
-Gult?
-Já! af því að gul epli eru svo glöð.
-Það er augljóst mál að þú hefur aldrei unnið í blómabúð,
muldrar hann.
Svo ligg ég hjá honum og horfi á hann líða inn í svefninn.

One thought on “Hjal

Lokað er á athugasemdir.