Vinur minn varð svo óheppinn að veikjast alvarlega í nóvember. Til að byrja með gekk illa að greina sjúkdóminn og hann hefur því þurft að hitta marga lækna og fara í grilljón rannsóknir síðan. Það kostar auðvitað grilljón peninga og grilljón mínútur líka. Það er í sjálfu sér nógu slæmt hversu dýr sérfræðiþjónusta er en það sem mér blöskrar mest við reynslu félaga míns er það hversu litla þjónustu hann hefur í raun fengið fyrir alla þá peninga sem hann hefur þurft að punga út. Ef marka má reynslu hans er greinilegt að þrátt fyrir að læknar sendi öll gögn sín á milli, heyrir til undantekninga ef læknirinn er búinn að kynna sér sjúkrasöguna áður en sjúklingurinn mætir til hans og læknar virðast oft miklu þjálfaðri í því að sýna sjúklingnum samúð en að finna lausn á vandanum.
Fyrir nokkrum dögum þurfti þessi vinur minn að taka sér frí úr vinnu til þess að mæta enn einu sinni til sérfræðings. Sá vissi ekkert um hvað málið snerist enda þótt hann hefði skýrslu frá öðrum lækni fyrir framan sig. „Þjónustan“ sem þessi læknir veitti vini mínum fólst í því að kinka samúðarfullur kolli og hlusta á hann segja í smáatriðum nákvæmlega sömu söguna og hann hefur áður þurft að rekja, ekki sjaldnar en 10 sinnum. Læknirinn veitti honum ennfremur almenna læknisskoðun, nákvæmlega samkonar skoðun og 4 eða 5 aðrir læknar hafa veitt honum síðustu vikur án þess að nokkuð kæmi í ljós sem skýrt gæti veikindi hans. Að lokum strauk sérfræðingurinn höku sína þungt hugsi og sagði að sennilega væri síðasta sjúkdómsgreining sem hann fékk (frá tveimur sérfræðingum á ólíkum sviðum) alveg rétt og eitthvað þyrfti jú að gera í málinu en hann væri bara alls ekki viss um hvort væri heppilegra að setja hann á lyf eða senda hann í aðgerð. Þess má geta að ástæðan fyrir því að hann var sendur til þessa tiltekna læknis, var einmitt sú að hinir læknarnir vildu ekki ákveða meðferðina, enda sjúkdómurinn ekki þeirra sérsvið. Aukinheldur tjáði læknirinn vini mínum að þar sem hann hefði einnig einkenni sem stemmdu ekki við klassiska lýsingu á meininu, hefði hann hug á að senda hann í eina rannsóknina enn (hún kostar á bilinu 10-25 þús), bara svona til að útiloka algerlega möguleikann á því að þetta stæði í sambandi við annan kvilla, sem væri þó afar ólíklegt. Það væru nefnilega komin svo ný og fullkomin tæki sem gætu leitt miklu meira í ljós en þær rannsóknir sem hann hefði þegar gengist undir.
Fyrir þessa þjónustu borgaði félagi minn 5420 kr. og var þó engu nær um það þegar hann fór út, hvort, hvernig og hvenær ætti að meðhöndla sjúkleika hans.
Ef við reiknum auk beins kostnaðar vinnutap vegna viðtalsins og rannsóknina sem virðist helst þjóna þeim tilgangi að prófa nýju tækin (allavega lagði læknirinn mikla áherslu á að það væru nánast engar líkur á því að vinur minn væri með þann krankleika sem ætti að fara að leita að) þá sér hver maður að það er ekki á færi láglaunafólks að kaupa þjónustu heilbrigðiskerfisins. Og ég bara spyr, hver er ábyrgð læknisins gagnvart tíma og peningum sjúklingsins? Af hverju þarf maðurinn að borga 5420 krónur fyrir „þjónustu“ sem nýtist honum nákvæmlega ekki neitt og engin vinna virðist standa á bak við heldur? Ef læknirinn hefði kynnt sér gögnin, hefði hann líklega komist að þeirri niðurstöðu að það þjónaði engum tilgangi þótt hann hitti vin min minn og lýsti í augu hans og bankaði í hnéð á honum eins og fjöldi annarra lækna var þegar búinn að gera. Hann hefði þá getað sent svohljóðandi niðurstöðu á tölvupósti;
„Því miður get ég engu bætt við það sem aðrir læknar hafa þegar sagt þér. Gott væri að grípa til fyrirbyggjandi aðgera svo þú verðir ekki veikur aftur en ég veit ekki hvort er betra að setja þig á lyf eða senda þig í aðgerð, þú mátt bara ákveða það sjálfur. Þér er velkomið að fara í fleiri rannsóknir ef þú vilt lofa liðinu á Lansanum að æfa sig á nýju tækjunum en það þjónar áreiðanlega engum tilgangi fyrir þig sjálfan. Ég tek 5420 kr. fyrir að lesa ekki sjúkraskýrsluna þína, þú getur lagt þær inn á reikninginn minn.“
Með þessari aðferð hefði vinur minn getað sparað sér tímann sem fór í viðtalið og læknirinn hefði sparað sér ómakið við að taka á móti honum. Vinur minn hefði notað tímann til að þéna peninga, læknirinn hefði engu tapað, auk þess sem er mun fljótlegra að lesa sjúkraskýrslu en hlusta á söguna, sem breytist ekkert, og verður hvorki áhugaverðari né skiljanlegri við það að vera tuggin upp hvað eftir annað. Hvort sem ástæðan er ímyndunarveiki sjúklingsins, óræði eða óviðráðanleiki sjúkdómsins eða þekkingarskortur læknisins, þjónar litlum tilgangi að fara til læknis ef hann getur ekki gert neitt fyrir sjúklinginn.
Ég legg því til að við tökum upp heilbrigðisþjónustu á tölvutæku formi fyrir þá sem í raun hafa ekki gagn af því að hitta lækni. Það mætti útbúa tvennskonar stöðluð bréf, í öðru gæti komið fram að sennilega sé ekkert að „sjúklingnum“ nema móðursýki og í hinu að sennilega sé eitthvað að honum en það sé bara ekkert hægt að gera í því. Læknar gætu svo nýtt tíma sinn til þess að taka á móti fólki sem þeir hafa einhverjar forsendur til að veita almennilega þjónustu. Í alvöru talað; til hvers að þvæla fólki á milli lækna þegar er hvort sem er ekki hægt að gera neitt fyrir það?